Norræna ráðherranefndin býður til norrænna þríðhliða viðræðna
Græn og stafræn umskipti kalla á nýja hæfni hjá vinnuafli framtíðarinnar. Meðal annars verður menntun að taka mið af þessu en einnig kallar þetta á sveigjanlegri vinnumarkað eins og Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, lagði áherslu á í lokaávarpi sínu á ráðstefnunni.
„Við þurfum að ýta undir hreyfanleika í vinnu með því að skapa sveigjanlegri, meira inngildandi og kvikari vinnumarkað. Það felur í sér að fella burt hindranir í vegi fyrir hreyfanleika á milli sviða og svæða, efla símenntun og tryggja að launafólk geti með einföldum hætti fært sig yfir í ný hlutverk í takt við breytingar markaðarins,“ sagði Ellemann.
Norrænar þríhliða viðræður
Hún benti jafnframt í mikilvægi norræna líkansins fyrir vinnumarkaðinn og sagði það þurfa að sanna gildi sitt á ný. Nú þarf að finna leiðir til að samræma vinnuaflið við nýjar hæfniskröfur.
„Þess vegna efnir Norræna ráðherranefndin nú til norrænna þríhliða viðræðna með það að markmiði að brúa hæfnibilið. Við munum stefna saman vinnuveitendum, launþegum og fulltrúum menntakerfisins frá öllum Norðurlöndum. Við vitum hverjar áskoranirnar eru og þær eru svipaðar á öllu svæðinu. Áhersla okkar verður á lausnirnar,“ sagði Ellemann.
Öflugt framlag Norðurlanda
Framlag Norðurlanda á ráðstefnunni var öflugt. Auk Karenar Ellemann tóku Anders Ahnlid, formaður Stjórnsýsluhindranaráðs Norðurlandaráðs, og Rolf Elmér, framkvæmdastjóri rannsóknarstofnunarinnar Nordregio, þátt.
Anders Ahnlid, framkvæmdastjóri Kommerskollegium í Svíþjóð, lagði áherslu á þýðingarmikið hlutverk OECD þegar kemur að samstarfi á landamærasvæðum. Hann undirstrikaði mikilvægi þess að fella niður hindranir sem koma í veg fyrir frjálsa för vinnuafls yfir landamæri og þar með líka hagvöxt.
Einnig benti hann á þýðingu þess að OECD haldi ráðstefnu sína í samstarfi við meðal annars ráðherranefndina.
„OECD er í fararbroddi í heiminum þegar kemur að því að skapa vísindalegan grunn til að byggja ákvarðanir á, einnig í tengslum við samstarf á landamærasvæðum. Það er mjög mikilvægt að eiga gott samstarf við þau áfram,“ sagði Ahnlid.
Framkvæmdastjóri Nordregio vill sjá „pull factors“
Rolf Elmér undirstrikaði líka hversu þýðingar mikil frjáls för er og nefndi að hreyfingar á milli norrænu landa séu í raun aðeins tæplega helmingur af því sem gerist annars staðar í Evrópu. Hann vill að lögð verði meiri áhersla á „pull factors“, það er að segja hvata sem fá fólk til að flytja til annarra landa til frambúðar.
„Við getum aukið flutninga á milli landa okkar með aukinni samþættingu,“ sagði hann.
Norræna ráðherranefndin er með þá framtíðarsýn að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Forsenda þess að markmið framtíðarsýnarinnar náist er að fella burt stjórnsýsluhindranir sem koma í veg fyrir frjálsa för.
Staðreyndir:
- Það var Greater Copenhagen sem hélt ráðstefnu OECD um byggðaþróun, Local Development Forum 2024. Yfirskrift ráðstefnunnar var Building Bridges, Shaping Tomorrow.
- Ráðstefnan er haldin árlega. Þetta var í fyrsta sinn sem hún fór fram í tveimur löndum.
- OECD Local Development Forum er net sem samanstendur af meðlimum um allan heim sem vinna að því að styrkja og þróa sín heimasvæði og gera þau meira inngildandi og sjálfbær.
- Á ráðstefnunni koma saman fulltrúar svæðis- og landsbundinna stjórnvalda, yfirvöld efnahags- og samfélagsþróunar, verslunarsamtök, samfélagslegir frumkvöðlar, fyrirtæki, vinnumiðlanir og fleiri samtök.