Norræna vörumerkið – og konurnar - afl í friðarviðræðum

26.01.21 | Fréttir
Astrid Thors

Astrid Thors

Photographer
Johannes Jansson

Astrid Thors frá samstarfnetinu Nordic Women Mediators var meðal frummælenda á friðarmálþingi Norðurlandaráðs.

Mikil áhersla var lögð á norræna friðarvörumerkið á stafrænu málþingi Norðurlandaráðs um frið og samfélagsöryggi á mánudaginn. Einnig var lögð rík áhersla á hlut kvenna á sviði friðarviðræðna á málþinginu.

„Það er mikilvægt að norrænu löndin takist það verkefni á hendur að leiða friðarviðræður í alþjóðlegum átökum og séu í fararbroddi í baráttunni fyrir friði, frelsi og lýðræði. Við höfum langa reynslu af þessu,“ sagði Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, á málþinginu.

Yfirskrift málþingsins var Samhällssäkerhet och nordisk fredsförmedling i en förändrad värld – Vägen framåt. Málþingið var haldið í tengslum við janúarfundi Norðurlandaráðs sem eru tveggja daga viðburður þar sem allir flokkahópar, nefndir og forsætisnefnd funda, að þessu sinni gegnum fjarfundabúnað.

Tilgangur málþingsins var að greina tækifæri í til samræmdari vinnu að því að ná sem bestum árangri í norrænu samstarfi um friðarumleitanir og átakavarnir. Umræðurnar voru byggðar á norrænu friðarskýrslunni frá 2019 New Nordic Peace: Nordic Peace and Conflict Resolution Efforts.

Norræna vörumerkið góður grunnur

Astrid Thors sem meðal annars er fyrrum ráðherra og þingmaður í Finnlandi lagði áherslu á norræna friðarvörumerkið. Hún benti á að Norðurlöndin væru þekkt fyrir að þar þrifist ekki spilling og fyrir góða stjórnarhætti, gegnsæi, jafnrétti og jöfnuð.

„Þetta er norræna vörumerkið sem nýta má til þess að styrkja hið norræna framlag til friðarviðræðna og ekki síst í fyrirbyggjandi starfi,“ sagði Astrid Thors.

Astrid Thors vill að norrænu löndin taki upp áþreifanlegt samstarf til þess að stuðla að vinnu við átakavarnir innan SÞ. Að hennar mati ættu norrænu fulltrúarnir í SÞ einnig að sjá til þess að SÞ nýti í starfi sínu hættumerki sem fram koma í mannréttindastarfi.

„Auk þess mætti nýta norrænt fjármagn til þess að styðja samstarf milli norrænna rannsóknarstofnana sem vinna að rannsóknum á átökum og þekkja málefni SÞ, og vita hvernig styrkja má fyrirbyggjandi starf. Þá ætti að skoða framlag til þess að koma í veg fyrir deilur þegar norrænu fjármagni er veitt til verkefna. Einnig ætti að horfa til taps á líffræðilegri fjölbreytni sem þátt sem stuðlar að átökum,“ sagði Astrid Thors sem er þátttakandi í samstarfsnetinu Nordic Women Mediators.

Tækifæri til frekara samstarfs

Tiina Kukkamaa-Bah yfirmaður Afríkudeildar friðarhreyfingarinnar The Crisis Management Initiative CMI í Finnlandi, sagði í erindi sínu að tækifæri væru til þess að auka norrænt friðarsamstarf.

„Norrænn styrkur felst í nánu samstarfi milli ríkisins og almennings í félagasamtökum. Tillaga mín er þess vegna sú að byggt verði upp breitt samstarfsnet sérfræðinga frá rannsóknarstofnunum og þátttakenda úr hópi almennings sem verði tæki í norrænni friðarmiðlun. Við vitum öll að samstarf er styrkur ef við viljum ná fram raunverulegum breytingum,“ sagði Tiina Kukkamaa-Bah.

Þáttur kvenna mikilvægur

Bæði Astrid Thors og Tiina Kukkamaa-Bah lögðu áherslu á mikilvægan hlut kvenna í friðarstarfi og lausnum deilna.

Cecilie Tenfjord Toftby í flokkahópi hægrimanna í Norðurlandaráði lagði einnig áherslu á hlut kvenna. Hún vísaði til fundar Kvennanefndar SÞ í New York 2019 og til málþings sem hún tók þátt í um konur sem miðlara friðar.

„Bent var á að friður héldist miklu lengur eftir átök þar sem konur hafa tekið virkan þátt í friðarviðræðum. Konur nota kannski aðrar leiðir til að miðla friði, þær gera frekar áætlanir til lengri tíma og stuðla að því að friðurinn sé ekki aðeins á pólitísku plani heldur nái lengra niður í grasrótina.

Friður og átakavarnir hafa verið ofarlega á baugi hjá Norðurlandaráði undanfarin ár og eru einnig liður í stefnu um samfélagsöryggi sem samþykkt var í ráðinu árið 2019.

Contact information