Norræn og baltnesk ungmenni ræða sjálfbæra þróun á ReGeneration2030

16.05.18 | Fréttir
Unge spiser is ved en havn
Ljósmyndari
Yadid Levy/Norden.org
Leiðtogafundur unga fólksins, ReGeneration2030 Summit, verður haldinn dagana 18. til 20. ágúst í Maríuhöfn í Álandseyjum. Þátttakendur koma frá öllu Eystrasaltssvæðinu til að brýna vopnin í baráttunni fyrir sjálfbærri þróun. Til umræðu verður einn helsti vandinn þar um slóðir en það er svart vistspor neyslu og framleiðslu.

Það voru ungmenni á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum sem áttu frumkvæði að ReGeneration2030. Þau vilja skapa hreyfingu undir fánum sjálfbærrar þróunar þar sem kynslóðirnar ræða saman um lausnir undir stjórn unga fólksins.

Norræna ráðherranefndin er helsti fjármögnunaraðili fundarins en ungt fólk er í brennidepli í þriggja ára áætlun hennar um sjálfbæra þróun, Generation 2030. Í áætluninni er kastljósinu beint að sjálfbærri neyslu og framleiðslu, einu helsta viðfangsefni Norðurlanda vegna framfylgdar heimsmarkmiðinna um sjálfbæra þróun.

„Mikill virðisauki skapast við það að ungt fólk frá öllum löndunum hittist og kynnist. Við hjá Norrænu ráðherranefndinni eru hreykin af því að ReGeneration2030 getur orðið að veruleika fyrir okkar tilstilli. Eins er mikið fagnaðarefni að fjöldi félagasamtaka á Norðurlöndum og Eystrasaltssvæðinu hafa boðað þátttöku sína og stuðning við fundinn. Við þurfum að hefja raunverulegt samtal ungmenna og stjórnmálafólks, í þeim skilningi erum við öll Kynslóð 2030,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Leiðtogafundur unga fólksins, Regeneration 2030 Summit, er sá fyrsti sinnar tegundar. Hugmyndin er að fundurinn verði árlegur viðburður þar sem ungmenni á aldrinum 15-29 ára hittast, ræða saman og bera saman reynslu sína, ráða ráðum sínum og grípa til sameiginlegra aðgerða. Þátttakendur fá tækifæri til að ræða heimsmarkmiðin við lykilaðila á sviði sjálfbærrar þróunar með það fyrir augum að skapa tæki og finna snertifleti fyrir samstarf milli landanna.

Tólfta heimsmarkmiðið um sjálfbæra þróun og framleiðslu verður umfjöllunarefni fundarins en það getur hrint af stað þróun sem fleytir starfinu að hinum heimsmarkmiðunum fram á við.

„Þrátt fyrir að Norðurlönd og Eystrasaltssvæðið standi sterk á ýmsum sviðum sjálfbærrar þróunar er sjálfbær neysla og framleiðsla sá málaflokkur þar sem stærst viðfangsefni bíða úrlausnar. Það kallar á nýja hugsun og breytta lífshætti, og við teljum að ungt fólk gegni lykilhlutverki þegar skapa þarf nýjar lausnir til þess að við rífum okkur úr viðjum vanans og leggjum okkur fram um siðferðislega og ábyrga neyslu og framleiðslu á vörum og þjónustu,“ segir Linnéa Lundmark frá SDSN Youth en hún er í stýrihópi ReGeneration2030.

Fundi unga fólksins lýkur með yfirlýsingu og áætlun um innleiðingu þeirra úrræða sem fram koma á fundinum. Niðurstöðurnar verða kynntar ráðamönnum á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og Eystrasaltsráðsins (CBSS) en þessar stofnanir koma einnig að fundinum. Fundinum verður fylgt eftir með minni viðburðum fram til næsta leiðtogafundar að ári. Umræðum verður miðlað á heimasíðu.

ReGeneration2030-tengslanetið er í stöðugum vexti og er opið nýjum aðilum frá viðkomandi löndum. Nánari upplýsingar um skipulag samstarfsins er að finna á vefnum www.regeneration2030.org