Norrænn ráðherrafundur um lestur barna og ungmenna á bókamessunni í Gautaborg

25.09.24 | Fréttir
Ljósmyndari
Unsplash
Hvernig getum við eflt lestur barna og ungmenna, bæði í skólanum og frítíma? Þessi mikilvæga spurning verður til umfjöllunar þegar ráðherrar menningar- og menntamála á Norðurlöndum koma saman á bókamessunni í Gautaborg til að fræðast hver af öðrum og heyra sjónarmið unga fólksins sjálfs.

Í tengslum við formennsku Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndinni standa sænska menningarráðið, Kulturrådet, og skólayfirvöld, Skolverket, fyrir norrænum ráðherrafundi á bókamessunni í Gautaborg þar sem fjallað verður um lestur barna og ungmenna.

Kastljósinu verður beint að samleik menningar og skóla í þágu réttar barna og ungmenna til lesturs. Þátttakendur frá Svíþjóð verða Parisa Liljestrand menningarmálaráðherra og Lotta Edholm skólamálaráðherra. Frá Finnlandi tekur Sari Multala vísinda- og menningarmálaráðherra þátt og frá Noregi Lubna Jaffery menningarmálaráðherra

Raddir ungmenna heyrast

Sjónarmið unga fólksins sjálfs eru mikilvægur hluti af samtalinu. Fyrir málþingið hafa ráðherrarnir kynnt sér viðhorf ungs fólks á Norðurlöndum til lesturs. Undir handleiðslu Unga berättar, Kulturskolan Stockholm, tóku um tíu ungmenni frá Norðurlöndum þátt í vinnustofu þar sem þau unnu myndir um þýðingu lesturs í lífi sínu. Myndirnar verða sýndar og ræddar á fundinum.

Bæði ég sem menningarmálaráðherra og ríkisstjórnin öll leggjum mikla áherslu á að efla læsi og lesskilning. Læsi almennings hefur verið styrkur fyrir Svíþjóð. Við megum ekki við því að glata þeirri hæfni en því miður eru margar vísbendingar um að það sé að gerast. Þess vegna gleður það mig mjög mikið þegar börn og ungmenni vilja sjálf taka þátt í þessu samtali. Að heyra hugmyndir þeirra sjálfra um lestur styrkir mig og hvetur til dáða í því að vinna áfram að læsi sænsku þjóðarinnar,“ segir Parisa Liljestrand, menningarmálaráðherra Svíþjóðar.

Pamela Schultz Nybacka, dósent í bókasafns- og upplýsingafræði og Tarja Alatalo, prófessor í kennslufræði, setja málþingið með því að segja frá rannsóknum á lestri barna og ungs fólks í skólanum og frítíma sínum. Matilda Westerman, rithöfundur og þáttastjórnandi, mun stýra umræðum.

Málþingið verður haldið fimmtudaginn 26. september kl. 11–12 (að sænskum tíma) á bókamessunni og er aðgangur ókeypis.