Samstarf yfir landamæri er leiðin fram á við fyrir norrænt menningarlíf eftir heimsfaraldurinn

12.12.22 | Fréttir
Nordiskt kulturpolitiskt toppmöte i Oslo
Ljósmyndari
Ida Børsand

Kristin Danielsen frá menningarráðinu í Noregi, Christina Hætta frá Samaráðinu, Sabina Westerholm frá Norræna húsinu í Reykjavík, Kajsa Ravin frá menningarráðinu í Svíþjóð, Benny Marcel frá Norræna menningarsjóðnum, Paula Tuovinen frá Taike í Finnlandi

Öflugra samstarf á milli norrænu landanna getur stuðlað að hraðari endurreisn eftir heimsfaraldurinn og búið menningargeirann betur undir áskoranir framtíðarinnar. Þetta voru skilaboðin frá stjórnmálamönnum, fræðimönnum og aðilum úr menningarlífinu sem tóku þátt í norrænum fundi um menningarmál í Ósló á þriðjudag.

Það var menningarráðið í Noregi sem fyrir hönd menningar- og jafnréttisráðuneytisins í Noregi bauð þátttakendum frá Norðurlöndum til að ræða saman og skiptast á reynslu og þekkingu varðandi menningarlífið á Norðurlöndum eftir heimsfaraldurinn. Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs, hefur gegnt formennsku yfir menningarsviði Norrænu ráðherranefndarinnar á þessu ári og öðlast innsýn í hversu öflugt norrænt samstarf getur verið og þau tækifæri sem í því felast:

„Norrænt samstarf er alveg einstakt. Við sköpum það í sameiningu og það hef ég fengið að upplifa undanfarið ár. Það á ekki bara við um þann mikla hag sem við ráðherrar höfum haft af því að hittast og ræða heimsfaraldurinn í hverju landi heldur einnig tækifæri til framtíðar fyrir norrænt menningarsamstarf við sífellt óöruggari aðstæður í heiminum.“

Áskoranirnar eru alþjóðlegar

Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á alþjóðlegt menningarsamstarf með lokunum og aflýsingum á viðburðum. Þótt norræna menningarátakinu Nordic Bridges í Kanada hafi verið frestað um eitt ár vegna faraldursins voru enn strangar takmarkanir í gildi í Kanada þegar verkefnið hófst í janúar 2022. Marah Braye, aðstoðarforstöðumaður Harbourfront Centre í Toronto, sem leiðir verkefnið, sagði frá reynslunni af því að halda því gangandi í langan tíma.

„Ef ég á að nefna eitthvað jákvætt við þær áskoranir sem hafa mætt okkur þá veittu þessar óvæntu seinkanir Harbourfront Centre, 20 samstarfsaðilum okkar í Kanada og norræna listafólkinu tækifæri til að styrkja og rækta samband sitt og þróa verk sín lengur.“

Er menningarlífið búið að ná sér eftir faraldurinn? Ekki samkvæmt rannsóknum

Þótt enn sé of snemmt að segja til um langtímaáhrif faraldursins leiddi hann í ljós veikleika sem fræðimenn telja að verði til grundvallar við væntanlegar umræður um stefnu í menningarmálum.

Jenni Johannisson frá Kulturanalys Norden benti á að afleiðingar heimsfaraldursins hafi verið miklar fyrir menningargeirann og að í ljós hafi komið miklir misbrestir í fjárhagslegum og félagslegum kjörum listamanna og annarra innan geirans. Jafnframt sýna greiningar að ójöfnuður með tilliti til þess hverjir taka þátt í menningarlífinu er enn til staðar eftir faraldurinn.

Haakon Bekeng-Flemmen, aðalráðgjafi hjá menningarráðinu í Noregi, benti á að faraldurinn hefði skapað nýjar aðstæður í öllum löndum og að það væri ný aðferð að horfa til veltunnar í geirunum sem hlutu gríðarmikla styrki út frá efnahagslegum forsendum.

Fræðimenn á sviði menningarstefnu frá Svíþjóð, Finnlandi og Noregi sem tóku þátt í pallborðsumræðum voru sammála um að eftir faraldurinn væri mikil þörf á þekkingu varðandi nýjar menningarvenjur, menningarhagkerfið og að skoða yrði áhrif stafvæðingar á menningarstefnu.

Óraunhæfar væntingar til listamanna

Menning og listir eru álitnar hornsteinar norræns samstarfs og væntingar til hlutverks þeirra í samfélaginu eru miklar og flóknar. Þær verður þó að setja í samhengi við þær miklu afleiðingar sem faraldurinn hafði fyrir menningarlífið.

„Það er ætlast til þess að listamenn finni upp á nýjum hlutum. Þeir eiga að knýja fram þróun og sýna út á hvað lífið og raunveruleikinn gengur. Á sama tíma er ætlast til þess að þeir vinni af köllun og þrautseigju og séu ekki eins og við hin sem verðum stundum veik eða fáum fjárhagslegan stuðning,“ segir Maria Hirvi-Ijäs, aðalsérfræðingur hjá Cupore, miðstöð í menningarrannsóknum í Finnlandi. Að hennar sögn eru ekki til neinir atvinnulausir listamenn, bara tekjulausir.

Fjármögnunarfyrkomulagið er líka mikilvægt mál í tengslum við menningarsamstarfið. Rannsóknir sýna að þeir sem skapa menningu hafa oft mikla menntun en tiltölulega lágar tekjur.

Samstarf yfir landamæri er leiðin fram á við

Allir fulltrúar menningaryfirvalda í löndunum og þeirra norrænu og samísku menningarstofnana sem tóku þátt í umræðunum óskuðu eftir auknu norrænu og tvíhliða samráði, fundum og tækifærum til að skiptast á reynslu. Eitt af stóru málunum sem voru til umræðu var það hvert hlutverk menningar á að vera þegar mannauður færist til annarra samfélagssviða.

„Við verðum að fjárfesta í listafólkinu sem er kjarninn í lista- og menningargeiranum. Við sáum það í faraldrinum að sjálfstætt starfandi listamenn voru í mjög veikri stöðu og við verðum að bregðast við því. Við þurfum að endurnýja fyrirkomulag menningarstefnunnar,“ segir Paula Tuovinen, forstjóri Taike (kynningarmiðstöð fyrir listir) í Finnlandi.

Samísk list er framtíðin

Á síðustu árum hefur samísk list fengið æ meiri athygli, jafnt á Norðurlöndum sem erlendis. Nú síðast á Feneyjatvíæringnum þar sem norræni skálinn var samískur í ár. En þrátt fyrir aukna athygli skortir fé að mati Christinu Hætta, formanni menningarsviðs Samaráðsins:

„Samísk list er á leið að verða næsta útflutningsvara Norðurlanda en það krefst þess að allir vinni saman. Menningarstefnur landanna eru erfiðar fyrir samíska listamenn sem vinna þvert á landamæri og við vonum að hægt verði að aðlaga styrkjakerfi landanna betur að aðstæðum samíska menningargeirans.“

Maja Kristine Jåma, þingmaður norska Samaþingsins, lítur jákvæmðum augum á áframhaldandi norrænt samstarf : „Það eru mjög góðar fréttir ef því sem hefur verið sagt hér í dag verður fylgt eftir. Við Samar eigum okkur ekki landamæri en við upplifum stjórnsýsluhindranir daglega og fundum mikið fyrir því í faraldrinum.