Norðurlandaráð og Skotland opna á samstarf á COP26

26.03.21 | Fréttir
Bertel Haarder
Photographer
Johannes Jansson/norden.org

Forseti Norðurlandaráðs 2021, Bertel Haarder.

Forseti Norðurlandaráðs, Bertel Haarder, og talsmaður skoska þingsins, Ken Macintosh, funduðu rafrænt þann 26. mars. Á fundinum var meðal annars rætt um samstarf á loftslagsráðstefnunni COP26, sem fram fer í Glasgow í nóvember.

Einnig var fundurinn til merkis um hin góðu samskipti sem verið hafa á milli Norðurlandaráðs og skoska þingsins. Sömu aðilar hittust einnig í janúar 2020. Þá heimsótti sendinefnd frá Norðurlandaráði skoska þingið, og enn er til staðar gagnkvæmur áhugi á auknu samstarfi.

Nú eru uppi áform um að eiga í samstarfi á COP26. Enn á eftir að útfæra smáatriðin, en samstarfið gæti til dæmis snúist um að halda sameiginlega viðburði í norræna skálanum í Glasgow, þar sem Norðurlandaráð mun efna til fjölda viðburða.

„Ég er persónulega afar ánægður með að skoska þingið og Norðurlandaráð hyggi á samstarf á COP26. Báðir aðilar leggja mikla áherslu á loftslagsmálin og átta sig á að eina leiðin til að ná settum markmiðum í málaflokknum er að eiga í alþjóðlegu samstarfi. Framtíðarsýn okkar á Norðurlöndum er að svæðið verði orðið sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030 og það er okkur eiginlegt að eiga í samstarfi við aðra,“ segir Bertel Haarder.

Talsmaður skoska þingsins, Ken Macintosh, er líka ánægður með fyrirhugað samstarf á COP26.

„Söguleg, menningarleg og landfræðileg tengsl Skotlands og norrænu landanna eru sterk og víðtæk. Samstarf og sameiginlegar aðgerðir skoska þingsins og Norðurlandaráðs fyrir, eftir og á COP26 hafa mikla þýðingu með hliðsjón af sameiginlegri áherslu okkar á að takast á við loftslagsvandann,“ sagði Macintosh.

Náin vinatengsl við Bretland

Bertel Haarder lagði áherslu á hin nánu vinatengsl Norðurlanda og Skotlands og sagði að Norðurlandaráð legði mikið upp úr góðu samstarfi við bæði Skotland og Bretland í heild sinni. Í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum 2018–2022 er sérstaklega tekið fram að þrátt fyrir Brexit sé Bretland „sjálfsagður samstarfsaðili Norðurlanda“.

Bretland er gestgjafaland loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fram fer dagana 1.–12. nóvember.

 

Norðurlandaráð var sett á laggirnar árið 1952 og er vettvangur opinbers samstarfs þingmanna á Norðurlöndum. Ráðið skipa 87 kjörnir fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.