Nýstofnaður baltneskur menningarsjóður fær stuðning frá Norðurlöndum

18.01.19 | Fréttir
Baltiska kulturfonden får 100 000 euro i stöd av Nordiska ministerrådet.

Baltiska kulturfonden får 100 000 euro i stöd av Nordiska ministerrådet.

Photographer
Oskars Kupcis
Norræna ráðherranefndin hefur veitt hinum nýstofnaða baltneska menningarsjóði styrk að upphæð 100.000 evra. Nýi menningarsjóðurinn tók til starfa um áramótin.

Styrkurinn er veittur í eitt skipti í tilefni af 100 ára sjálfstæðisafmæli Eystrasaltsríkjanna og er honum ætlað að styrkja menningarsjóðinn í upphafi og sömuleiðis samstarf ríkjanna.

Hugmyndin er að sjóðurinn nýti féð til sameiginlegra baltneskra verkefna á Norðurlöndum. Sjálfir telja fulltrúar baltneska menningarsjóðsins að styrkurinn geti fjármagnað allt að fjögur stór menningarverkefni á Norðurlöndum.

Við viljum óska Eistlandi, Lettlandi og Litáen til hamingju með farsæla stofnun hins baltneska menningarsjóðs.

Margot Wallström

- Við viljum óska Eistlandi, Lettlandi og Litáen til hamingju með farsæla stofnun hins baltneska menningarsjóðs. Menningarsamstarf þvert á landamæri hefur ómetanleg áhrif á tengsl manna og er undirstaða skilnings milli fólks frá mismunandi löndum. Það umfangsmikla menningarsamstarf sem við höfum séð milli Norðurlanda sannar það rækilega, segir Margot Wallström, en hún var formaður nefndar norrænu samstarfsráðherranna á árinu 2018 þegar tekin var ákvörðun um styrk til menningarsjóðsins.

Í aðdraganda þess að menningarsjóðurinn var stofnaður höfðu Eystrasaltslöndin samráð við Norðurlönd til að læra af reynslu þeirra af menningarsamstarfi. Meðal annars leituðu þau til Norðurlandaráðs og Norræna menningarsjóðsins um ráð.

Baltneski menningarsjóðurinn tók til starfa 1. janúar síðastliðinn. Eistland fer fyrst ríkjanna þriggja með formennsku í sjóðnum. Ríkin munu svo skiptast á um formennskuna.