Norrænt samstarf á sviði aðlögunar heldur áfram

30.10.18 | Fréttir
Margot Wallström
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Árangur af fyrstu norrænu samstarfsáætluninni á sviði aðlögunar hefur verið góður. Áætlunin hófst með stuttum fyrirvara árið 2016 sem viðbragð við hinum alþjóðlega flóttamannavanda og henni lýkur í lok árs 2018. Á fundi sínum 30.10 tóku samstarfsráðherrarnir ákvörðun um nýja samstarfsáætlun á sviði aðlögunar fyrir tímabilið 2019-2021. Markmiðið er að auka skilvirkni í miðlun þekkingar og reynslu á sviði aðlögunar á Norðurlöndum og einnig að styrkja innviði þess samstarfs sem byggt hefur verið upp í fyrri samstarfsáætluninni.

„Samstarfið á sviði aðlögunar er afar gott dæmi um það hvernig við getum sameiginlega skapað nýja þekkingu og hagnýtar lausnir fyrir svæðið og alla sem það byggja, bæði þá sem hafa búið þar lengi og nýja íbúa þess,“ segir samstarfsráðherra Norðurlandanna í Svíþjóð Margot Wallström sem stýrir starfi samstarfsráðherranna árið 2018.

Samkvæmt rannsókn sem ráðgjafafyrirtækið Rambøll hefur gert finnst stjórnvöldum á Norðurlöndum að fyrri samstarfsáætlunin hafi bæði verið gagnleg og mætt þörfum. Þær upplýsingar sem hafa orðið aðgengilegar gegnum samstarfsnet, útgefin rit og vinnustofur undir merkjum samstarfsáætlunarinnar hafa auðveldað aðlögunarstarfið.

Sérstök áhersla á börn og ungmenni

Í niðurstöðum Rambølls er bent á að í nýrri samstarfsáætlun megi vinna áfram með afurðir þeirrar vinnu sem unnin hefur verið og innviði sem hafa orðið til á þeim tíma sem fyrri samstarfsáætlunin hefur staðið. Aðgerðir til þess að greiða fyrir þátttöku flóttamanna og innflytjenda á vinnumarkaði og staða nýaðfluttra barna og ungmenna, sérstaklega fylgdarlausra barna, eru meðal þeirra sviða sem sérstök áhersla er lögð á í nýju áætluninni. Einnig er lögð áhersla á hlutverk almennings og frjálsra félagasamtaka í aðlögunarstarfinu. Sá stuðningur sem þau veita flóttafólki og innflytjendum skiptir sköpum.

Vel heppnuð aðlögun kemur í veg fyrir útskúfun og öfgafullt ofstæki og eykur öryggið í samfélaginu

Margot Wallström

Fyrirbyggjandi starf gegn öfgafullu ofstæki er liður í nýju samstarfsáætluninni. 

Wallström bendir á að: „Til að vel takist til með aðlögun þarf að vera fyrir hendi þekking, þátttaka og áhugi bæði meðal hinna nýju Norðurlandabúa, hjá stjórnvöldum og í nærsamfélaginu. Vel heppnuð aðlögun kemur í veg fyrir útskúfun og öfgafullt ofstæki og eykur öryggið í samfélaginu,“ segir hún. 

Nýja samstarfsáætlunin á sviði aðlögunar flóttafólks og innflytjenda tekur gildi 1.1. 2019.

Intervju med Margot Wallström, nordisk samarbetsminister i Sverige, under Nordiska rådets 70:e session i Oslo, 2018.