Sterkari saman - samstarfið nýtur vinsælda meðal Norðurlandabúa

31.10.17 | Fréttir
Finlands riksdag
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/Norden.org
Íbúar á Norðurlöndum eru afar jákvæðir í garð norræns samstarfs. Meira en 90 prósent telja að norrænt samstarf skipti máli eða skipti miklu máli. Þar af telja næstum 60 prósent það skipta miklu máli. Einungis eitt prósent íbúanna finnst norrænt samstarf samstarf ekki skipta neinu máli.

Alþjóðleg þróun virðist hafa haft áhrif á viðhorf til Norðurlandanna. Nú er litið á varnarmáli og öryggismál meðal þeirra málaflokka sem hvað mestu máli skipta í samstarfinu.Gegnsæi og manngildi eru þau norrænu gildi sem talin eru dæmigerðust. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem fram fór á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs nú í haust.

Gildi samstarfsins hefur aukist

Samkvæmt rannsókninni hefur skoðun Norðurlandabúa á því hvað Norðurlöndin ættu helst að eiga samstarf um breyst síðastliðinn áratug. Í rannsókn sem gerð var árið 2008 var að „ráðast gegn glæpum þvert á landamæri“ álitið það sem mestu máli skipti í samstarfinu en nú er þessu sviði raðað mun neðar. Þess í stað hefur vægi varnar- og öryggismála aukist og er nú í efsta sæti yfir málefni sem Norðurlandabúar telja mikilvægt að eiga samstarf um. Að mati unga fólksins eru menntamál það svið sem mestu máli skiptir í samstarfinu.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að íbúar á Norðurlöndum líti frekar en áður á Norðurlönd sem hluta af heiminum öllum og byggja skoðanir þeirra á því. Meðal annars finnst tveimur þriðju hlutum að samstarfið skipti meira máli en áður vegna alþjóðlegrar þróunar síðustu ára. 43% segja að þeir líti á það sem einn af stærstu kostum norræns samstarfs að það veiti Norðurlöndunum sterkari rödd í alþjóðasamfélaginu. 68% eru þeirra skoðunar að auka eigi samstarfið enn frekar. Í sambærilegri rannsókn frá árinu 2006 vildu 62% auka samstarfið og bendir það til vaxandi áhuga á auknu samstarfi.

Verulegur hluti íbúa Norðurlanda lítur svo á að það að eiga þess kost að stunda vinnu eða nám og geta átt heima á öllum Norðurlöndunum sé stærsti áþreifanlegi kosturinn við samstarfið – bæði almennt séð og út frá persónulegum hagsmunum hvers og eins. Í aldurshópnum 16-30 ára er litið svo á að frá þeirra bæjardyrum séð séu tækifærin til þess að stunda nám og fá próf sín metin á öllum Norðurlöndunum það samstarfsvið sem mestu máli skiptir.

Hver er grundvöllur samstarfsins?

Máli skiptir að greina hver sé grundvöllur hins vel heppnaða samstarfs Norðurlanda, bæði út frá innri forsendum Norðurlandanna og í alþjóðlegu samhengi.  34% telja að mestu máli skipti að Norðurlandaþjóðirnar hafi sömu gildi en 32% finnst vega þyngst að samfélagsgerðin sé svipuð. Litið er á tjáningarfrelsið sem dæmigerðasta norrræna gildið (42%). Þar á eftir kemur jafn réttur og manngildi (36%) og að opin og gegnsæ ferli séu Norðurlandabúum mikilvæg (30%).

Í heild sýnir rannsóknin að norrænt samstarf sé vel metið meðal Norðurlandabúa en að eldri aldurshóparnir séu enn jákvæðari gagnvart því en aldurshópurinn 16-30 ára. Þá er örlítill munur á viðhorfum kynjanna til samstarfsins á þann veg að konur segja aðeins oftar en karlar að vel útfært norrænt samstarf skipti miklu máli.

- Gildi samstarfsins felst í þeim virðisauka sem í því felst fyrir íbúa Norðurlanda, segir samstarfsráðherra Norðurlanda í Noregi, Frank Bakke-Jensen. Niðurstaða þessarar rannsóknar veitir okkur umboð til þess að halda áfram norrænu samstarfi á mörgum mismunandi sviðum, segir hann.

Rannsóknin var kynnt í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki 31. október. Forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg, er einnig ánægð með niðurstöðurnar.

- Ég hef ferðast mikið um Norðurlöndin undanfarið ár og það sem ég hef séð og heyrt hefur gefið mér tilfinningu fyrir því að eftirspurn sé eftir norrænu samstarfi einmitt nú. Saman getum við haft jákvæð áhrif á þróun heimsmála og ég túlka niðurstöðurnar þannig að það sé einnig vilji Norðurlandabúa.

Viðtöl voru tekin við rúmlega 3000 manns frá Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Danmörku, Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum vegna rannsóknarinnar sem fram fór um mánaðamótin ágúst/september á þessu ári.