Ráðstefna um vinnumarkað framtíðar

28.03.19 | Fréttir
Harpa
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Dagana 4. til 5. apríl verður haldin síðasta ráðstefnan af fjórum í röð norrænna ráðstefna sem blásið hefur verið til í tilefni aldarafmælis Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í ár verður ráðstefnan haldin í Reykjavík. Ráðstefnugestir koma hvaðanæva að úr heiminum til að ræða jafnrétti kynjanna og hvert hlutverk aðila vinnumarkaðarins verður í framtíðinni. - Jafnrétti kynjanna, fæðingarorlof og vinnumarkaðurinn eru þættir sem tengjast sífellt meira innbyrðis. - Jafnrétti kynjanna, fæðingarorlof og vinnumarkaðurinn eru þættir sem tengjast sífellt meira innbyrðis. Norðurlönd geta orðið öðrum löndum innblástur á þessum sviðum, segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Íslands.

Hvaða áhrif hafa örar breytingar á vinnumarkaði á Norðurlönd og vinnumarkaðsmódel þeirra? Og hvernig geta Norðurlönd náð fram auknu kynjajafnrétti og sjálfbærni á vinnumarkaði?

Þessar spurningar verða í brennidepli á ráðstefnunni.

Þátttakendur hvaðanæva að úr heiminum

Á þeim tveimur dögum sem ráðstefnan stendur yfir munu 300 ráðstefnugestir, þar á meðal vísindafólk, stjórnmálafólk, formenn verkalýðsfélaga, fulltrúar atvinnurekenda og formenn alþjóðlegra samtaka, kynna hugmyndir sínar og tillögur að því hvernig bæta má starfsskilyrði og viðhalda þekkingu svo að við missum ekki störf í hendur vélmenna og gervigreindar. Launajafnrétti kynjanna verður einnig í brennidepli.

Norðurlönd búa yfir lykli

Daginn áður en ráðstefnan hefst, þann 3. apríl, ætla norrænu atvinnumálaráðherrarnir að koma saman á fundi. Guy Ryder, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, tekur þátt á bæði ráðstefnunni og fundinum.

- Norræna vinnumarkaðsmódelið, sem byggir á þríhliða samráði stjórnvalda og samtaka atvinnurekenda og launafólks er
lykillinn að því að takast megi á við áskoranir vinnumarkaðarins í framtíðinni, segir Guy Ryder.

Um Norðurlönd á fjórum árum

Future of Work-ráðstefnan hefur verið haldin árlega síðastliðin fjögur ár, í formennskulandi Norrænu ráðherranefndarinnar hverju sinni. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Helsinki fyrir fjórum árum og þemað var breyttur vinnumarkaður um allan heim. Í Osló, fyrir þremur árum síðan, var svo fjallað um deilihagkerfið og á þriðju ráðstefnunni, sem haldin var í Stokkhólmi í fyrra, var fjallað um tækniþróun og breytta menntunarþörf.

Þema fjórðu ráðstefnunnar, sem haldin verður í Reykjavík, verður nokkurs konar sambland af því sem áður hefur verið fjallað um, en hún markar einnig aldarafmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Skýrsla Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Því verður sérstök kynning á skýrslu alþjóðlegrar nefndar sem Alþjóðavinnumálastofnunin lét gera um framtíð atvinnulífs. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, var annar tveggja formanna í nefndinni.
Alþjóðavinnumálastofnunin hefur kallað eftir hugmyndum og tillögum frá norrænu löndunum um hvernig má bæta starfsskilyrði, auka jafnrétti kynjanna og viðhalda þekkingu svo að við missum ekki störf í hendur vélmenna og gervigreindar.

Kynjajafnrétti í forgang

Á Norðurlöndum hefur verið lögð áhersla á atvinnuöryggi og þríhliða samráð á vinnumarkaði. Þessi atriði verða rædd og þróuð áfram. Atvinnuumhverfið er mikilvægt, segir Ásmundur Einar. Hann telur einnig mikilvægt að setja kynjajafnrétti á vinnumarkaði í forgang.

Nýlega var kynnt til sögunnar jafnlaunavottun á Íslandi, sem nú er verið að innleiða í öllum opinberum stofnunum og fyrirtækjum með fleiri en 250 starfsmenn. Norðurlönd hafa einnig rutt brautina þegar kemur að fæðingarorlofi og öðrum umbótum á vinnumarkaði. Jafnrétti kynjanna, fæðingarorlof og vinnumarkaðurinn eru þættir sem tengjast sífellt meira innbyrðis. Það er mikilvægt að allir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.

Samfélagslegt réttlæti

Árið 2016 hófu Norræna ráðherranefndin og Alþjóðavinnumálastofnunin samstarf um kynjajafnrétti á vinnumarkaði framtíðar. Samstarfið var hluti af verkefninu „Women at Work Centenary Initiative“ sem Alþjóðavinnumálastofnunin stóð fyrir. Það var eitt sjö verkefna um samfélagslegt réttlæti sem Alþjóðavinnumálastofnunin og öll aðildarríkin vinna að og leggja sérstaklega áherslu á í tengslum við aldarafmælið í ár.

Sem viðbragð við bæði „Women at Work“ og „Future of Work“, sem er annað afmælisverkefni, er nú einnig verið að vinna yfirgripsmikið rannsóknarverkefni um hvernig vinnumarkaðurinn á Norðurlöndum gæti litið út árið 2030. Norrænu atvinnumálaráðherrarnir áttu frumkvæðið að verkefninu og fjöldi norrænna fræðimanna tekur þátt í því, undir stjórn norsku rannsóknastofnunarinnar Fafo.

„Við flýjum ekki framtíðina“

Ásmundur Einar Daðason segir að framtíð vinnumarkaðarins sé nú til umræðu um öll Norðurlönd og þar sé Ísland engin undantekning. Fólksfjölgun er hröð og ný viðmið breiðast hratt út á vinnumarkaðnum. Þá hafa loftslagsbreytingar einnig gríðarleg áhrif. Íslensk stjórnvöld vona að útkoma ráðstefnunnar myndi grunn sem hægt verði að byggja á og vinna áfram með.

- Í ljósi þess hve breytingarnar eru örar, munu Norðurlönd einungis geta haldið forystu sinni ef þau halda áfram samstarfi sínu á sviði atvinnumála. Við flýjum ekki framtíðina, segir Ásmundur Einar Daðason.