Þegar mamma og pabbi ráða - neikvætt félagslegt taumhald

19.11.19 | Fréttir
Integration
Ljósmyndari
Unsplash
Frelsi barna og ungmenna til þess að velja sér sjálf vini, menntun og starf er skert ef þau verða fyrir félagslegu taumhaldi. Þess vegna á að koma í veg fyrir það og stöðva. Þetta er boðskapur ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu.

„Tækifæri einstaklinga til þess að lifa frjálsu og sjálfstæðu lífi eru takmörkuð ef þeir verða fyrir neikvæðu félagslegu taumhaldi og heiðurstengdu ofbeldi,“ sagði Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í opnunarræðu sinni á tveggja daga ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu. Ýmsar ástæður liggja að baki því að neikvætt félagslegt taumhald sé norrænt forgangsmálefni. Það takmarkar frelsi einstaklingsins og vinnur gegn almennri samþættingu í samfélaginu.    

Hugtakið neikvætt félagslegt taumhald

Hugtakið neikvætt félagslegt taumhald tekur til skipulagðrar tilraunar til þess að fara til dæmis eftir fjölskyldunormum sem draga úr frelsi einstaklingsins og réttindum í samræmi við lög og Barnasáttmálann, til dæmis þegar tekin eru frá ungu fólki réttindin til að taka ákvörðun um þátttöku á vinnumarkaði, fá kennslu, eiga vini, stunda tómstundastarf, velja maka sjálf/ur og lifa í samræmi við kynverund sína. Þetta eru réttindi sem liggja til grundvallar á Norðurlöndum. Neikvætt félagslegt taumhald getur leitt til heiðurstengds ofbeldis, andlegs og líkamlegs.   

Tækifæri einstaklinga til þess að lifa frjálsu og sjálfstæðu lífi eru takmörkuð ef þeir verða fyrir neikvæðu félagslegu taumhaldi og heiðurstengdu ofbeldi.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Foreldrar geta beitt neikvæðu félagslegu taumhaldi

Neikvætt félagslegt taumhald á sér stað í mismunandi samhengi og er beitt af mismunandi aðilum. Á ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu var lögð fram skýrslan Migrasjon, foreldreskap og sosial kontroll (Fólksflutningar, foreldrahlutverk og félagslegt taumhald). Meðhöfundur skýrslunnar, Jon Horgen Friberg frá rannsóknarstofnuninni FAFO í Noregi, benti í þessu sambandi á að dæmigerð ástæða þessa væri að foreldrar í hópi innflytjenda tækju hefðir með ströngum foreldrahömlum með sér til Noregs frá fyrra heimalandi sínu, hömlur sem stjórnvöld hér skilgreina sem neikvætt félagslegt taumhald.   

Koma í veg fyrir og takmarka

Til þess að koma í veg fyrir og takmarka neikvætt félagslegt taumhald í Noregi greinir Zainab Mushtaq frá Integrations- og Mangfoldighedsdirektoratet frá því að efnt sé til aðgerða á ýmsum sviðum. Rauði þráðurinn í aðgerðunum er greinileg áhersla á réttindi barna og opin samskipti milli ungs fólks, foreldra og stjórnvalda. Þessi vandamál eru einnig þekkt í Svíþjóð. Dilek Baladiz frá Origo í Stokkhólmi segir frá því að þeirra áhersla beinist að því að mennta fullorðið fagfólk til þess að búa það undir umræðufundi með ungu fólki um neikvætt félagslegt taumhald. Markmiðið er að opna augu unga fólksins gagnvart vandamálunum og gera það út með verkfæri til þess að takast á við þau. Catrine Bangum, ráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni, leggur áherslu á að miðlun þess háttar dæma um þekkingu á stefnumótandi nálgun og tilteknar aðgerðir skipti miklu fyrir norrænt samstarf.  

Félagslega sjálfbær Norðurlönd 

Ráðstefnan um samþættingu er liður í samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu flóttafólks og innflytjenda. Markmiðið með ráðstefnunni var að deila þekkingu og dæmum um góða starfshætti sem stuðla að því að skapa félagslega sjálfbær og samkeppnishæf Norðurlönd til gagns fyrir 27 milljónir íbúa.