Samstarf milli blaðamanna byggir brú milli Norðurlanda og Rússlands

12.10.20 | Fréttir
Russiske mænd til fødselsforberedelse
Ljósmyndari
Tor Birk Trads
Samstarf milli rússneskra og norrænna blaðamanna þarf að vinna gegn falsfréttum, mýtum og misskilningi á meðal almennings og þar með bæta verkefnasamvinnu milli Norðurlanda og Rússlands.

„Fjölmiðlaumfjöllun um Norðurlönd og Rússland sem byggir á staðalmyndum getur átt þátt í því að skapa mýtur og misskilning hjá almenningi. Og það getur skaðað samstarfið milli Norðurlanda og Rússlands,“ segir John Frølich, stjórnandi Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar (NJC). „Til þess að auka skilning á Norðurlöndum og Rússlandi á meðal almennings í löndunum þarf gott samstarf milli norrænna og rússneskra blaðamanna,“ segir hann. Þetta er eitt af markmiðum samstarfsverkefnis NJC, Nordic - Northwest Russian Journalist Cooperation, sem býður blaðamönnum meðal annars upp á fræðslu um fjölmiðlasiðfræði og fjölmiðlalög til að þeir geti miðlað þekkingu um löndin og sameiginleg málefni á borð við sjálfbærni og loftlagsmál.

Rússneskir karlar í fæðingarundirbúningi

Vandamálið sem liggur í fjölmiðlaumfjöllun sem byggir á staðalmyndinni um „hina“ beggja vegna Eystrasaltsins var greint í skýrslu NJC: Russia in Nordic News Media. Í skýrslunni er bent á að fjölmiðlar leggja oft áherslu á stórveldapólitík og öryggismál í víðu samhengi. Markmiðið með skýrslunni er að gefa ritstjórnum innsýn í fréttaumfjöllunina almennt og vekja þær til umhugsunar um hvort aðrar fréttir um nágrannalöndin gætu verið viðbót við umfjöllunina. NJC gefur dæmi um hvernig það má gera með verkefni sínu, Next to Me. Þar voru fréttaljósmyndarar frá Rússlandi og Norðurlöndum paraðir saman og fengu þeir það verkefni að ljósmynda daglegt líf báðum megin við Eystrasaltið. Niðurstaða verkefnisins voru myndrænar frásagnir sem sjaldan sjást í hefðbundinni fréttaumfjöllun. Myndirnar voru teknar saman í samnefndri bók, Next to Me, sem býður lesendum meðal annars að sjá fæðingarundirbúning fyrir karla í Rússlandi og heimavarnaræfingar í Danmörku.

Mismunandi starfskilyrði

Annað mikilvægt verkefni NJC er að upplýsa blaðamenn um starfskilyrði á mismunandi svæðum.

„Þegar blaðamenn eiga í samstarfi þarf að taka tillit til ýmissa atriða, þar sem mismundandi lög og reglur gilda og afleiðingar þess að brjóta gegn þeim eru mismunandi fyrir blaðamenn á Norðurlöndum og í Rússlandi. Þess vegna megum við ekki setja fram „norrænan staðreyndalista“ heldur sýna virðingu og segja opinskátt að við stöndum einnig frammi fyrir áskorunum, til dæmis að því er varðar siðferði, og gefa dæmi um hvernig við tökumst á við vandamálin,“ segir John Frølich.  Á síðasta námskeiði NJC fyrir norræna og rússneska blaðamenn, sem haldið var í rússnesku borginni Petrozavodsk, var meðal annars rætt hvernig fjallað er um viðkvæmt efni á borð við heimilisofbeldi, sjálfsvíg eða kynhneigð. Á námskeiðinu varð ljóst að mikill munur er á vinnuskilyrðum landanna að þessu leyti. „Engu að síður eru fréttir fluttir um viðkvæm málefni þar sem rússneskir blaðamenn eru meistarar í að segja frá á milli línanna,“ segir John Frølich.

 

Mikilvæg reynsla frá rússneskum blaðamönnum

Annar liður í þekkingarmiðlun milli blaðamanna á Norðurlöndum og í Rússlandi er útgáfa nýrrar bókar um blaðamennsku í Rússlandi, sem gefin er út af Barents Press International með stuðningi Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar. Bókin byggir á lýsingum 28 rússneskra staðarblaðamanna sem lýsa daglegum störfum sínum og gefa góð ráð í tengslum við þau. Þessa mikilvægu innsýn geta blaðamenn á Norðurlöndum nýtt sér þegar þeir vinna með efni frá Rússlandi eða starfa með kollegum sínum frá Rússlandi.

Norræna blaðamannamiðstöðin (NJC) er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð árið 1957. Tilgangurinn þá og nú er að efla fjölmiðlun og blaðamennsku á Norðurlöndum með fræðslu, námskeiðum og tengslamyndunarviðburðum fyrir blaðamenn og ritstjóra frá öllum norrænu löndunum. Með tímanum hefur starfsemi Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar, sem er þjónustuaðili Norrænu ráðherranefndarinnar, verið aukin til að fela einnig í sér endurmenntun og námskeið í Rússlandi og Eystrasaltslöndunum þremur.