Norðurlönd – Saman erum við öflugri

06.02.14 | Yfirlýsing
Nordiska flaggor
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Norrænu samstarfsráðherrarnir lögðu fram sameiginlega framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf á fundi þann 6. febrúar 2014

Upplýsingar

Adopted
06.02.2014

Samstarfsráðherrar Norðurlandanna ræddu á árunum 2013–2014 framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf og á grundvelli þeirrar umræðu senda þeir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

  • Við, samstarfsráðherrar Norðurlandanna, erum sannfærð um mikilvægi þess að norrænt samstarf verði áfram öflugt og markvisst á tímum þegar viðfangsefni hnattvæðingar, auðlindanýtingar og efnahagskreppu krefjast úrlausnar norrænu velferðarsamfélaganna jafnframt því að mikilvægi svæðasamstarfs fer vaxandi.
  • Á Norðurlöndum er löng hefð fyrir traustu samstarfi sem byggist á sameiginlegri sögu, menningu og landfræðilegri legu landanna. Samfélög okkar eru einnig byggð á grunni sömu gilda; lýðræðis, mannréttinda og sjálfbærni. Við höfum nýtt þessa sérstöðu í norrænu samstarfi til að ná fram samlegðaráhrifum og skiptast á reynslu í því skyni að finna haldgóðar lausnir á fjölda sviða sem gagnast hinum almenna borgara á Norðurlöndum. Áframhaldandi aðgerðir í þá veru að greiða leiðir borgara, vöru og þjónustu innan Norðurlanda hafa átt þátt í að efla samkeppnisstöðu landanna. Samstarfið hefur einnig orðið til þess að auka áhrif Norðurlanda á alþjóðavettvangi. Saman erum við öflugri.

Á grundvelli þess árangurs sem náðst hefur í norrænu samstarfi hafa samstarfsráðherrarnir mótað eftirfarandi framtíðarsýn og markmið fyrir samstarfið á komandi árum:

Framtíðarsýn

Norðurlönd án landamæra

Eitt helsta viðfangsefni í norrænu samstarfi er að skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja fara frjálst milli Norðurlandanna. Þetta starf viljum við efla, þar á meðal tryggja að ný löggjöf í löndunum og innleiðing ESB-löggjafar skapi ekki nýjar stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum.

Nýskapandi Norðurlönd

Norðurlönd eru nýskapandi svæði þar sem lögð er áhersla á velferð, menntun, sköpunarkraft, frumkvöðlastarf, sjálfbærni og rannsóknir. Við munum áfram beita okkur fyrir nánu samstarfi um lausn á verkefnum sem skipta hinn almenna borgara máli á sviðum þar sem vænta má að meiri gæði og skilvirkni náist í sameiningu en ella.

Sýnileg Norðurlönd

Norðurlönd vekja athygli um allan heim og norræna vörumerkið er vel þekkt. Vaxandi áhugi er á reynslu Norðurlandaþjóða af því að byggja upp og þróa samfélög sem einkennast af mikilli framleiðni, félagslegu öryggi, jafnrétti og góðu umhverfi. Við munum beita okkur fyrir því að löndin standi saman að því að vekja athygli umheimsins á Norðurlöndum sem einni heild. Á sama tíma veit almenningur á Norðurlöndum lítið um norrænt samstarf og viljum við bæta úr því með öflugu kynningarátaki.

Opin Norðurlönd

Norrænu löndin eru lítil hvert um sig en samanlagt erum við 25 milljónir og hagkerfi okkar er meðal tíu stærstu í heiminum. Norrænu löndin taka þátt í alþjóðasamstarfi á ýmsum vígstöðvum. Við viljum halda áfram að stilla saman strengi Norðurlanda í alþjóðamálum og gera enn betur, einkum þar sem löndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Við viljum tryggja að samstarf Norðurlandanna um alþjóðleg málefni komi til viðbótar samstarfi sem fram fer hjá öðrum stofnunum.

Markmið

Norrænt samstarf á að vera í stöðugri endurnýjun en þannig má tryggja að það verði áfram öflugt verkfæri norrænu ríkisstjórnanna við lausn á nýjum pólitískum viðfangsefnum. Samstarfið á að vera þróttmikið svo alltaf sé hægt að sníða það að þörfum landanna og málum sem eru ofarlega á dagskrá norrænu ríkisstjórnanna. Samstarfið á að koma almenningi við en það er gert með því að leggja áherslu á mál sem hafa bein áhrif á daglegt líf borgaranna. Á sama tíma ber að leggja áherslu á aðgerðir þar sem árangurinn verður sýnilegur og mælanlegur. Eðli samstarfsins á að vera ótvírætt gagnvart umheiminum þannig að norræn sérstaða nýtist til hins ýtrasta. Norrænt samstarf á að hafa pólitískt vægi fyrir hinn almenna borgara, þingmenn og ríkisstjórnir hvort sem um er að ræða norræn eða alþjóðleg málefni.  Samstarfið á að fela í sér norrænt notagildi, virðisauka fyrir alla og skila pólitískum árangri.

Þróun samstarfs á Norðurlöndum

Við, samstarfsráðherrar Norðurlandanna, höfum umsjón með ríkisstjórnasamstarfi á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir hönd forsætisráðherranna. Með yfirlýsingunni um framtíðarsýn viljum við marka heildarstefnu í norrænu samstarfi. Við viljum efla samræmingarhlutverk okkar í norrænu samstarfi, meðal annars með því að fylgja eftir framtíðarsýn, nútímavæðingu, samskiptum og kynningu á norrænu samstarfi. Við hyggjumst einnig hafa umsjón með samræmingu á fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Framtíðarsýn sú sem hér hefur verið greint frá verður einnig undirstaða samstarfs okkar við Norðurlandaráð og við það norræna samstarf sem fram fer innan hins borgaralega samfélags.

Skipulagið verður að að vera nútímalegt og markvisst til þess að pólitíska samstarfið verði þróttmikið. Við bindum vonir við að nútímavæðingarverkefni framkvæmdastjórans muni leiða til þess að skipulagið verði í senn nútímalegra, einfaldara og skilvirkara. Formennskulandið, framkvæmdastjórinn og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar skulu leggja til nýjar aðgerðir og fleyta samstarfinu fram á við þannig að samstarfið hafi pólitískt vægi. Samtímis ber ætíð að huga að því að pólitíkin sé þróttmikil.