Tólf tillögur vísa veginn í norrænni forystu í umhverfis- og loftslagsmálum

13.04.18 | Fréttir
Tine Sundtoft
Photographer
Heidi Orava
Norðurlöndin verða að standa saman að grænum umskiptum, ekki síst á sviði loftslagsmála, eigi löndin að geta valið réttar leiðir í þeim efnum. Sameinuð Norðurlönd styrkja líka stöðu landanna alþjóðlega, pólitískt og efnahagslega,“ segir Tine Sundtoft, fyrrum umhverfis- og loftslagsráðherra Noregs, sem á föstudaginn lagði fram skýrslu með tólf tillögum um samstarf fyrir fund norrænu umhverfisráðherranna í Stokkhólmi.

Megintillagan undirstrikar hversu brýnar breytingarnar eru. Norðurlönd verða að stilla saman strengi til þess að löndin geti lagt sitt af mörkum til þess að langtímamarkmið Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun náist. Tine Sundtoft telur að allra næstu ár muni skipta sköpum á ýmsum sviðum, ekki síst í loftslagsmálum.

„Heimurinn hefur hvorki tíma til né efni á að koma of seint inn í grænu umskiptin og Norðurlönd hafa bæði viljann og verkfærin til þess að vera leiðandi í þeim breytingum. Ef illa fer geta loftslagsbreytingar valdið neikvæðri þróun á aðra þætti umhverfisins. Hnignun hefur orðið á líffræðilegri fjölbreytni sem hefur haft afleiðingar fyrir loftið sem við öndum að okkur, vatnið sem við drekkum og matvælaframleiðslu,“ segir Tine Sundtoft, en hún tók þátt í loftslagsviðræðunum sem leiddu til Parísarsamkomulagsins, þegar hún var umhverfis- og loftslagsráðherra Noregs.

Í samstarfinu leynast miklir kostir fyrir samkeppnisstöðuna

Í skýrslunni Góðir grannar - Norðurlönd á tímum grænna umskipta er lagt upp með að norrænt samstarf ætti kerfisbundið að styðja löndin við að finna og innleiða bestu lausnirnar hvort sem það er við lagasetningu, í stjórnsýslu eða tækni. Einnig á að vera rík áhersla á lausnir í þeirri þekkingarmyndun og rannsóknum sem fjármagnaðar eru af samstarfinu.

Norrænu löndin taka með svipuðum hætti á grænu umskiptunum en Tine Sundtoft segir að löndin bæti hvert annað upp þar sem reynsla þeirra er svipuð hvað varðar náttúruaðstæður, notkun efna og efnavöru og áskoranir líffræðilegrar fjölbreytni. Þess vegna felast góðir möguleikar á þekkingarmiðlun og þróun hagkvæmra hágæðalausna sem þegar upp er staðið skapa samkeppnisforskot á alþjóðamarkaði.

Plastnotkun getur verið byrjunarreitur í norrænu samstarfi um að tilgreina hringrásarhagkerfið og draga úr notkun náttúruauðlinda. Að 700 þúsund tonn af plasti skuli vera brennd eða enda á sorphaugum á Norðurlöndum ár hvert er auðlindasóun sem hægt er að snúa upp í gróða bæði fyrir umhverfið og iðnaðinn. Í þessu sambandi stingur Tine Sundtoft upp á því að komið verði á fót norrænum vettvangi fyrir eiturefnalaust hringrásarhagkerfi fyrir plast.

Þá er mikilvægt að þýða græn umskipti á tungumál sem er skiljanlegt hvort sem er út frá samfélagslegu eða efnahagslegu sjónarhorni.

„Þetta er mikilvægt til þess að virkja einkafjármagn og opinbert fé til fjárfestinga í grænu umskiptunum. Í norræna samstarfinu ætti að safna saman lykilaðilum sem geta flýtt fyrir þróun á grænni fjármálamarkaði. Í opinbera geiranum ætti að styðja löndin til þess að hámarka nýtingu opinbers fjármagns sem styður græn umskipti,“ segir Tine Sundtoft.

Boltinn hjá stjórnmálafólkinu

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, segir niðurstöður skýrslunnar afar mikilvægar fyrir norrænt samstarf um umhverfis- og loftslagsmál:

„Úttektin er þáttur í þeim umbótum sem gerðar hafa verið á norrænu samstarfi og grundvöllur þess að virðisauki samstarfsins verði enn meiri á komandi árum.“

Boltinn er hjá stjórnmálafólkinu sem Tine Sundtoft hvetur afdráttarlaust til þess að sýna skilning og vilja í verki.

„Ráðamenn landanna verða að snúa bökum saman til þess að löndunum takist umskiptin. Öllum ber saman um að norrænu löndin hafi bæði forsendur og vilja til að vísa veginn í þeim umskiptum sem bíða allra landa heims ef jörðin á að geta fætt tíu milljarðar jarðarbúa árið 2050. Nú er tími kominn til aðgerða,“ segir Tine Sundtoft.

Karolina Skog, umhverfismálaráðherra Svíþjóðar og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál á árinu 2018, segir að í skýrslunni sé bent á margar mikilvægar leiðir til sóknar í norrænu samstarfi um umhverfismál:

„Umhverfismálin þekkja engin landamæri og aðeins með sameiginlegu átaki getum við leyst þau viðfangsefni sem við blasa. Skýrslan staðfestir þetta og bendir á mikilvægi þess að við höldum áfram að styrkja og dýpka gott samstarf landanna.“

Skýrslan „Góðir grannar - Norðurlönd á tímum grænna umskipta“ er til orðin eftir meira en hundrað samtöl sem Tine Sundtoft átti við ráðherra, þingmenn, embættismenn, vísindamenn og fulltrúa umhverfissamtaka hvarvetna á Norðurlöndum, hjá ESB, SÞ og OECD. Skýrslan er fjórða stefnumótandi úttektin á norrænu samstarfssviði.

Skýrslan í heild sinni