„Ungt fólk verður að knýja á um samninginn um líffræðilega fjölbreytni“

25.06.19 | Fréttir
det utrotningshotade nordiska bruna biet
Ljósmyndari
Anja Laupstad Vatland
Hröð útrýming plöntu- og dýrategunda kallar á nýjan og öflugan alþjóðlegan samning um líffræðilega fjölbreytni. Slíkur samningur verður þó ekki nægilega metnaðarfullur án aðkomu unga fólksins. Þetta er skoðun Nicholas Kujala hjá Norðurlandaráði æskunnar, en hann er einn þeirra sem vonast er til að geti virkjað ungt fólk til að reyna að hafa áhrif á samningagerðina.

Rúmur mánuður hefur liðið síðan fyrsta alþjóðlega skýrslan um líffræðilega fjölbreytni var kynnt og vakti mikla athygli um allan heim. Samkvæmt skýrslunni er allt að milljón af hinum átta milljónum plöntu- og dýrategunda heimsins í útrýmingarhættu, margar þeirra á næstu áratugum.

Um leið hefur sýnt sig að fáum af löndum heimsins tekst að mæta markmiðum alþjóðlega samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem er í gildi til 2020.

Unga fólkið beiti þrýstingi

Haustið 2020 þurfa lönd heimsins að ná samkomulagi um uppfærðan samning og ný markmið á sviði líffræðilegar fjölbreytni, en það mun útheimta raunverulegar aðgerðir.

„Löndin mæta ekki núverandi markmiðum eins og er, og hætt við því að það ástand verði notað til að réttlæta það að draga í land og setja sér metnaðarlausari markmið. Það má ekki gerast. Við verðum þvert á móti að leggja enn meira á okkur. Ég tel að ungu fólki beri skylda til að knýja á um að þetta verði gert af miklum metnaði,“ segir hinn ungi finnski stjórnmálamaður Nicholas Kujala.

Í næstu viku heldur hann til Þrándheims, þar sem hann verður fulltrúi Norðurlandaráðs æskunnar á stórri ráðstefnu um líffræðilega fjölbreytni.

Ráðstefnan er einn af mörgum liðum í vinnu sem miðar að því að sem flest ungmenni á Norðurlöndum fái færi á að hafa áhrif á hinn nýja alþjóðlega samning.

  Frumkvæðið frá Norðurlandaráði

  Vinnan sem nú stendur yfir er að frumkvæði Norðurlandaráðs og styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Markmiðið er að styðja ungt fólk til áhrifa varðandi samninginn um lífræðilega fjölbreytni.

  „Það er afar mikilvægt að mikill fjöldi ungmenna með ólíkan bakgrunn fái að láta raddir sínar heyrast. Við viljum gefa öllum sama möguleika til þátttöku og erum því að setja saman verkfærakassa svo að fleiri fái færi á að auka þekkingu sína og taka afstöðu,“ sagði Nicholas Kujala.

   Verkfærakassi til að auka þekkingu og áhrif

   Verkfærakassinn er saminn af sérfræðingum í samráði við hóp ungmenna og verður hann tilbúinn í sumarlok. Einnig er verið að leggja drög að fundum ungmenna víðsvegar á Norðurlöndum og leiðtogafundi ungmenna í upphafi ársins 2020.

   Ætlunin er að viðburðirnir geti af sér ýmsar tillögur sem verði framlag til þeirra hnattrænu viðræðna sem eiga sér stað í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna, og einnig tillögur sem beint væri til ESB og ríkisstjórna Norðurlanda.   

   „Við erum nýfarin að leggja línurnar varðandi framlag norrænna ungmenna í viðræðunum,“ segir Nicholas Kujala.

    Norðurlönd eiga að taka forystu

    Á þriðjudag fundaði sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og fékk skýrslu um hvernig verkefni nefndarinnar væri að þróast.

    „Hér er það Norðurlöndum verðugt verkefni að taka forystu. Of margar tegundir eru að hverfa og þróunin er of hröð. Einnig liggur styrkur okkar í því að ungmenni í tugþúsundatali hafa sýnt áhuga á loftslagsmálum og framtíð jarðarinnar. Að leyfa rödd þeirra er heyrast er ein leið til að taka forystu,“ segir Ketil Kjenseth, formaður sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs.