Vefgátt styttir leiðina á nýja markaði

28.03.18 | Fréttir
byggare
Ljósmyndari
Greyson Joralemon
Fyrirtæki sem leita út fyrir landsteinana á nýja markaði fá nú gagnlegt verkfæri: Vefgátt með tenglum á þær reglur sem gilda í nágrannalöndunum um stofnun atvinnureksturs, viðskipti og mannaráðningar. Tenglagáttin var efst á óskalista aðila vinnumarkaðarins þegar rætt var um hvaða norrænu stjórnsýsluhindrunum þyrfti að ryðja úr vegi.

Nú hefur ný rafræn tenglavefgátt, nordenbusiness.org, litið dagsins ljós á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku. Hún er ætluð litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hyggja á útrás til stærri markaða á Norðurlöndum.

Með vefgáttinni er komið til móts við ýmsar atvinnugreinar þar sem talið er að skortur á yfirsýn yfir lög og reglur nágrannalandanna hamli frjálsri för milli landanna.

„Það sem helst kemur í veg fyrir að byggingarfyrirtæki taki að sér verkefni í öðru landi er skortur á upplýsingum um reglur sem þar gilda. Það á að vera auðvelt fyrir fyrirtæki að breyta rétt,“ segir Anita Kurowska Larsen, aðalráðgjafi hjá Dansk Byggeri, samtökum danska byggingariðnaðarins.

Mismunandi lög og reglur atvinnugreinanna

Anita er einn fulltrúi aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndum sem hafa tekið þátt í samráðsfundum með norrænum stjórnvöldum og Stjórnsýsluhindranaráðinu þar sem tilgreindar hafa verið hindranir sem standa helst í vegi fyrir frjálsri för. 

Skortur á samanteknum upplýsingum um reglur nágrannalandanna og skortur á gagnkvæmri viðurkenningu á kröfum atvinnugreinanna til starfsréttinda eru tvær helstu hindranirnar sem fjallað var um á alls átta samráðsfundum. 

Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar stóð að gerð vefgáttarinnar og á vordögum 2018 verður gengið frá gáttinni, unnið að kynningu á henni og hún tekin í notkun.

„Hún lítur vel út við fyrstu sýn,“ segir Robert Forsberg, verkefnisstjóri á sviði alþjóðaviðskipta hjá viðskiptaráðinu í Norðurbotni.

Þörfin enn meiri

Hann starfar við að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki sem leita nýrra markaða í Finnlandi og Noregi og veit hvenær fyrirtækin leita til hans með ítarlegar spurningar.

„Þá er gott að geta bent á vefgáttina.“

Anita Kurowska Larsen lítur ávefgáttina sem fræ sem norræn fyrirtæki geta ræktað þar til þau verða að „plöntu“:

„Vefgáttin bendir á reglur sem gilda um fyrirtæki sem hyggjast hefja atvinnurekstur í öðru norrænu landi. Ég tel einnig mikla þörf á að taka saman reglur sem gilda um fyrirtæki sem taka með sér starfsfólk, vélar og þekkingu til að vinna stutt verkefni í nágrannalöndunum.“

Enn um sinn er vefgáttin ætluð fyrirtækjum sem hyggjast hefja atvinnurekstur, ráða starfsfólk eða finna nýja markaði á Norðurlöndum. Þegar undirtektirnar koma í ljós, notkun tenglagáttarinnar og eftirspurn eftir henni, verður tekin ákvörðun um hvort þróa eigi gáttina enn frekar.