Norræna skattaskjólsverkefninu lokið með góðum árangri

10.05.16 | Fréttir
Nordiska rådets session
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Norræna samstarfsverkefninu um gerð upplýsingaskiptasamninga á sviði skattamála við aflandssvæði er nú lokið með síðustu undirrituninni. Sameinuðu arabísku furstadæmin og Ísland skrifuðu undir tvíhliða skattaupplýsingasamning og þar með er árangursríku norrænu verkefni lokið. Norðurlöndin hafa skrifað undir skattaupplýsingasamninga við öll 45 skattaskjólsríki heims.

Samtímis því að verkefninu lýkur hafa fjölmiðlar um heim allan fjallað um svonefnd Panamaskjöl sem sýna að enn eru stunduð skattsvik, meðal annars á Norðurlöndum.Torsten Fensby, sem átti frumkvæði að verkefninu og stjórnaði því, segir að norrænu skattaupplýsingasamningarnir hafi markað tímamót í baráttunni gegn skattaundanskotum.

„Þökk sé verkefninu hafa tugir milljóna króna skilað sér aftur til landa okkar. Þetta eru peningar sem við hefðum að öðrum kosti hvorki séð tangur né tetur af. Sérfræðingar Norðurlanda höfðu í sameiningu ótrúlega góð samstarfsnet innan OECD, og það var algert lykilatriði,“ segir Fensby. „Löndin stóðu saman og sömdu í sameiningu og okkur tókst það sem engum öðrum hefur tekist.“

Þökk sé verkefninu hafa tugir milljóna króna skilað sér aftur til landa okkar. Þetta eru peningar sem við hefðum að öðrum kosti hvorki séð tangur né tetur af.

Trude Steinnes–Sønvisen, skattasérfræðingur í norska fjármálaráðuneytinu, sem einnig tók þátt í verkefninu frá upphafi, tekur undir orð Fensbys.

„Áður en norrænu samningarnir voru gerðir stóðum við einsömul. Við reiknuðum aldrei með að við myndum komast svona langt.“

En upplýsingaskiptasamningar eru auðvitað bara fyrsta skrefið, um það eru allir sammála. Þeir samningar sem nú hafa verið gerðir byggja á því að til staðar séu upplýsingar um falda fjármuni sem skattayfirvöld geta sent fyrirspurnir um – og líka fengið svör.

„Næsta skref, sem er byltingarkennt, verður samningur um sjálfvirk upplýsingaskipti sem tekur að fullu gildi á næsta ári,“ segir Steinnes –Sønvisen. „Þá fá yfirvöld stöðugt upplýsingar án þess að þurfa fyrirfram að búa yfir upplýsingum um nafn eða upphæð sem reynt er að rekja.“

„Áður en norrænu samningarnir voru gerðir stóðum við einsömul í starfi okkar. Við reiknuðum aldrei með að við myndum komast svona langt.“

„Skattsvik fela í sér gríðarstórt alþjóðlegt og pólitískt úrlausnarefni,“ segir Fensby.

„Við, og heimurinn allur, þurfum að laga skattalöggjöfina að aðstæðum á 21. öld. Staðan er enn þannig að hægt er hindrunarlaust að flytja peninga.“

Fensby leggur einnig áherslu á að löndin verði að virða kerfi hver annars.

„Óháð því hvaða skattkerfi er notað í hinum mismunandi löndum ættu þau öll að geta virkað án þess að eitt land hagnist á öðru. Sú krafa er raunhæf og réttlát og það taka einnig flest hinna svonefndu skattaskjólsríkja undir.

En það munu alltaf vera til skattsvikarar.  Skattlaus aflandsgeiri ógnar öllu alþjóðhagkerfinu og ef við náum ekki tökum á honum eru mjög miklar tölfræðilegar líkur á að heimurinn stefni í nýja fjármálakreppu.“

Trude Steinnes–Sønvisen er sammála þessu mati. Hún kallar eftir strangari refsiramma og auknum kostnaði fyrir þá sem skjóta fjármunum undan.

Fyrir Norrænu ráðherranefndina eru skattaupplýsingasamningarnir staðfesting á því hvaða árangri hægt er að ná með því að starfa saman.

„Norrænt samstarf er jarðvegurinn sem þessi góði árangur óx upp úr. Pólitískt samstarfsnet okkar er ákaflega þýðingarmikið, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur einnig alþjóðlega,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ráðuneyti telja einnig að samstarfið sé mikilvægt.

„Það var lykilatriði að Norðurlöndin tóku höndum saman á þessu sviði,“ segir Charlotte Svensson, ráðuneytisstjóri Magdalena Andersson, fjármálaráðherra í sænsku ríkisstjórninni. „Þetta sýnir mikilvægi norræns samstarfs.“