Sænska konungshöllin bauð framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs til fundar

10.06.20 | Fréttir
Britt Bohlin i videomöte med svenska kungahuset.

Britt Bohlin i videomöte med svenska kungahuset.

Photographer
Norden

Fundur Britt Bohlin, framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs og sænsku konungshallarinnar fór fram gegnum fjarfundabúnað.

Britt Bohlin, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs tók þátt í fjarfundi með Svíakonungi, Karli Gústaf XVI. Silvia drottning, Viktoría krónprinsessa og Daníel prins tóku einnig þátt í fundinum.

Á fundinum var starfsemi Norðurlandaráðs og gildi norræns samstarfs rætt. Britt Bohlin veitti meðal annars yfirsýn yfir vinnu forsætisnefndar Norðurlandaráðs og nefndanna fjögurra og greindi frá nokkrum tilteknum verkefnum sem eru ofarlega á baugi í starfinu einmitt nú.

„Við ræddum allt frá umhverfisstarfi á Eystrasaltssvæðinu til norræns samstarfs á sviði heilbrigðismála. Fulltrúar konungsfjölskyldunnar voru áhugasöm og báru fram margar spurningar um norrænt samstarf,“ sagði Britt Bohlin.

Fundurinn sem stóð um klukkutíma var haldinn að frumkvæði konungsins og það gladdi Britt Bohlin.

„Við erum auðvitað ánægð og okkur er sýndur mikill heiður með því að í sænsku konungshöllinni sé vilji til þess að fræðast um um norrænt samstarf. Það sýnir að mikill áhugi er fyrir hendi á því sem við fáumst við,“ segir Britt Bohlin.

Fundurinn var haldinn miðvikudaginn 10. júní.

Norðurlandaráð var sett á laggirnar árið 1952 og er vettvangur opinbers samstarfs þingmanna á Norðurlöndum. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Ráðið kemur saman fimm sinnum á ári. Á hverju hausti er haldinn norrænn leiðtogafundur, þing þar sem norrænu forsætisráðherrarnir og ýmsir aðrir ráðherrar taka einnig þátt.