Þekktur kaupsýslumaður til liðs við orkusamstarf Norðurlanda

25.01.16 | Fréttir
Jorma Ollila
Jorma Ollila, fyrrum forstjóra Nokia, hefur verið falið að gera úttekt á samstarfi Norðurlanda í orkumálum. Markmiðið úttektarinnar er að efla og þróa orkusamstarf Norðurlanda. Það er Norræna ráðherranefndin sem stendur á bak við úttektina.

Markmið úttektarinnar er að kanna hvernig móta megi orkusamstarf Norðurlanda á sem skilvirkastan hátt næstu fimm til tíu árin. Stefnt er að því að í skýrslunni verði lagðar fram 10-15 samstarfstillögur sem geta orðið grundvöllur starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar í orkumálum til framtíðar.

„Orkugeirinn stendur frammi fyrir miklum breytingum í framtíðinni þegar skipta þarf yfir í sjálfbærari orkugjafa. Norðurlönd eru í fremsta flokki í heiminum hvað varðar sjálfbæra orku og þau eru brautryðjendur í orkusamstarfi. Ef takast á að halda þeirri stöðu er mjög mikilvægt að greina hvaða svið borgi sig að vinna með til framtíðar. Ég er ánægður með að fá að taka þátt í að aðstoða Norðurlöndin á þessu sviði,“ segir Jorma Ollila.

Jorma Ollila er þungavigtarmaður í alþjóðlegu atvinnulífi. Hann var meðal annars forstjóri og stjórnarformaður farsímafyrirtækisins Nokia þegar það var ráðandi á sínum markaði á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug 21. aldarinnar. Hann var jafnframt stjórnarformaður Shell á árunum 2006-2015. Sem stendur er Ollila meðal annars stjórnarformaður stálsamsteypunnar Outokumpu.

Orkugeirinn stendur frammi fyrir miklum breytingum í framtíðinni þegar skipta þarf yfir í sjálfbærari orkugjafa. Norðurlönd eru í fremsta flokki í heiminum hvað varðar sjálfbæra orku og þau eru brautryðjendur í orkusamstarfi. Ef takast á að halda þeirri stöðu er mjög mikilvægt að greina hvaða svið borgi sig að vinna með til framtíðar.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, er ákaflega ánægður með að Jorma Ollila hafi tekið að sér verkefnið. Mikil áhersla er lögð á orkugeirann í norrænu samstarfi og úttektin er enn ein aðferðin til að beina sjónum að því. Sjálfbær þróun er lykilorð á Norðurlöndunum, enda telur Alþjóða orkumálaráðið (IEA) að þau séu með 25 ára forskot á aðra heimshluta hvað varðar koltvítsýringslosun í raforkuframleiðslu.

„Ég er hvort tveggja stoltur og fullur eftirvæntingar gagnvart þessu verkefni, ekki síst vegna þess að það verður undir forystu Jorma Ollila, sem er einn mesti þungavigtarmaður í norrænu atvinnulífi og býr að víðtæku, alþjóðlegu tengslaneti. Hann getur ýtt við og eflt norrænt samstarf þannig að við séum enn betur búin undir að mæta framtíðinni,“ segir Dagfinn Høybråten.

Áhersla á Evrópusambandið

Stefnt er að því að Jorma Ollila ljúki skýrslunni í byrjun árs 2017. Úttektin á ekki aðeins að taka til innra samstarfs Norðurlanda heldur á einnig að líta á svæðisbundna og alþjóðlega þætti. Meðal annars á að leggja áherslu á samstarf innan Evrópusambandsins.

„Næstu árin fela í sér ýmis tækifæri og úrlausnarefni í samstarfi Norðurlanda í orkumálum, meðal annars með hliðsjón af áformum ESB um orkubandalag. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að gera slíka úttekt nú,“ segir Olli Rehn, atvinnumálaráðherra Finnlands, sem er formaður norrænu ráðherranefndarinnar í orkumálum á þessu ári.

Úttektin á orkusamstarfinu er þáttur í umbótaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar sem meðal annars miðar að því að gera starf ráðherranefndarinnar skilvirkara. Ráðherranefndin hefur áður látið gera úttekt í heilbrigðisgeiranum, en niðurstöðum hennar er lýst í svonefndri Könberg-skýrslu, og í varnar- og öryggismálum, sem segir frá í svonefndri Stoltenberg-skýrslu. Sem stendur er verið að gera úttekt á vinnumarkaðsgeiranum.

Samstarf Norðurlanda í orkumálum er lifandi samstarf sem hefur staðið lengi. Árið 2015 var haldið upp á hundrað ára afmæli fyrsta raflínunnar milli Svíþjóðar og Danmerkur. Árið 2015 voru jafnframt liðin tuttugu ár frá „Louisiana-yfirlýsingunni“ þar sem orkumálaráðherra Norðurlanda lýstu framtíðarsýn um frjálsan og opinn raforkumarkað með skilvirkum viðskiptum milli landanna.

Orkusamstarfið hefur hingað til skilað aðildarlöndunum og sjálfsstjórnarsvæðunum miklum virðisauka.  Orkumálaráðherrarnir vilja þróa þetta samstarf enn frekar. Á fundi sem haldinn var 10. nóvember 2015 í Kaupmannahöfn lýstu orkumálaráðherranir því yfir að samstarf Norðurlanda í orkumálum skyldi framvegis byggja á trausti og samstöðu og á aðgerðum í þágu loftslagsvæns og græns hagvaxtar. Ráðherrarnir lýstu stuðningi við áframhaldandi samræmingu og eflingu norræns orkumarkaðar, en tóku fram að þeir vildu jafnframt efla samstarfið við orkubandalag ESB.