Inga Ravna Eira

Inga Ravna Eira
Photographer
Michal Aase
Inga Ravna Eira: Ii dát leat dat eana. Ljóðabók, Davvi Girji, 2018. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

Iŋgos-Máhte Iŋgá, Inga Ravna Eira (f. 1948) er rithöfundur, kennari og þýðandi. Hún er komin af hreindýrabændum í Karasjok í Noregi, þar sem hún býr enn í dag. Hún skrifar ljóð, smásögur og barnabækur á norðursamísku. Ásamt fleiri listamönnum hefur hún sett upp sýningar með gjörningalist og flutt eigin ljóð í tónljóðaverkinu Čuollogeađgi (The Silhouette Stone).

Ii dát leat dat eana („Þetta er ekki jörðin“), sem nú er tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, er ljóðabók um loftslagsbreytingar. Það sem ljær ljóðunum sérstöðu er sú nánd sem skáldið hefur við náttúruna og þær sterku tilfinningar sem birtast í efnistökunum. Hvert ljóð er markað lífsreynslu sem birtist í einstökum orðaforða og ýmsum loftslagstengdum hugtökum sem eiga nú á hættu að hverfa úr samísku nútímamáli. Hér er á ferð bók sem hefði ekki getað verið skrifuð af hverjum sem væri hvar sem væri, heldur aðeins af skáldi sem fæddist inn í samískt samfélag fyrir meira en sjötíu árum og býr yfir þekkingu og reynslu sem spanna þær breytingar sem orðið hafa á loftslagi og veðurfari á undanförnum áratugum. Skáldið nefnir dæmi frá því fyrir fleiri tugum ára og allt til dagsins í dag, og hver sá sem þekkir menninguna sem lýst er mun einnig kannast við lýsingar á þeim tíma þegar mannfólkið lifði í sátt við náttúruna en ekki sem andstæðingar hennar. Orðfæri ljóðanna og málsnið krefjast þess einnig að lesandinn kunni skil á menningarheiminum að baki. Líkt og tungumál inúíta er samískan auðug af orðum sem lýsa snjó, áferð hans og eiginleikum. Snjór og beitarskilyrði skipta miklu máli fyrir hreindýrabúskap, undirstöðuatvinnuveg Samanna, og í bókinni tekst skáldinu að lýsa mörgum þessara fyrirbæra með djúpri þekkingu, nánd og ást á menningunni.

Í bókinni eru athafnir mannfólks og inngrip þess í náttúruna í dag sett í samband við goðin í hinni fornu, samísku trú; þær verur sem stóðu vörð um jörðina, mannfólkið og lífið sjálft. Í þessum ljóðum heyrum við örvæntingaróp gyðjunnar Uksáhká til barna sólarinnar, mannfólks nútímans á jörðinni, sem hlustar ekki lengur á hana. Þarna gætir hvorttveggja hræðslu við framtíðina og guðsótta við náttúrugoð frumbyggjanna. Hvers konar heim skiljum við eftir handa komandi kynslóðum og hvað hefðu goðin haft að segja um nútímafólk og jörð sem er gerbreytt frá því sem áður var? Þegar jörðin er ekki lengur sú sama og fyrr? Ljóðin í bókinni bæði sýna og gera kröfu um að lesandinn þekki menningu frumbyggja, ekki aðeins yfirborðslega heldur innan frá. Þetta stuðlar að því að bókin fær aukna dýpt við annan lestur. Loftslagsbreytingar eru afar aðkallandi viðfangsefni, ekki aðeins í samískri menningu heldur í menningu allra frumbyggja. Bráðnun jökla hefur ekki aðeins gáruáhrif á norðurslóðum heldur geta afleiðingarnar verið hrikalegar um allan heim. Bláleitar myndskreytingar eftir Mathis Nango styrkja enn frekar boðskapinn í þessari bók sem er hvort tveggja einstakt bókmennta- og listaverk. Viðfangsefni bókarinnar er einkar mikilvægt í samtíma okkar og hún mun eiga þátt í að auka áhuga á samískri menningu og tungu. Fyrir þetta fagurbókmenntaverk í hæsta gæðaflokki eftir einn elsta núlifandi höfund Sama, fyrir örvæntingaróp gyðjunnar Uksáhká, telur dómnefndin rétt að tilnefna höfundinn til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár!