Fjármálastjórn Norrænu ráðherranefndarinnar sett skilyrði

22.06.21 | Fréttir
De nordiska samarbetsministrarna
Ljósmyndari
Mary Gestrin
Í fyrsta sinn frá upphafi heimsfaraldursins hittust samstarfsráðherrarnir á staðfundi á mánudag og þriðjudag í Borgá í Finnlandi. Meginefni fundarins var sá vandi í fjármála- og verkefnastjórn ráðherranefndarinnar sem skrifstofan hefur orðið að glíma við undanfarin tvö ár.

Afgreiðsla ársreikninga ráðherranefndarinnar fyrir árið 2020 hefur tafist. Ekki reyndist unnt að skila ársreikningum til Ríkisendurskoðunar í Danmörku fyrr en í júní þar sem stikkprufur ríkisendurskoðanda bentu til að bókhaldsvillur hefðu verið gerðar í verkefnastjórninni. Leiðréttum ársreikningum var skilað eftir að skrifstofan hafði farið í gegnum afar umfangsmikla innri endurskoðun á umsjón verkefna.

Finnar gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Thomas Blomqvist, ráðherra Finnlands, er í forsvari fyrir samstarfsráðherranefndina í ár og var gestgjafi fundarins í Borgá í Finnlandi sem var fyrsti fundur þeirra í raunheimi frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst. Hann leggur áherslu á alvöru málsins eftir að ráðherrarnir hafa enn einu sinni fengið fulltrúa Ríkisendurskoðunar á sinn fund til að heyra sjónarmið þeirra.

„Erfiðleikarnir í verkefnaumsjóninni valda samstarfsráðherrunum áhyggjum. Okkur er kunnugt um að skrifstofan fari vandlega yfir verkferla sína því að komið er í ljós að verkefnastjórninni er enn ábótavant. Á fundinum í dag tókum við ákvarðanir um frekari skilyrði sem þarf að uppfylla til að treysta megi að meðferð norrænna fjármuna sé með tryggum hætti.“

 

Fjórir ráðherrar mættu til samstarfsráðherrafundarins, tveir tóku þátt gegnum fjarfundabúnað.