Ný skýrsla varpar kastljósi á venjur sem eru slæmar fyrir loftslagið

24.09.21 | Fréttir
Skål med jordbær på en rød og hvid dug
Ljósmyndari
Monika Grabkowska, Unsplash.com
Takið hvítt kjöt fram yfir rautt og ferðist með öðrum farartækjum en flugvélum. Þessi og fleiri tilmæli er að finna í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um einkaneyslu heimila á Norðurlöndum. Í skýrslunni er einkaneyslan í löndunum tekin út og gerðar átta tillögur um breytta neysluhegðun sem horfir til aukinnar sjálfbærni og bættra loftslagsáhrifa.

Neytendur geta átt erfitt með að velja sjálfbært og ekki síst að gera sér grein fyrir áhrifum eigin neyslu. Norræna ráðherranefndin hefur látið gera skýrslu um neysluvenjur út frá sjónarhóli sjálfbærni en í henni eru svið afmörkuð þar sem Norðurlandabúar geta bætt sig í loftslagsmálum og sjálfbærri þróun inni á heimilum sínum.

Í skýrslunni eru slæm loftslagsáhrif einkaheimila á Norðurlöndum rýnd út frá fjórum meginþáttum: Húsnæði, samgöngum, matvælum og neysluvörum. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Paula Lehtomäki, útskýrir tilgang skýrslunnar þannig:

Einkaneysla okkar stuðlar að losun gróðurhúsalofttegunda sem er oft ekki tekin með í þjóðhagsútreikningana. Eins og sakir standa er það aðeins Svíþjóð á Norðurlöndum sem gefur út losun á gróðurhúsalofttegundum af völdum neyslu í opinberum hagtölum sínum til viðbótar við svæðisbundnu losunina. Þess vegna er þessi skýrsla mikilvægt innlegg til þess að norrænt samstarf nái þeirri framtíðarsýn sinni að Norðurlönd verði sjálfbærasta svæði í heimi fyrir árið 2030.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

„Skýrslan bendir okkur á raunhæfar aðferðir til að draga úr loftslagsmengun. Þarna eru einnig svið sem við getum unnið með í norrænu samstarfi, allt frá grænni orku, notkun flugsamgangna og kjötneyslu í opinberum mötuneytum,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, með þunga.

Mengun norrænna heimila stafar mest frá samgöngum

Samgöngur eru sá hluti neyslu heimilanna á Norðurlöndum sem veldur mestri losun gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslunni er talið að eigna megi samgöngum um það bil 30 til 40 prósent af heildarlosun norrænna heimila. Í því sambandi er flugið fyrirferðarmest en það losar allra samgönguhátta mest gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Í skýrslunni benda sérfræðingarnir á að mestu möguleikarnir á að auka sjálfbærni í samgöngum felist í að draga úr stuttum flugferðum því að rannsóknir sýni að neytendur á Norðurlöndum kjósi gjarnan aðra valkosti en flug fyrir styttri ferðir ef þeir eru í boði.

Önnur leið að loftslagsvænni samgöngum sé að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir raforku. Skýrslan sýnir ekki mikinn mun á löndunum þegar horft er til fjölda rafknúinna einkabíla. Noregur er í fararbroddi að því er rafbíla varðar. Árið 2019 voru um tíu prósent norskra bifreiða knúnar rafmagni. Ísland kemur næst á eftir með fjögur prósent en í hinum löndunum ganga í mesta lagi eitt prósent bíla úti á vegum fyrir rafmagni. Samkvæmt sérfræðingunum má skýra þetta með því að Noregur hefur skapað efnahagslega hvata fyrir rafbílaeign sem neytendur hafa tekið opnum örmum.

Rautt kjöt algengt í eldhúsum á Norðurlöndum

Framleiðsla á rauðu kjöti eins og til dæmis nautakjöti hefur umfram aðra matvælaframleiðslu áhrif á loftslagið. Eftir því sem fram kemur í skýrslunni eiga Danir hið miður góða met í neyslu nautakjöts eða að meðaltali 24 kíló á mann á ári. Svíar fylgja fast á eftir með 23 kíló og Finnar með 19 kíló. Um 40 prósent norskra matvæla eru innflutt og um það bil helmingurinn af losun af völdum matvöru á sér stað í útlöndum.

Fræðimaðurinn og stjórnandi rannsóknarinnar, Annelise de Jong frá umhverfisstofnuninni sænsku IVL Svenska Miljöinstitutet, segir eftirfarandi um svokallað smitflæði og neikvæð áhrif, bæði umhverfis- og félagsleg, sem neyslan á Norðurlöndum hefur í öðrum löndum:

Þessi skýrsla sýnir vel hve mikil áhrif neysla á Norðurlöndum hefur á losun mengandi lofttegunda í öðrum löndum að ógleymdum umhverfis- og félagslegum áhrifum þannig að við erum til dæmis tilneydd að draga úr löngum flugferðum og neita okkur um ákveðin matvæli og munaðarvöru. Þetta snýst líka um að tryggja að samningar um samfélagsleg grundvallarmál séu virtir í þeim löndum sem framleiða neysluvörur fyrir okkur. Til að mynda kemur fatnaður að mestu frá öðrum löndum.

Annelise de Jong, IVL Svenska Miljöinstitutet

Átta tillögur sem stuðla að sjálfbærari neyslu

Í skýrslunni er ekki einungis neysla norrænna heimila rýnd heldur eru einnig gerðar tillögur í átta liðum sem eiga að auka sjálfbæra neyslu á Norðurlöndum:

  1. Takið hvítt kjöt fram yfir rautt
  2. Takið matvæli úr plöntum eða afurðum þeirra fram yfir kjöt
  3. Forðist matvælasóun
  4. Dragið úr flugi
  5. Notið almenningssamgöngur eða samgöngutæki eins og reiðhjól fremur en einkabíla
  6. Lengið endingartíma vöru
  7. Virðið mannréttindi í þeim löndum sem framleiðir vörurnar
  8. Dragið úr heildarneyslu á Norðurlöndum

Um skýrsluna:

Samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum eru norrænu löndin langt komin í samanburði við önnur lönd með að uppfylla sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þó eru nokkur markmið sem skera sig úr fyrir það að erfitt reynist að uppfylla þau, einnig á Norðurlöndum, einkum markmið 12 um sjálfbæra neyslu og framleiðslu.

Skýrsluna vann umhverfisstofnunin sænska IVL Svenska Miljöinstitutet fyrir Norrænu ráðherranefndina Í skýrslunni er einkaneysla heimila í norrænu löndunum rýnd út frá fjórum meginþáttum: Húsnæði, samgöngum, matvælum og neysluvörum.