Tryggja þarf aðgengi að bóluefni betur á krísutímum

30.06.21 | Fréttir
Vaccine
Photographer
Ricky John Molloy
Kórónuveirufaraldurinn undanfarið ár hefur leitt í ljós að þörf er á að Norðurlönd þrói og samræmi bólusetningu svo Norðurlandabúar þurfi ekki að stóla á óáreiðanlegar og ófullnægjandi sendingar langt að. Það eru norræn vinstri græn sem leggja tillöguna fram og norræna velferðarnefndin er jákvæð fyrir því að fara lengra með hana.

„Við verðum að tryggja Norðurlönd enn betur gagnvart faröldrum og öðrum heilbrigðiskrísum í framtíðinni. Framleiðsla bóluefnis heima fyrir myndi stuðla að því,“ segir Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar. Norræn vinstri græn, sem leggja tillöguna fram, viðurkenna að lyfjaframleiðendur hafi verið fljótir að þróa ný bóluefni gegn COVID-19. Menn hafa þó áhyggjur af afhendingum til norrænna yfirvalda, einnig í hugsanlegum nýjum faraldri.

Grípa þarf til aðgerða á friðartímum

Norræna velferðarnefndin styður tillöguna um að ríkisstjórnir Norðurlanda skoði möguleika á að tryggja fjármagn til rannsókna á bóluefni. Norðurlönd eru nú þegar framarlega í bóluefnarannsóknum. Í Finnlandi er verið að þróa tvær tegundir bóluefna við COVID-19 sem gefa góð fyrirheit og eru á prófunarstigi. Sérfræðikunnáttan er því fyrir hendi en þörf er á samræmdu norrænu átaki með tilheyrandi fjárveitingu í stórum stíl að sögn norrænna vinstri grænna. Þetta þarf að koma til framkvæmda á svokölluðum „friðartímum“, þegar Norðurlönd og heimurinn allur er ekki aðþrengdur vegna faraldurs.

 

Við verðum að tryggja Norðurlönd enn betur gagnvart faröldrum og öðrum heilbrigðiskrísum í framtíðinni. Framleiðsla bóluefnis heima fyrir myndi stuðla að því.

Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar

Norræn framleiðsla á nýjum sýklalyfjum 

Hugmyndin um norrænt samstarf við lyfjaframleiðslu er alls ekki ný af nálinni hjá norrænu velferðarnefndinni. Nefndin hefur um árabil þrýst á norrænu ríkisstjórnirnar um að grípa til aðgerða við framleiðslu á nýjum sýklalyfjum.

„Ef bakteríur sem eru ónæmar fyrir þeim sýklalyfjum sem við eigum í dag skyldu herja á heimsbyggðina alla stæðum við frammi fyrir ógnvænlegri heilbrigðiskrísu,“ segir formaðurinn Bente Stein Mathisen. Hún ásamt nefndinni er því jákvæð gagnvart auknu norrænu samstarfi sem og samstarfi á milli yfirvalda og iðnaðarins í tengslum við bóluefni og önnur lyf.