Susanna Mälkki kynnir tilnefningar til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019 þann 10. maí í Helsinki

Susanna Mälkki hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2017
Susanna Mälkki, heimsþekktur finnskur hljómsveitarstjóri og handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2017, mun kynna tilnefningar ársins 2019 ásamt Kim Kuusi, formanni félags tónlistarfólks og tónlistarútgefenda í Finnlandi og formanni finnsku landsdómnefndarinnar fyrir tónlistarverðlaunin, á sérstökum kynningarviðburði í tónlistarhúsinu í Helsinki.
Viðburðurinn er opinn öllum.
- Tími: Kl. 18:00–18:15 (að finnskum tíma)
- Staður: Anddyri tónleikahússins í Helsinki
- Póstfang: Mannerheimintie 13 A / Mannerheimvägen 13 A
Ekki er nauðsynlegt að skrá þátttöku. Verið velkomin!
Þegar tilnefningarnar hafa verið kynntar munu Susanna Mälkki og Christian Tetzlaff leika á tónleikum ásamt fílharmóníusveitinni í Helsinki. Á undan tónleikunum fer fram stutt spjall.
Fylgist með beinu streymi
Viðburðinum verður streymt beint á stöðinni YLE Teema svo hægt verði að fylgjast með í öllum norrænu löndunum þegar tilnefningarnar eru kynntar.
Um tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta sinn árið 1965. Þeim er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Verðlaunin eru til skiptis veitt annars vegar núlifandi tónskáldi og hins vegar tónlistarhópi eða -flytjanda.