Stemma verður stigu við ofbeldisbrotum karla gegn konum

07.09.22 | Fréttir
iceland våld mot kvinnor
Ljósmyndari
norden.org
Á fundi með norrænu velferðarnefndinni ræddi Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, lausnir á því hvernig yfirvöld geta barist gegn ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum. Slíkum brotum fjölgaði í Covid-19-faraldrinum.

Norræna velferðarnefndin kom saman til fundar í Reykjavík í dag ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands til að ræða jafnréttismál á Íslandi og Norðurlöndum. Samkvæmt World Economic Forums Global Gender Gap Report er Ísland það land í heiminum þar sem jafnrétti er mest og almennt eru norrænu löndin ofarlega á listanum. Þar með er þó ekki sagt að engin vandamál séu til staðar.

Ofbeldi gegn konum færðist í vöxt í kórónufaraldrinum
Í opnunarávarpi sínu sagði Tone Wilhelmsen Trøen, varaformaður nefndarinnar og talskona á sviði jafnréttismála, frá áherslu nefndarinnar á jafnrétti í störfum sínum og spurði forsætisráðherrann hvernig hún líti á þróun mála þegar kemur að ofbeldi gegn konum í nánum samböndum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði þetta vera vandamál á Íslandi og að það hefði færst í vöxt á tímum kórónuveirunnar. 

„Ef konur eru ekki óhultar fyrir ofbeldi á heimili sínu eða annars staðar er ekki hægt að segja að jafnrétti ríki,“ sagði Katrín Jakobsdóttir. Katrín greindi í kjölfarið frá því hvernig hún berst gegn þessu sem forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála:   
„Ríkisstjórn Íslands hefur gripið til ýmissa aðgerða. Löggjöfin hefur verið hert svo betur sé hægt að sækja gerendur til saka, frjáls félagasamtök og neyðarathvörf hafa fengið aukið fé, unnið er forvarnarstarf sem nær alveg niður til skólaaldurs og málið er efst á baugi hjá lögreglunni,“ sagði forsætisráðherra.
 

Konur verða einnig fyrir ofbeldi á netinu
Á fundinum var einnig bent á að á samfélagsmiðlum fái konur yfir sig niðrandi ummæli á grundvelli kynferðis síns.
„Þegar hatursorðræða í garð kvenna fær að eiga sér stað á netinu verður það til þess að konur veigra sér við því að taka þátt í rafrænum umræðum sem talskonur tiltekins málefnis eða flokks. Það er ógn við jafnrétti og lýðræði í norrænu löndunum og við verðum að berjast gegn því,“ segir Tone Wilhelmsen Trøen, varaformaður nefndarinnar og talskona í jafnréttismálum.

Forgangsmál hjá lögreglunni
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, getur staðfest að lögreglan leggi mikla áherslu á baráttuna gegn ofbeldi gegn konum í nánum samböndum. Auk þess að leysa mál af slíku tagi benti Sigríður á mikilvægi forvarnarherferða embættisins þar sem þeim skilaboðum er beint til ungra karla að beita konur ekki ofbeldi. Jafnframt hefur eftirfylgni af hálfu lögreglunnar aukist, bæði þegar kemur að þolendum og gerendum, með það fyrir augum að koma í veg fyrir endurtekin brot.

Einnig vandamál í samískum samfélögum
„Ofbeldisbrot í nánum samböndum og hatursorðræða á netinu er líka vandamál í samfélagi Sama,“ segir Beaska Niilas frá Þingmannaráði Sama. Þegar kemur að hatursorðræðu á netinu eru kynþáttafordómar oft kveikjan. Samar eru niðraðir fyrir uppruna sinn og menningu af þeim sem ekki eru Samar. Að mati Beaska Niilas orsakast þetta af skorti á upplýsingum og skilningi og telur að breyta beri þessu, m.a. með því að leggja meiri áherslu á fræðslu um Sama í skólum. Innan samfélags Sama þrífst einnig ofbeldi af hálfu karla í garð kvenna. Beaska Niilas telur að stjórnvöld eigi að leggja áherslu á að opna fleiri neyðarathvörf ásamt því að auka skilning á samískri menningu meðal heilbrigðisstarfsfólks. Nefndin mun nýta reynslu Íslendinga og Sama í áframhaldandi vinnu sinni að því að stuðla að jafnrétti á Norðurlöndum.