Norræna ráðherranefndin stöðvar samstarf sitt við Rússland

03.03.22 | Fréttir
Nordens Hus, København
Photographer
Alf Kronvall/norden.org
Norræna ráðherranefndin stöðvar samstarf sitt við Rússland og Belarús. Ákvörðunin er tekin til að bregðast við hernaðarárás Rússlands á Úkraínu.

Norrænu samstarfsráðherrarnir fordæma harðlega árásarstríð Rússlands á hendur Úkraínu sem er óverjandi og löglaust samkvæmt þjóðarétti. Hernaðaraðgerðir Rússlands eru árás á öryggi í Evrópu. Norrænu löndin standa sameinuð við bakið á Úkraínu og úkraínsku þjóðinni.

Því hefur Norræna ráðherranefndin ákveðið að stöðva tafarlaust allt samstarf við Rússland og Belarús. Norrænu samstarfsráðherrarnir eru einhuga um þessa ákvörðun. Hún felur í sér að áætlanir, verkefni og starfsemi í Rússlandi og Belarús stöðvast þar til annað verður ákveðið.

„Vegna hernaðarárásar Rússlands á Úkraínu er með öllu ótækt að halda áfram samstarfi við þær kringumstæður sem uppi eru. Norræna ráðherranefndin hefur átt í samstarfi við Rússland frá árinu 1995. Samstarfið hefur getið af sér hundruð verkefna á sviðum á borð við heilbrigðismál, loftslags- og umhverfismál, rannsóknir og blaðamennsku og fjölmiðlun auk þess sem haldnir hafa verið fundir norrænna og rússneskra þingmanna. Markmiðið með samstarfinu hefur alla tíð verið að byggja upp traust, gagnkvæman skilning og þróun á svæðinu,“ segja norrænu samstarfsráðherrarnir.

Vegna hernaðarárásar Rússlands á Úkraínu er með öllu ótækt að halda áfram samstarfi við þær kringumstæður sem uppi eru.

Samstarfsráðherrar Norðurlanda

Þrátt fyrir mörg bakslög hefur Norrænu ráðherranefndinni tekist að halda sambandi við Rússland þegar lokað hefur verið á aðra. Verkefnin hafa lagt áherslu á samstarf þjóðanna og hafa verið borgaralegu samfélagi í Rússlandi mikilvæg stoð.

Norræna ráðherranefndin vill, ásamt alþjóðasamfélaginu öllu, senda rússneskum yfirvöldum skýr skilaboð. Samstarfsráðherrarnir leggja áherslu á að yfirlýsingunni sé beint til rússneskra stjórnvalda en ekki rússnesku þjóðarinnar.