Norrænir ráðherrar segja mikilvægt að vinna að varðveislu vistkerfis sjávar og auka metnað á sviði loftslagsmála

12.05.21 | Fréttir
Seaweed and the surface of the ocean with the sun shining down
Photographer
Silas Baisch - Unsplash.com
Á tímum mikilla loftslagsbreytinga er vinna að varðveislu og endurreisn vistkerfis sjávar mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Þetta var boðskapur norrænu loftslags- og umhverfisráðherranna eftir fund dagsins í Norrænu ráðherranefndinni. Yfirlýsingin tengist sameiginlegri yfirlýsingu umhverfis- og loftslagsráðherra aðildarríkjanna vegna COP15, sem haldið verður í Kunming í Kína í október 2021.

Efni fundar norrænu loftslags- og umhverfisráðherranna í Norrænu ráðherranefndinni í dag var að horfa til þeirra stóru leiðtogafunda um líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál sem framundan eru. Niðurstöður verkefnisins „Þátttaka ungs fólks og þróun nýs samnings um líffræðilega fjölbreytni“ sem Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð stóðu að voru kynntar fyrir ráðherrunum. Hópur ungs fólks á Norðurlöndum hefur skrifað drög að stöðuskjali (Position Paper) þar sem settar eru fram kröfur til samningsaðila Samnings Sameinuðu þjóðanna og norrænu ríkisstjórnanna og var skjalið lagt fyrir ráðherrana.

Sameiginleg yfirlýsing um vistkerfi sjávar

Ráðherrarnir notuðu auk þess fundinn til þess að skrifa undir metnaðarfulla yfirlýsingu vegna undirbúnings fyrir COP15 í Kína í október. Með yfirlýsingunni vilja ráðherrarnir leggja áherslu á mikilvægi þess að aflað verði nauðsynlegrar þekkingar til þess að hægt sé að varðveita og endurreisa vistkerfi sjávar á tímum loftslagsbreytinga. Vistkerfi sem bæði eiga að tryggja líffræðilega fjölbreytni hafsins og þaraskóganna, sem er mikilvægur liður í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Ráðherrarnir ræddu í þessu sambandi um líffræðilega fjölbreytni og fjármögnun. Miklir möguleikar felast í alþjóðlegum fjármálakerfum þegar kemur að tækifærum til að beina fjárfestingum í átt að því að hafa jákvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

Leiðtogafundur SÞ um líffræðilega fjölbreytni, COP15, í október er mikilvægt tækifæri til þess að hafa áhrif á ástand náttúrunnar. Við tökum skilaboð unga fólksins mjög alvarlega. Það er á okkar ábyrgð að stöðva undanhald líffræðilegrar fjölbreytni og við getum það þegar við vinnum saman. Fjármálageirinn, sem við ræddum um í dag, gegnir þar miklu hlutverki. Náttúran er ekki afmarkaður hluti af hagkerfinu, þvert á móti geta réttar fjárfestingar haft áhrif á ástand náttúrunnar.

Krista Mikkonen, umhverfis og loftslagsmálaráðherra Finnlands

Norrænu loftslags- og umhverfismálaráðherrarnir notuðu auk þess tækifærið og fóru á fundinum yfir stöðu mála varðandi undirbúning fyrir COP26 loftslagsráðstefnuna. Fjárfestingar um allan heim sem eru viðbrögð við efnahagskreppu af völdum heimsfaraldursins veita tækifæri til þess að flýta fyrir framkvæmd Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiða SÞ fyrir grænum vexti. Í þessu sambandi sögðu ráðherrarnir að COP26 veitti tækifæri sem skipti heiminn sköpum til að sameinast um skyldur gagnvart metnaðarfullri framkvæmd Parísarsamkomulagsins með uppfærðum markmiðum innan hvers lands.

Norðurlöndin geta og eiga að vera leiðandi í viðsnúningi í loftslagsmálum. Á þessari ögurstundu er mikilvægt að við vinnum saman að því að auka metnað okkar vegna COP26 og að við stuðlum í sameiningu að því að niðurstaða fundarins verði til góðs. Það er enn tækifæri til þess að halda hnattrænni hlýnun í 1,5 gráðu en það er ekki auðvelt og við verðum að bregðast við strax.

Per Bolund, umhverfis- og loftslagsmálaráðherra Svíþjóðar

Norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir eru sammála um að alþjóðlegt samstarf haldi áfram þrátt fyrir heimsfaraldurinn sem enn stendur. Framfarir hafa meðal annars opnað tækifæri til þess að hefja viðræður um alþjóðasamning um að minnka plastúrgang í hafinu.