Ný umsóknarlota fyrir styrki vegna samstarfsverkefna milli Norðurlanda og Québec

30.10.20 | Fréttir
Gadekunstner i Reykjavik
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Átt þú einn eða fleiri samstarfsaðila á Norðurlöndum og gætuð þið hugsað ykkur að ráðast í verkefni á sviði menningar, samfélags, rannsókna eða nýsköpunar ásamt aðilum í Québec-fylki í Kanada? Fylkisstjórn Québec og Norræna ráðherranefndin hafa í sameiningu þróað fjármögnunarleið fyrir samstarfsaðila og verkefni á sviðum menningar, samfélags, rannsókna og nýsköpunar. Umsóknarfrestur er til 7. desember 2020.

Samstarfið við fylkisstjórn Québec er reifað í samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um nágranna Norðurlanda í vestri.

Fylkisstjórnin í Québec og Norræna ráðherranefndin undirrituðu þann 27. febrúar 2015 viljayfirlýsingu með því markmiði að efla þekkingu íbúanna á umræddum svæðum og koma á markvissu samstarfi milli hagsmunaaðila í Québec og á Norðurlöndum.

Á grundvelli þessarar yfirlýsingar hefur nú náðst samkomulag um að stofna sjóð sem hefur það markmið að styðja við samstarf milli Québec og Norðurlanda á sviðum menningar, samfélags, rannsókna og nýsköpunar.