Sameiginleg yfirlýsing norrænu menningarmálaráðherranna um #églíka í menningargeiranum

09.05.18 | Yfirlýsing
Sameiginleg yfirlýsing norrænu menningarmálaráðherranna á fundi hinn 9. maí 2018 innan ramma norræna leiðtogafundarins um menningarmál í Malmö 8.–9. maí 2018

Upplýsingar

Adopted
09.05.2018
Location
Malmö, Sverige

#églíka-bylgjan hristi upp í þjóðum Norðurlanda og afhjúpaði rækilega afleiðingar ríkjandi skipulags, ófullnægjandi forystu og vanþekkingar á mörgum sviðum samfélagsins. Ýmiss konar áköll komu fram í löndum okkar og hafa spjótin oft beinst að menningargeiranum.

Norræna upplýsingaveitan um kynjafræði, NIKK, hefur kortlagt lagaumhverfi kynferðislegrar áreitni og vernd í atvinnulífi á Norðurlöndum. Málið er í raun mjög einfalt – kynferðisleg áreitni er ólögleg. Hvarvetna á Norðurlöndum hvílir sú skylda á vinnuveitendum að koma í veg fyrir og bregðast við kynferðislegri áreitni og löggjöf norrænu landanna gegn kynferðislegri áreitni er skýr í samanburði við löggjöf landa í öðrum heimshlutum. Fer þó ekki á milli mála að eftirfylgni við lögin hefur víða verið ábótavant á vinnumarkaðinum. Halda verður umræðunni vakandi um hvernig geti staðið á því að kynferðisleg áreitni, ofbeldi og einelti viðgangist árið 2018 og hvaða aðgerða er þörf til að fá þessu breytt.

Við, norrænu menningarmálaráðherrarnir, erum ákveðnir í að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hér verði breyting á. Við getum dregið lærdóm hvert af öðru. Þess vegna verður umræðan áfram að vera í brennidepli innan hvers lands, á vettvangi Norðurlanda og alþjóðasamfélagsins og hún er jafnmikilvæg á öllum sviðum starfs okkar – í menningu, fjölmiðlum og íþróttum.

Hér er um að ræða vernd gegn mismunun en einnig jafnréttismál í víðu samhengi. Jafnrétti er ein af forsendunum fyrir þeirri velgengni sem norræna líkanið nýtur og er sjálfgefið að við í Norrænu ráðherranefndinni um menningarmál tökum mið af jafnréttissjónarmiðum í öllu okkar starfi. Jafnframt er ljóst að frekari aðgerða er þörf í norrænu samstarfi. Við felum því skrifstofu ráðherranefndarinnar að undirbúa áframhaldandi umræðu um vernd gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi ásamt öryggi á vinnustöðum innan okkar verksviðs.

Jafnvel þótt kastljósinu verði beint annað hvikum við ekki frá því að láta okkur þessi mál varða.