Orkumálaráðherrar heimsins koma til Norðurlanda í maí

17.04.18 | Fréttir
Vindmøller i Øresund
Ljósmyndari
Sigurður Ólafsson/norden.org
Í lok maí hittast orkumálaráðherrar stærstu hagkerfa heimsins við Eyrarsund til þess að ræða hvernig flýta megi fyrir grænum orkuskiptum. Norðurlöndum gefst einstakt tækifæri til þess að kynna orkulausnir sínar og árangur norræna orkumálasamstarfsins fyrir G20-hópnum.

Það eru tvö alþjóðleg samstarfsnet, Clean Energy Ministerial (CEM) og Mission Innovation (MI), sem funda í Kaupmannahöfn og Malmö. Þann 23. maí kemur MI saman í þriðja sinn og daginn eftir hefst níundi fundurinn í CEM. Fjallað verður um þróun grænnar orku í ljósi Parísarsamkomulagsins frá árinu 2015.

Á fundinn við Eyrarsund koma orkumálaráðherrar landa sem samtals bera ábyrgð á 75 prósentum losunar í heiminum og 90 prósentum orkufjárfestinga. Meðal þeirra sem eiga sæti í CEM og MI eru G20-löndin og Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Finnland.

Norrænu gestgjöfunum gefst tækifæri á að setja mark sitt á hnattræna dagskrá í orkumálum og koma á framfæri áherslum sínum á sviði sjálfbærra orkugjafa og orkunýtni.

Til viðbótar við ráðherrafundina CEM9 og MI3 verður haldin norræn vika hreinnar orku, Nordic Clean Energy Week (NCEW), þar sem boðið verður upp á fjölda viðburða dagana 21. til 25. maí. Þá halda orkumálaráðherrar Norðurlanda sinn árlega fund í tengslum við hreinorkuvikuna. Hann fer fram í Lundi 22. maí.

Norrænir gestgjafar

Norðurlönd ásamt Norrænu ráðherranefndinni og framkvæmdastjórn ESB eru gestgjafar viðburðanna.

„Það er hápunktur í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2018 að vera einn skipuleggjenda Clean Energy Ministerial og Mission Innovation. Orkusamþætting og græn umskipti eru kjarnasvið í norrænu samstarfi. Norrænu gestgjöfunum gefst tækifæri á að setja mark sitt á hnattræna dagskrá í orkumálum og koma á framfæri áherslum sínum á sviði sjálfbærra orkugjafa og orkunýtni. Auk þess verður hægt að kynna norræna tækni og lausnir fyrir ráðamönnum orkumála í G20-löndunum,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Margir norrænir viðburðir

Nordic Clean Energy Week verður sett 21. maí í FN Byen, bækistöðvum Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Norðurlönd verða áberandi. Norrænar orkurannsóknir (NEF) og Norræna nýsköpunarmiðstöðin (NI) standa fyrir ýmsum viðburðum meðan á orkuvikunni stendur. Norrænar orkurannsóknir standa meðal annars fyrir heilsdagsviðburði 24. maí undir yfirskriftinni Sustainable Future Energy System en daginn áður stendur Norræna nýsköpunarmiðstöðin fyrir vinnustofu tólf borga undir yfirskriftinni Sustainable Cities.

Nánari upplýsingar um nokkra norræna viðburði: