Skýrsla: Nú er rétti tíminn fyrir Norðurlönd til að styrkja „friðarímynd“ sína

09.04.19 | Fréttir
Martti Ahtisaari
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org

Norðurlönd eiga sér sterka hefð þegar kemur að friðar- og sáttamiðlun. Á myndinni er Martti Ahtisaari, handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2008.

Samstarf á sviði friðar- og sáttamiðlunar nýtur mikils meðbyrs á Norðurlöndun núna og mikill áhugi er á auknu samstarfi á þessu sviði. Þá hafa Norðurlönd nú tækifæri til að styrkja „friðarímynd“ sína. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu.

Samkvæmt skýrslunni er skýringuna á þessum aukna áhuga á Norðurlöndum á friðar- og sáttasamstarfi meðal annars að finna í þeirri stöðu sem nú er uppi í alþjóðastjórnmálum.

Aukin andstaða við marghliða samvinnu og alþjóðleg viðmið eykur á samstarfsvilja á Norðurlöndum og Norðurlandabúar sjá einnig ávinninginn af samstarfinu. Þá hafa landfræðipólitískar breytingar í nærumhverfinu einnig aukið áhugann á samstarfi.

Hins vegar virðist ekki vera mikill vilji til þess að gera samstarf á sviði friðar- og sáttamiðlunar formlegra, samkvæmt skýrslunni.

Það var sáttamiðstöð Kaupmannahafnarháskóla (CRIC - Centre for Resolution of International Conflicts) sem vann skýrsluna fyrir Norrænu ráðherranefndina, eftir tilmælum frá Norðurlandaráði. Skýrslan, New Nordic Peace: Nordic Peace and Conflict Resolution Efforts, var kynnt í tengslum við þemaþing Norðurlandaráðs þann 9. apríl.

Sérstaklega bent á tvö samstarfssvið

Í skýrslunni er sérstaklega minnst á tvö svið þar sem löndin ættu að auka samstarf sitt. Annað málefnasviðið snýr að konum, friði og öryggismálum, en samkvæmt skýrslunni ætti þetta svið að spila stórt hlutverk þegar kemur að friðarímynd Norðurlanda. Hitt málefnasviðið snýr að fyrirbyggjandi sáttamiðlun og fyrirbyggjandi diplómatískum samskiptum.

- Víðtækt, norrænt samstarf um friðar- og sáttamiðlun og norræn „friðarímynd“ ættu að geta samræmst utanríkisstefnu og -hagsmunum allra norrænu ríkjanna. Ég vona að ríkisstjórnir Norðurlandanna taki skýrsluna alvarlega og fari í þær aðgerðir sem þær telja mikilvægar fyrir friðarstarf framtíðar. Í ljósi stöðunnar í alþjóðastjórnmálum er þetta rétti tíminn til að efla og auka friðarsamstarf, segir Jessica Polfjärd, forseti Norðurlandaráðs.

Í skýrslunni er einnig bent á nýja þróun í átt að svokölluðu „non-exclusive Nordic cooperation“, það er að segja samstarfi Norðurlanda við svæðisbundna og alþjóðlega aðila. Samkvæmt skýrsluhöfundum getur slíkt samstarf verið fyrirmynd að frekari aðgerðum Norðurlanda á sviði friðar- og sáttamiðlana.

 

Nánari upplýsingar:

Anine Hagemann, CRIC

Farsímanúmer: +45 61318884

Netfang: ambh@ifs.ku.dk

Isabel Bramsen, CRIC

Farsímanúmer: +45 28256737

Netfang: ib@cric.ifs.ku.dk