Ný markmið um líffræðilegan fjölbreytileika þurfa að vera metnaðarfull

10.04.19 | Fréttir
Plasterklæring 2019
Ljósmyndari
Birgir Ísleifur Gunnarsson.
Hnignun líffræðilegs fjölbreytileika er ein af stærstu áskorunum sem jarðarbúar standa frammi fyrir. Nú kalla umhverfisráðherrar Norðurlanda eftir metnaði og að hlustað verði á ungt fólk þegar Sameinuðu þjóðirnar setja ný markmið.

Alþjóðlegar rannsóknir sýna að tegundum fækkar og vistkerfi skaðast og eyðast á slíkum hraða að það ógnar lífsskilyrðum núlifandi og komandi kynslóða.

Framfarir

Innan rammasamnings SÞ um líffræðilega fjölbreytni (CBD) starfa þjóðir saman að því að draga úr hnignun, meðal annars með því að friða náttúrusvæði og innleiða breytingar í atvinnugreinum sem byggja á náttúruauðlindum – einkum landbúnaði, fiskveiðum, skógrækt og ferðaþjónustu.

– Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika er mjög mikilvægur og nú þegar markmiðin verða endurskoðuð er brýnt að við setjum ný og metnaðarfull markmið og ekki síst að við vinnum markvissara en áður að því að ná þeim. Við ættum meðal annars að einblína á samlegðaráhrif milli líffræðilegs fjölbreytileika og annarra umhverfisáskorana, á borð við baráttuna gegn eyðimerkurmyndun og loftslagsbreytingum, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra Íslands. Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2019.

Bréf til SÞ

Á norrænum ráðherrafundi sem fram fór á Íslandi í þessari viku komu umhverfisráðherrar Norðurlanda sér saman um að senda sameiginlega bréf til Sameinuðu þjóðanna þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að sýna metnað og stórhug svo að ná megi þeim markmiðum sem taka við eftir árið 2020.

Umhverfisráðherrarnir ákváðu einnig að Norðurlönd skyldu skiptast á upplýsingum um góðan árangur af samræmingu á lögum, stefnum og stjórnsýsluháttum er varða markmið um loftslag og líffræðilegan fjölbreytileika og leggja sitt af mörkum á loftslagsráðstefnu SÞ þann 23. september 2019, sérstaklega er varðar þemað „nature-based solutions“.

Hlustum á raddir ungs fólks

Í haust lagði Norðurlandaráð til að röddum ungs fólks yrði gefið meira vægi í alþjóðlegum umræðum um líffræðilega fjölbreytni og þegar nýju markmiðunum verður fylgt eftir.

Umhverfisráðherrar Norðurlanda biðla til Norrænu ráðherranefndarinnar um að fylgja þessu eftir með aðgerðum sem tryggja að tekið verði tillit til sjónarmiða barna og ungmenna þegar sett verða ný markmið í samning SÞ um líffræðilega fjölbreytni.

– Unga fólkið mun erfa jörðina. Þau eiga því að sjálfsögðu að vera með í ráðum um hvernig við göngum um og varðveitum hana, segir Guðmundur Ingi, umhverfisráðherra.

Ráðstefna um friðun

Friðun náttúrusvæða og þjóðgarða eru meðal áhrifaríkustu leiða sem yfirvöld gefa farið til að vernda fjölbreytileika náttúrunnar. Friðun stuðlar líka að varðveislu landslags, stórra og ósnertra náttúrusvæða, jarðfræðilegrar fjölbreytni, menningarverðmæta og sögu. Friðun er þar að auki mikilvæg fyrir ferðamennsku, útivist og tengsl mannsins við náttúruna. Náttúruvernd er forgangsmálefni á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019.

– Við ætlum því að standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á seinni hluta ársins 2020, þar sem við munum kalla saman þær norrænu stofnanir sem eru ábyrgar fyrir friðuðum svæðum, segir Guðmundur.