„Nýr norrænn friður“ þema málþings um frið og lausn deilumála

14.03.19 | Fréttir
Militärövining
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Hverjar eru forsendur norræns samstarfs á sviði friðar og lausnar deilumála í hinum margpóla veruleika sem við blasir í dag? Þessu er svarað í nýrri skýrslu sem birt verður í tengslum við þemaþing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn þann 9. apríl.

Í skýrslunni New Nordic Peace („Nýr norrænn friður“) er sjónum beint að því hvernig norrænu löndin geta starfað saman að friði og lausn deilumála. Í henni er lögð áhersla á núverandi innviði friðarsamstarfs svo og framtíðarmöguleika á sviðinu.

Skýrslan, sem er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni, verður kynnt og rædd á málþingi í danska þjóðþinginu í Kaupmannahöfn við lok þemaþings Norðurlandaráðs 2019. Málþingið er skipulagt af Norðurlandaráði og Centre for Resolution of International Conflicts (CRIC), miðstöð um lausn alþjóðlegra deilumála, sem sá um gerð skýrslunnar.

Þar verður lögð áhersla á frið sem norrænt vörumerki og á norrænt samstarf á sviði friðar og lausnar deilumála, en meðal annars eru tekin dæmi frá Afganistan, úr samstarfinu á vettvangi SÞ og norrænum samstarfsnetum sem fást við málefni kvenna, friðar og öryggis.

Á meðal þátttakenda í málþinginu eru forseti Norðurlandaráðs, Jessica Polfjärd, Isak Svensson prófessor við háskólann í Uppsölum, Erkki Tuomioja þingmaður í Norðurlandaráði og Christian Friis Bach, aðalritari dönsku flóttamannahjálparinnar.

Áhugasömum er bent á að tilkynna þátttöku sína í málþinginu til Helenu Slater á netfangið helsla@norden.org, ekki seinna en mánudaginn 1. apríl. Málþingið fer fram í Fællessalen í danska þjóðþinginu, Folketinget, þann 9. apríl klukkan 16–17:45. Málþingið fer fram á ensku.