Eyðilegging menningarverðmæta í Írak og Sýrlandi – norrænt átaksverkefni um að stöðva ólöglega verslun með menningarminjar

12.05.15 | Yfirlýsing
Yfirlýsing frá norrænu menntamálaráðherrunum, 12. maí 2015

Upplýsingar

Samþykkt
12.05.2015
Staðsetning
Tórshavn, Færøyene

Það er grafalvarlegt að menningarleg og söguleg verðmæti í Írak og Sýrlandi séu tekin ófrjálsri hendi og smyglað úr landi. Við brýnum fyrir norrænu fræðaumhverfi, listaverkasöfnurum, listaverkasölum, fornsölum og starfsfólki safna að vera á verði. Við vísum í því sambandi til ákvæða í löggjöf Norðurlandanna sem varða ólöglegan innflutning á og viðskipti með fornmuni og menningarverðmæti sem kunna að vera upprunnin á þessum svæðum.

Við erum slegin óhug vegna þeirrar hrottafengnu eyðileggingar á mörg þúsund ára gömlum dýrgripum sem átt hefur sér stað í Írak og Sýrlandi að undanförnu. Sumir hinna fornu reita, sem nú sæta kerfisbundinni eyðileggingu, eru á skrá UNESCO yfir mikilvægustu heimsminjastaði veraldar. Ástandið er hörmulegt fyrir heimamenn en ekki síður fyrir mannkynið í heild.

Sögulegir minnisvarðar og stærri munir eru lagðir í rúst, en smærri munir eru seldir á svörtum markaði til að fjármagna starfsemi ýmissa öfgahópa. Munir sem hafa einstaka sögulega þýðingu hverfa af lista- og bókasöfnum og svæðum þar sem fornleifauppgröftur fer fram. Síðan er þeim smyglað úr landi til Evrópu og annarra heimshluta þar sem þeir eru seldir.

12. febrúar síðastliðinn samþykkti Öryggisráð SÞ ályktun sem skuldbindur aðildarlöndin til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að öfgahópar í Írak og Sýrlandi nái með þessum hætti að fjármagna voðaverk sem beint er gegn almenningi á þessum slóðum sem og alþjóðasamfélaginu.

Öryggisráð SÞ hvetur ríki og stofnanir um allan heim til að bregðast sameiginlega við þessum villimannlegu aðförum.

1. apríl síðastliðinn fór alþjóðlegur leiðtogafundur fram í UNESCO um innleiðingu ályktunar Öryggisráðsins nr. 2199 um verndun menningarverðmæta frá Írak og Sýrlandi. Á fundinum var meðal annars rætt um hvernig aðilar skipta með sér verkum, hver reynslan er af ályktun Öryggisráðsins nr. 1483 frá árinu 2003 um bann við verslun með menningarverðmæti frá Írak og hvernig megi hagræða því starfi.

Þá hefur UNESCO hrint af stað herferð til að kalla fólk til leiks: #Unite4Heritage. Við, menningarráðherrar Norðurlanda, styðjum þessa herferð.

Auk átaks UNESCO og annarra alþjóðlegra stofnana er þörf á markvissum aðgerðum í löndunum til að stemma stigu við ólöglegri verslun með menningarverðmæti.

 

Norrænt átaksverkefni

Í öllum löndum, sem eiga aðild að sáttmála UNESCO frá 1970, gildir almennt bann við innflutningi á og verslun með menningarverðmæti sem borist hafa frá öðrum löndum með ólögmætum hætti. Í fámennari löndum, eins og hinum norrænu, geta aðgerðir orðið árangursríkari ef aðilar á ólíkum stigum og frá mismunandi löndum efna til svæðisbundins samstarfs.

Við leggjum til að haustið 2015 verði efnt til norrænnar ráðstefnu sérfræðinga í því augnamiði að kanna forsendur fyrir norrænum vettvangi til frekari aðgerða á þessu sviði. Markmiðið með slíkri ráðstefnu væri að auka fræðslu þeirra aðila sem málið varðar og ræða möguleika á dýpkuðu norrænu samstarfi og aðgerðum þar sem sameinaðir kraftar myndu nýtast best. Markhópur ráðstefnunnar yrði fyrst og fremst fulltrúar toll- og löggæslu og safna og ennfremur fornminjasalar, uppboðshaldarar og aðrir sem málið varðar.

Eigi þær mótvægisaðgerðir, sem gripið hefur verið til í löndunum, að hafa tilætluð áhrif er afar brýnt að sérfræðingar og almenningur alls staðar á Norðurlöndum styðji aðgerðir til að stemma stigu við ólöglegri verslun.

Því hvetjum við alla sem málið varðar, bæði hugsanlega kaupendur og viðeigandi yfirvöld, til að sýna sérstaka aðgát, sérstaklega þegar um er að ræða muni sem kunna að vera upprunnir í Írak eða Sýrlandi.

Almenningur er hvattur til að vera á verði við kaup á menningarminjum, hvort sem það er á netinu, á uppboðum eða á ferðalögum erlendis. Leiki grunur á um að munur hafi verið fluttur inn með ólögmætum hætti ber að hafa samband við lögregluyfirvöld á staðnum.

Allir sem kaupa menningarminjar, hvort sem er til einkaeignar eða í atvinnuskyni – einnig þegar verslað er á netinu – eru hvattir til að kynna sér þær skuldbindingar sem kveðið er á um í eftirfarandi reglugerðum og viðskiptareglum: