Ungmenni knýi á um nýjan hnattrænan umhverfissamning

01.11.18 | Fréttir
Barbara Gaardlykke Apol vill mobilisera unga från hela världen för biologisk mångfald

Barbara Gaardlykke Apol, president i Ungdomens nordiska råd. 

Photographer
Anna Rosenberg
Dýrategundir deyja út, vistkerfum hnignar og jafnvægi milli lífvera er raskað. Nú vill Norðurlandaráð virkja ungmennahreyfingar á Norðurlöndum til að knýja á um að gengið verði frá næsta hnattræna umhverfissamningi.

Sú hnignun líffræðilegrar fjölbreytni sem steðjar að er hnattrænn umhverfisvandi sem ógnar lífsskilyrðum núlifandi og komandi kynslóða.
Ríki heimsins vinna sameiginlega að því innan ramma Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni að stemma stigu við þessari hnignun. En breytingarnar gerast of hægt innan þeirra atvinnugreina sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda, sem eru fyrst og fremst landbúnaður, fiskveiðar, skógrækt og ferðaþjónusta.


 

Vill virkja norrænar ungmennahreyfingar

Þau markmið sem stefnt er að fyrir árið 2020 munu ekki nást með þessu áframhaldi. Samkvæmt fjölmörgum alþjóðlegum skýrslum eru tegundir að glatast og jafnvægi og sjálfbærni náttúrunnar er raskað á miklum hraða.  

„Lönd heimsins verða að fara að sameinast um það fyrir alvöru að stöðva hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Nýr alþjóðlegur samingur mun skipta sköpum fyrir lífskjör ungs fólks og þau tækifæri sem þau koma til með að hafa,“ segir Christian Poll, talsmaður norrænu sjálfbærninefndarinnar sem stendur að tillögunni. 



„Þess vegna gengur þetta verkefni út á að virkja ungmennahreyfingar á Norðurlöndum og fara að byggja upp þekkingu, áhuga meðal almennings og þrýsting á stjórnvöld þegar kemur að líffræðilegri fjölbreytni,“ segir hann.

Eiga að ráðleggja SÞ

Norðurlandaráð og Norðurlandaráð æskunnar hafa ákveðið að efna til viðburðaraðar fyrir ungmenni á Norðurlöndum. Viðburðirnir eru hugsaðir sem „þekkingarbankar“, en einnig vettvangur til að móta framtíðarsýn um það hvernig nýr alþjóðlegur samningur um líffræðilega fjölbreytni ætti að vera.
Ætlunin er að viðburðirnir geti af sér ýmsar tillögur í tengslum við þær hnattrænu viðræðum sem stöðugt eru yfirstandandi í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna, og einnig tillögur sem beint væri að ESB og ríkisstjórnum Norðurlanda. 

Mikilvæg skilaboð til SÞ

„Augu heimsbyggðarinnar beinast að Norðurlöndum þegar græn umskipti eru til umfjöllunar. Þar hafa norrænu löndin verið í broddi fylkingar. Því fylgir mikil ábyrgð. Ég vona að við getum þróað hugmyndina að ungmennaviðburðunum áfram og virkjað ungmenni hvaðanæva að úr heiminum til þess að gerast málsvarar líffræðilegrar fjölbreytni. Það getur sent öflug og mikilvæg skilaboð til SÞ og alþjóðasamfélagsins,“ segir Barbara Gaardlykke Apol, nýkjörinn forseti Norðurlandaráðs æskunnar.