Listir og menning til eflingar sjálfbærri þróun

09.11.21 | Yfirlýsing
Norrænu menningarmálaráðherrarnir samþykktu eftirfarandi yfirlýsingu á fundi sínum í Kaupmannahöfn þann 3. nóvember 2021.

Upplýsingar

Staðsetning
Köpenhamn

Við, norrænu menningarmálaráðherrarnir,

lítum svo á að listir og menning búi yfir ómissandi innra gildi og að þess vegna eigi að efla forsendur fyrir lista- og menningarstarfi og hafa það aðgengilegt öllum í samfélögum okkar. Jafnframt sjáum við að í menningarsamstarfinu búa miklir möguleikar til að styðja við sjálfbæra samfélagsþróun. Samstarfið býður upp á lausnir til að tryggja núlifandi og komandi kynslóðum góð lífsskilyrði. Listir og menning hjálpa okkur líka að takast á við ýmiss konar hnattrænar áskoranir, svo sem loftslagsvandann og heimsfaraldur COVID-19.

Við leggjum áherslu á mikilvægi vistvæns menningar- og listalífs, bæði nú og til framtíðar. Borgaraleg samfélög í norrænu löndunum, og einkum börn og ungmenni, eiga virkan þátt í frumkvöðla- og framkvæmdastarfi innan norræna menningargeirans í hinum grænu umskiptum.

Við, norrænu menningarmálaráðherrarnir, höfum í hyggju að:

  • Efla lifandi og inngildandi lista- og menningarlíf sem opið er öllum og sem styður við gæði, nýsköpun og listrænt og menningarlegt frelsi og tjáningarfrelsi.
  • Efla nýsköpun, hugmyndir og nýja þekkingu á sviði menningar-, lista- og fjölmiðlatengdra verkefna sem eru sjálfbær með tilliti til umhverfisins.
  • Efla þá jákvæðu þróun sem skapandi greinar hafa ýtt undir á sviði grænnar framleiðslu og neyslu.
  • Efla sjálfbæra nýtingu og verndun á menningararfinum í samræmi við alþjóðlega sáttmála.
  • Nýta stafvæðingu, menntun og tungumálasamstarf til að styrkja enn frekar tengsl norrænu landanna á lista- og menningarsviði og til að efla alþjóðlegt samstarf.
  • Efla jákvæða þróun í alþjóðlegu samstarfi á sviði umhverfis- og loftslagsmála, meðal annars með því að vekja athygli á sjálfbærum norrænum lausnum og stuðla að virku samtali auk þess að skiptast á upplýsingum og reynslu við önnur lönd heimsins, svo sem með norræna menningarverkefninu Nordic Bridges í Kanada 2022.

Við leggjum áherslu á að allar norrænu menningarstofnanirnar fimm (Norræna húsið í Reykjavík, Norðurlandahúsið í Færeyjum, Norræna stofnunin á Grænlandi, Norræna stofnunin á Álandseyjum og Norræna menningargáttin) hafa mikilvægt stefnumótandi umboð í menningarmálum. Á meðal verkefna þeirra er að auka þekkingu og skilning á því að listir og menning eru mikilvægar forsendur sjálfbærrar þróunar. Í starfinu felst meðal annars að sýna gott fordæmi, miðla góðum dæmum og hvetja til grænnar menningarframleiðslu, -miðlunar og -neyslu.

Við tökum tillit til sérstakrar hæfni frumbyggja til að leysa viðfangsefni tengd sjálfbærri þróun með sérstakri þekkingu sem gengið hefur kynslóða á milli gegnum aldirnar.

Við styðjum þá framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 og hyggjumst hrinda í framkvæmd samstarfsáætluninni um menningarmál sem við samþykktum fyrir tímabilið 2021–2024. Í áætluninni er megináhersla lögð á menningu sem gegnumgangandi og frjálsa burðarstoð sjálfbærrar þróunar í samfélögum okkar, einkum hvað varðar viðleitni til að gera Norðurlönd græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær. Við teljum mikilvægt að í Framtíðarsýninni 2030 felist góðir möguleikar fyrir þverfaglegt samstarf milli fagsviða í lista-og menningargeiranum.

Við tökum virkan þátt í því starfi sem fram fer til að efla sjálfbæra þróun á alþjóðlegum vettvangi. Við fögnum meðal annars MONDIACULT 2022, heimsráðstefnu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um menningarmál og sjálfbæra þróun, sem haldin verður í Mexíkó.

Lilja Alfreðsdóttir

mennta- og menningarmálaráðherra

 

Ane Halsboe-Jørgensen

menningar- og kirkjumálaráðherra

 

Annika Hambrudd

mennta- og menningarmálaráðherra

 

Antti Kurvinen

mennta- og menningarmálaráðherra

 

Amanda Lind

menningar- og lýðræðisráðherra

 

Peter P. Olsen

mennta-, menningar-, íþrótta- og kirkjumálaráðherra

 

Jenis av Rana

utanríkis- og menningarmálaráðherra

 

Anette Trettebergstuen

menningar- og jafnréttisráðherra