Loftslags- og umhverfisráðherrar Norðurlanda – leiðin að loftslagsráðstefnu SÞ og lengra

12.05.21 | Fréttir
Woman speaking at a debate at Nordic Climate Action Weeks in Stockholm
Photographer
Moa Karlberg
Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlanda funduðu 12. maí og ræddu undirbúning fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26.

Ráðherrarnir lýstu yfir ánægju sinni með þá mörgu alþjóðlegu leiðtogafundi sem stuðla að metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum, þar á meðal fundur sem Biden Bandaríkjaforseti stóð fyrir á dögunum og loftslagsviðræðurnar í Petersberg.

Ráðherrarnir binda vonir við að loftslagsaðgerðir verði ofarlega á baugi á næsta fundi G7-ríkjanna og einnig innan G20-hópsins. Ráðherrarnir vísuðu til yfirlýsingar dags. 30. apríl 2020 þar sem Norðurlöndin skuldbinda sig til að fylgja alþjóðlegri dagskrá í loftslagsmálum og ráðherrarnir lýstu yfir fullum stuðningi við næsta formennskuland loftslagsráðstefnunnar með það fyrir augum að hún skili sem bestum árangri.

Loftslagsráðstefnan mun marka tímamót þar sem heimsbyggðin skuldbindur sig til að ganga frá Parísarreglugerðinni og hrinda Parísarsamningnum í framkvæmd á metnaðarfullan hátt með uppfærðum landsmarkmiðum í samræmi við markmið um kolefnishlutleysi um miðja öldina. Fjárfestingar um allan heim til að bregðast við efnahagskröggum af völdum heimsfaraldursins greiða fyrir betri og grænni endurreisn og flýta fyrir framkvæmd markmiða Parísarsamningsins og sjálfbærnimarkmiða SÞ fyrir 2030 um að heimurinn nái sér á strik með umhverfisvænum hætti.

Með hliðsjón af þessu bentu ráðherrarnir á eftirfarandi atriði þar sem Norðurlöndin geta stuðlað að glæsilegum árangri ráðstefnunnar. Norðurlönd:

  • Munu halda áfram að aðstoða þróunarlöndin við að ráða betur við skýrslugjöf sem er í samræmi við kröfur sem gerðar eru í gagnsæisramma Parísarsamningsins. Sá rammi er lykilstoð samningsins.
  • Munu halda áfram að þróa tilraunaverkefni og leita leiða til að framfylgja 6. gr. Parísarsamningsins og undirstrika að þörf er á öflugum reglum sem auka metnað og viðeigandi vernd.
  • Minna á staðfasta skuldbindingu um það markmið að verja 100 milljörðum Bandaríkjadala árlega frá árinu 2020. Norðurlöndin eru enn einn helsti fjármögnunaraðila loftslagsaðgerða í heiminum og hvetja önnur lönd til að auka framlög sín til loftslagsaðgerða í samræmi við verga landsframleiðslu. Norðurlöndin gera ráð fyrir að öll lönd – iðnríki og þróunarlönd – flétti loftslagsaðgerðir inn í fjárlög og áætlunarferli og stuðli á þann hátt að öflugri loftslagsstefnu og regluramma sem laðar að fjárfestingar sem nauðsynlegar eru til umskipta.
  • Eru reiðubúin að bregðast við forgangsröðun þróunarlandanna, til að mynda aðlögun að loftslagsbreytingum, með því að láta rödd okkar heyrast og fylgja málum eftir hjá alþjóðlegum fjármálastofnunum, viðeigandi stofnunum Sameinuðu þjóðanna og fjölþjóðlegum sjóðum.
  • Fagna því að formennskuland komandi loftslagsráðstefnu hafi ráðist í ýmsar aðgerðir til að tryggja að ráðstefnan skili árangri og hlakka til að vinna áfram að umræddum fimm átaksverkefnum loftslagsráðstefnunnar.
  • Minna á aðgerðir Norðurlandanna og annarra aðila, til að mynda leiðtogahóp um umskipti í iðnaði, samstarf fjármálaráðherranna um loftslagsmál og alþjóðlega nefnd um græn orkuskipti sem taka tillit til fólksins. Ráðherrarnir eru staðráðnir í að beita sér enn frekar í því skyni að auka loftslagsaðgerðir um allan heim.
  • Munu vinna áfram í samstarfi við önnur ríki um allan heim að því að ná markmiðum um loftslagshlutleysi, m.a. með því að veita aðstoð við mótun stefnuramma og fjármagna loftslagsaðgerðir en einnig með því að nýta framsæknar lausnir sem norræn fyrirtæki bjóða upp á. Umskipti til loftslagshlutleysis skapa ný atvinnutækifæri og efnahagsþróun. Á síðustu loftslagsráðstefnu var Norðurlandaskálinn fundarstaður ríkisstjórna, félagasamtaka, vísindasamfélagsins og fyrirtækja. Ráðherrarnir viðurkenndu mikilvægi þess að leiða saman ýmsa aðila í loftslagsmálum með margvísleg sjónarhorn á loftslagsaðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til. Ráðherrarnir lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi þess að rödd ungs fólks heyrðist til að tryggja metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum á heimsvísu.