Verkfærataska hjálpar litlum samfélögum í umskiptum til vistvænna lífshátta

13.03.17 | Fréttir
Vindkraftverk i Frederikshavn
Photographer
Tom Jensen/Frederikshavn kommun
Hvernig fer lítið samfélag að því að taka upp kerfi sem byggir að öllu leyti á endurnýjanlegri orku? Svarið gefur ný norræn handbók, en í henni er að finna hagnýt tæki fyrir verkefni um endurnýjanlega orku, en þau eiga að auðvelda litlum samfélögum í strjálbýli umskipti til vistvænna lífshátta.

Í handbókinni eru leiðbeiningar í að beita tiltækri tækni til að þróa áreiðanlega endurnýjanlega orku á viðráðanlegu verði. Handbókin er samin með það í huga að hana megi staðfæra og að hún sé auðveld í notkun. Þar er að finna aðferðir til að reikna út kostnað og ábata af tilteknum orku- og hitakerfum út frá þörfum viðkomandi samfélags.

Vonast er til að handbókin nýtist áhugasömum staðbundnum aðilum – stjórnmálafólki, orkufyrirtækjum og almenningi – í litlum samfélögum til að skapa endurnýjanlegar orkulausnir sem stefnt er að. Skipuleggjendur fá hagnýt verkfæri og upplýsingar sem þarf til að skapa verkefni sem vænleg eru til árangurs og geta orðið öðrum litlum samfélögum hvatning til að fara sömu leið.

Háleit markmið fyrir græn umskipti

Verkfærataskan Renewable energy supply and storage: Guide for planners and developers in sparsely populated areas er samin á vegum Norrænna orkurannsókna, stofnunar Norrænu ráðherranefndarinnar, í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið COWI.

„Norðurlöndin hafa sett sér háleit markmið um að innleiða endurnýjanlega orkugjafa og nálgast þannig markmiðið um sjálfbæra orkukosti án notkunar jarðefnaeldsneytis. Lítil samfélög eru mjög athyglisverður kostur því umskipti þeirra til kerfis sem byggir eingöngu á endurnýjanlegri orku gengur mun hraðar fyrir sig en hægt er í þéttbýli,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í handbókinni er að finna þekkingu og tæki sem koma að góðum notum við skipulagningu á endurnýjanlegu orkukerfi sem hentar best í hverju samfélagi. Hún gerir skipuleggjendum fært að kanna ýmsa valkosti og meta allan kostnað.

Skipuleggjendur fá hagnýta aðstoð

Skipuleggjendur geta til dæmis gripið til handbókarinnar þegar þeir kanna hvort hitaveita með sameiginlegri varmadælu henti best fyrir bæinn eða hvort betra væri að byggja upp hitunarkerfi með mörgum varmadælum sem knúðar eru með staðbundinni endurnýjanlegri orku.

„Í handbókinni er að finna þekkingu og tæki sem koma að góðum notum við skipulagningu á endurnýjanlegu orkukerfi sem hentar best í hverju samfélagi. Hún gerir skipuleggjendum fært að kanna ýmsa valkosti og meta allan kostnað. Auðveldara verður að ákveða hvernig haga skuli umskiptum til orkuveitu sem tryggir samfélaginu áreiðanlegan hita og orku á viðráðanlegu verði án losunar gróðurhúsalofttegunda,“ segir Hans Jørgen Koch, framkvæmdastjóri Norrænna orkurannsókna.

Verkfærataskan veitir svör við spurningum á við: Er betra að geyma hita í einöngruðum vatnsgeymum til síðari nota en að nota kerfi þar sem orkunni er komið fyrir í rafgeymum?  Í handbókinni er gert ráð fyrir eins mörgum breytum og unnt er og geta skipuleggjendur því valið bestu nálgunina í tilteknu orkuverkefni.

Aðstandendur handbókarinnar hafa ýtt tilraunaverkefni úr vör í Leirvík í Færeyjum í þeim tilgangi að kanna hvernig handbókin nýtist í verki. Eftir því sem líður á verkefnið eru vonir bundnar við að Leirvíkingum takist að innleiða endurnýjanlegt orkukerfi.