„Takið ágengar tegundir sem ógna efnahag og vistkerfi norrænum tökum!“

„Í ljósi þess að vandinn teygir sig yfir landamærri virðist mikið norrænt notagildi fólgið í að vinna saman í baráttunni gegn ágengum tegundum,“ segir, Staffan Eklöf (SD), sænskur þingmaður í Norðurlandaráði.
Litið er á ágengar framandi tegundir sem eina stærstu ógnina við líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu.
Þetta eru framandi tegundir sem með hjálp mannsins hafa flust úr upprunalegu umhverfi sínu, dreifa sér hratt í nýju umhverfi og valda skaða á vistkerfi.
Mikill samfélagslegur kostnaður
Reiknað hefur verið út að kostnaðurinn við baráttuna gegn ágengum framandi tegundum innan ESB nemi 9,6 milljörðum evra á ári.
Norðurlandaráð fer þess nú á leit við norrænu ríkisstjórnirnar að þær vinni saman, bæði að því að reyna að koma í veg fyrir að ágengar tegundir komist inn í löndin og í baráttunni gegn þeim sem þegar hafa komið sér fyrir.
Samstarf hefur þegar átt sér stað um að reyna að koma í veg fyrir að marðarhundurinn dreifi sér um Norðurlönd.
Gott fyrir löndin
Norrænt samstarf hefur einnig fjármagnað rannsóknir á hinni ágengu tegund kyrrahafsostru.
Staffan Eklöf vonar að löndin komi á fót sameiginlegu neti þar sem fylgst verður með ágengum plöntum og dýrum og skipst á reynslu um hvernig barist er gegn þeim.
„Það ætti að hafa jákvæð áhrif á framgang mála í hverju og einu landi,“ segir hann.
Fer áfram til Norrænu ráðherranefndarinnar
Flokkahópurinn Norrænt frelsi lagði tillöguna fram.
Sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs tók hana til meðferðar og eftir nokkrar minniháttar breytingar hlaut hún stuðning annarra flokkahópa.
Meirihluti hinna 87 þingmanna Norðurlandaráðs greiddi atkvæði með tillögunni á þingi ráðsins og þar með verður hún send áfram sem tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar.