Skammtímaráðningar og ótrygg störf - aukast í ákveðnum geirum atvinnulífsins en ekki á landsvísu

29.03.19 | Fréttir
Cykelbude i københavn
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Skammtímaráðningar, sjálfstætt starfandi fólk og sms-störf færast ekki í vöxt á norrænum vinnumarkaði. Óhefðbundin ráðningarform eiga við um nálægt þriðjung starfa - alveg eins og fyrir tíu árum. Ef vinnumarkaðurinn er hins vegar skoðaður út frá geirum atvinnulífsins í stað þess að skoða hann út frá hverju landi fyrir sig þá er þróunin stórstíg. „Í tilteknum geirum eykst hlutur þvingaðra og ótryggra skammtímaráðninga með miklum hraða. Þar er hætta á lakari starfsskilyrðum og að það fari að fjara undan norræna líkaninu,“ segir Anna Ilsøe sem er einn fræðimannanna í verkefninu Vinnumarkaður framtíðar.

Munu óhefðbundin ráðningarform halda áfram að leysa venjuleg föst störf af hólmi og ef svo er, hvað verður þá um norræna líkanið? 
Þetta er ein þeirra spurninga sem fræðimenn fást við í stóra samnorræna rannsóknarverkefninu „The future of work: Opportunities and challenges for the Nordic models“. 

25 fræðimenn frá sjö norrænum háskólum rannsaka hvernig atvinnulífið gæti litið út í kringum árið 2030.

Stöðugleikinn kemur á óvart 

„Búist hefur verið við að vegna stafrænnar þróunar og vélmennavæðingar muni óhefðbundin ráðningarform færast í vöxt og nýjar birtingarmyndir slíkra ráðningarforma líta dagsins ljós. Rannsókn okkar sýnir hins vegar að þegar löndin eru skoðuð þá eykst hlutur þessara ráðningarforma ekki. Hlutur þeirra er ótrúlega stöðugur, nálægt 30 prósent starfa á Norðurlöndum,“ segir Anna Ilsøe fræðimaður á sviði vinnumála við Kaupmannahafnarháskóla.

Þetta er einnig orðið stöðugt í öðrum löndum Evrópu en þar er hlutfall óhefðbundinna ráðningarforma heldur hærra, eða 35 prósent. 
Vandinn við þessi ráðningarform er að fólk á á hættu að lenda utan kjarasamninga sem kveða á um laun og starfsskilyrði, auk þess getur það lent utan almannatryggingakerfisins sem í upphafi var búið til fyrir fastráðið launafólk í fullri vinnu. 

Danmörk sker sig úr

Anna Ilsøe og samstarfsfólk hennar í rannsóknarverkefninu hefur rannsakað og borið saman óhefðbundna vinnumarkaðinn i öllum norrænu ríkjunum. Fyrir hendi er áhugaverður munur milli landanna en fyrst og fremst er breytinginn innan tiltekinna geira atvinnulífsins.  


„Í þjónustustörfum í Danmörku, verslun, hótelum, veitingastöðum og þrifum, hefur hlutur jaðarhlutastarfa (marginal deltid), sem þýðir að fólk vinnur minna en 15 tíma á viku, aukist verulega. Þróunin er svo afgerandi að hún sést í tölum fyrir landið í heild og gerir Danmörk að undantekningu frá hinni stöðugu norrænu tilhneigingu,“ segir Anna Ilsøe.

Endastöð fyrir flóttamenn

Óhefðbundnar ráðningar tíðkast einnig fyrst og fremst í hótel- og veitingageiranum í Svíþjóð. 


„Í Svíþjóð eru tímabundnar ráðningar 15 prósent allra ráðninga og er það hærra hlutfall en í hinum norrænu ríkjunum.  Hætta er á að hlutur slíkra ráðninga muni aukast á næstu árum þegar stórir hópar flóttamanna reyna að ná fótfestu á vinnumarkaði. Miklu skiptir að þessir stuttu ráðningarsamningar verði ekki endastöð í mynd ótryggra láglaunastarfa heldur leiði þær til tryggari starfsráðninga.

 

Í Finnlandi er meira en helmingur verktaka einyrkjar.  Þá má finna í landbúnaði, sem undirverktaka í byggingariðnaði, sjálfstætt starfandi í menningargeiranum og sem matarsendla á reiðhjólum.“ 

Sjálfstætt starfandi eða ráðin/n? 

Eitt vandamálið varðandi einyrkja er að þeir vinna oft í raun eins og þeir væru ráðnir í starf þó að kjarasamningar, atvinnuöryggi og reglur um vinnutíma og starfsumhverfi gildi ekki um þá.

„Aðalatriðið er að ekki hafa orðið miklar breytingar á yfirborðinu en ef farið er í saumana á einstökum geirum atvinnulífsins hafa orðið miklar breytingar. Hin nýja sveigjanlega leið til þess að starfa og ráða fólk er notuð á mismunandi hátt í mismunandi geirum atvinnulífsins. Þess vegna er í framtíðinni ekki nóg að bera saman löndin þegar við erum að fylgjast með þróuninni heldur verðum við fyrst og fremst að skoða geirana. 


Norræna líkanið byggist á kjarasamningum milli atvinnurekenda og samtaka launafólks sem kveða á um laun og starfskjör.“ 

Fjarað getur undan líkaninu í einstökum geirum atvinnulífsins

„Ef upp rísa geirar í atvinnulífinu þar sem hlutfall óhefðbundinna ráðninga er hátt getur með tímanum fjarað undan grundvellinum að norræna líkaninu. Fólk með óhefðbundna ráðningu er ólíklegra til þess að skipuleggja sig og nýtur síður verndar af samningum,“ segir Anna Ilsøe.

Enn eru þó laun og starfsaðstæður fólks með óhefðbundin ráðningarkjör betri á Norðurlöndum en víða annars staðar.

Anna Ilsøe og samstarfsfólk hennar bendir einnig á að hlutfall ungs fólks og námsfólks sé hátt hjá þeim sem eru í jaðarhlutastörfum í Danmörku, þ.e. í hópi þeirra sem vinna færri en 15 stundir á viku. Í Danmörku og á Íslandi er algengt að námfólk vinni með námi, sé í hlutastarfi algerlega að eigin ósk. 

Þvingunin eykst

Í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi eykst hlutfall þvingaðrar þátttöku í óhefðbundnum ráðningum, þ.e. meðal fólks sem vill vera í tryggu og fullu starfi. 
Á öllum Norðurlöndunum eru það konur, innflytjendur og ungt fólk sem er í hlutastörfum eða tilfallandi störfum. Meðal karla og þeirra sem eldri eru er algengara að vera sjálfstætt starfandi, segja fræðimennirnir. 
 

Future of Work á Íslandi

Anna Ilsøe er meðhöfundur nokkurra hlutaskýrslna sem verða gefnar út vorið 2019.  
Hlutaskýrslurnar verða framlag Norðurlanda til hundrað ára afmælis Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 2019 og þær verða einnig mikilvægur grundvöllur fyrir Future of Work-ráðstefnuna sem Ísland stendur að vorðið 2019
Lokaskýrsa Vinnumarkaðar framtíðar verður afhent árið 2020.