Á Norðurlöndum á enginn að þurfa að líða fyrir heiðurstengt ofbeldi

– Meðal þess sem einna helst ógnar einstaklingsfrelsi á Norðurlöndum er sá vandi að fólki er stundum meinað að taka sjálft ákvarðanir um líf sitt og framtíð. Aðrir taka þá þær ákvarðanir á þeim forsendum að heiður þeirra sé í veði. Velferðarnefndin vill takast á við þetta, segir einn nefndarmanna, Maria Stockhaus. Þetta er jafnframt tilefni þess að flokkahópur miðjumanna lagði tillögu sína fram og að velferðarnefndin sendir ríkisstjórnum Norðurlanda nú tilmæli þess efnis að þær hafi með sér samstarf um að fyrirbyggja og kveða niður heiðurstengda kúgun.
Brotið á réttindum einstaklingsins
Heiðursmenning er hugtak sem notað er til að breiða yfir menningarlegt atferli sem þrengir að frelsi og réttindum einstaklingsins, til að mynda réttinum til menntunar, til að eignast vini, leggja stund á áhugamál, velja sér lífsförunaut og haga lífi sínu í samræmi við eigin kynhneigð. Í slíkum menningarhópum eru þau sem ekki standast „kröfurnar“ beitt heiðurstengdri kúgun. Sú kúgun getur komið fram í líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Norðurlandabúar þurfa að fræðast hver af öðrum um aðferðir sem skila árangri
Í tilmælum velferðarnefndar Norðurlandaráðs er því beint til ríkisstjórna Norðurlanda að þær starfi saman að rannsóknum á þessu sviði og leitist við að miðla þekkingu um barnahjónabönd, þvinguð hjónabönd og umskurð kvenna, svo dæmi séu tekin, og um það sem gert hefur verið til að vinna gegn slíku, auk þess að kanna aðstæður LGBT+-fólks í þjóðfélagshópum sem einkennast af heiðursmenningu. Vitneskjunni sem þannig safnast er ætlað að gera stjórnvöld enn betur í stakk búin að beita árangursríkum aðferðum.
Meðal þess sem einna helst ógnar einstaklingsfrelsi á Norðurlöndum er sá vandi að fólki er stundum meinað að taka sjálft ákvarðanir um líf sitt og framtíð. Aðrir taka þá þær ákvarðanir á þeim forsendum að heiður þeirra sé í veði. Velferðarnefndin vill takast á við þetta.
Varðar einnig baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna
Miklu skiptir að stjórnvöld hefji snemma að beita árangursríkum fyrirbyggjandi aðgerðum og að besta hjálp sem hugsast getur sé tiltæk þegar á þarf að halda, segir formaður nefndarinnar, Bente Stein Mathiesen. Hún bendir á að tillagan varði einnig jafnrétti kynjanna sem velferðarnefndin leggur mikla áherslu á og er mikilvægur þáttur í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030. Þar er nánar tiltekið átt við markmið 5: Jafnrétti kynjanna.