Svalleiki í ýmsum útfærslum: Nordic Bridges tekur enda

13.12.22 | Fréttir
Moby Dick performance, Nordic bridges in Canada
Photographer
Christophe Raynaud de Lage

Sýning norsk franska brúðuleikhússins Plexus Solaire á Moby Dick. Hluti af Nordic Bridges 2022.

Festival of Cool er lokasprettur Nordic Bridges, norræns-kanadísks verkefnis til að miðla list og hugmyndum sem hefur staðið yfir frá ársbyrjun 2022. Þessi glæsilegi lokapunktur, þar sem boðið verður upp á norræna tónlist, leiksýningar, fyrirlestra og margt fleira, setur punktinn við árið en markar um leið upphaf nýrra samstarfsleiða þvert á Atlantshafið.

Nordic Bridges, árslöng menningarhátíð sem farið hefur fram víðsvegar um Kanada og er umfangsmesta alþjóðlega menningarsamstarfsverkefni Norðurlanda til þessa, var sett 27. janúar í Toronto, í miðjum vetrarhörkum og COVID-takmörkunum. 


Viðburðir hafa farið fram í Harbourfront Centre, einni helstu lista- og menningarstofnun Kanada, og tuttugu öðrum stöðum um landið allt. Á dagskránni í ár hafa meðal annars verið sviðslistir, listasýningar, vinnustofur og málstofur.

Nordic Bridges hóf göngu sína með ljósinnsetningum utandyra og netviðburðum á tímum þegar reyndi á þrautseigju samfélagsins sem aldrei fyrr, enda eru listræn nýsköpun, sjálfbærni og þrautseigja meðal grunnstoða verkefnisins. Endirinn er þó öllu fjörugri, á Festival of Cool sem stendur yfir í Harbourfront Centre frá 8. til 18. desember.

„Nordic Bridges hefur miðlað norrænni og kanadískri samtímalist og menningu víðsvegar um landið allt frá ársbyrjun. Festival of Cool er snilldarleg leið til að fagna lokamánuði verkefnisins um leið og aðrir viðburðir fara fram hjá samstarfsaðilum um allt Kanada,“ segir Laura McLeod, menningarstjóri við Harbourfront Centre og aðalframkvæmdastjóri Nordic Bridges 
 

Glæsilegur lokapunktur

Á tíu dögum í desember fá gestir á Festival of Cool að njóta norrænnar menningar, lista og hugmynda í viðamikilli dagskrá. Fjöldi norræns listafólks kemur fram á hátíðinni, svo sem finnska hljómsveitin Tuuletar og skandinavíski sextettinn VÍÍK, sem spilar blöndu af nútímadjassi, jaðarrokki og danskri, norskri og sænskri þjóðlagatónlist. 

Á dagskránni verða líka sviðsverk, til dæmis Moby Dick í flutningi norsk-franska brúðuleikhússins Plexus Solaire, ljósmyndasýningin Eyes as big as plates, eftir finnsk-norska tvíeykið Karoline Hjorth og Riitta Ikonen, og sýningin Kjøt eftir færeyska listamanninn Heiðrik á Heygum.

Þar að auki geta gestir skoðað sánulistaverk nútímalistahópsins Art Spin, gjörninginn Post Capitalistic Auction og sýningu með verkum blaðamannanna ungu sem hlutu norræn-kanadískan umhverfisblaðamennskustyrk. Þetta eru bara nokkrir hápunktar í þéttskipaðri dagskránni.
 

Brú yfir Atlantshafið

Nordic Bridges er menningarátak á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál sem er ætlað að skapa tækifæri fyrir norrænt listafólk og efla alþjóðlegt menningarsamstarf. Hundruð listamanna og fjöldi vísinda- og fræðimanna hafa tekið þátt í þessu alþjóðlega verkefni, auk þess sem boðið var upp á stjórnmálaumræður og námsstyrki fyrir unga blaðamenn sem sérhæfa sig í umhverfisfréttum. Í fyrirlestraröðinni Nordic Talks var svo bryddað upp á margvíslegum félagslegum málefnum samtímans.


Marah Braye, framkvæmdastjóri Harbourfront Centre, sagði að markmiðið með Nordic Bridges hefði verið að skapa þýðingarmikil og varanleg menningarleg samskipti milli Kanada og Norðurlanda og að hún teldi að þessu markmiði hefði verið náð. 

„Nordic Bridges gengur út á menningarleg samskipti og hvernig við getum notað alþjóðlegt samstarf til að stuðla að breytingum. Þetta er mikilvægt samtal sem kemur til með að hafa varanleg áhrif og skapa raunveruleg tengsl,“ sagði hún nýverið á ráðstefnu í Osló um norrænt menningarsamstarf í kjölfar COVID-19.

„Nýjar samstarfsleiðir hafa opnast og sterk tengsl milli kanadískra og norrænna listamanna og annars fagfólks myndast,“ bætti hún við og lagði áherslu á mikilvægi menningar í lýðræðisþjóðfélagi.
 

Mörg ný tengsl myndast

Á meðal gesta á Festival of Cool er Eva Englund, aðalráðgjafi við Norrænu ráðherranefndina og ein upphafsmanna Nordic Bridges. Hún segir:

 „Nú er komið að lokum Nordic Bridges en þetta verkefni er aðeins upphafið á fjölmörgum nýjum norræn-kanadískum samböndum og tengslanetum.“

Norrænir listamenn og hagsmunaaðilar frá öllum Norðurlöndum hafa starfað og komið fram með kanadískum listamönnum á listahátíðum, í listastofnunum og á söfnum víðsvegar um landið í sönnum samstarfsanda.

Nordic Bridges gengur út á menningarleg samskipti og hvernig við getum notað alþjóðlegt samstarf til að stuðla að breytingum. Þetta er mikilvægt samtal sem kemur til með að hafa varanleg áhrif og skapa raunveruleg tengsl.

Marah Braye, framkvæmdastjóri Harbourfront Centre