Atvinnuleit á Álandseyjum

Söka jobb på Åland
Á þessari síðu er að finna upplýsingar um atvinnuleit á Álandseyjum ef þú býrð þar og ef þú býrð í öðru landi. Einnig eru gefnar upplýsingar um hvaða reglur gilda ef þú ert á atvinnuleysisbótum þegar þú leitar þér að atvinnu á Álandseyjum.

Þú getur leitað þér að atvinnu á Álandseyjum áður en þú kemur til landsins eða eftir komuna til eyjanna. Þú getur einnig komið til Álandseyja í atvinnuleit og fengið atvinnuleysisbætur en þá þarftu að hafa skráð þig sem atvinnulausa(n) nokkru áður í þínu heimalandi.

Atvinnuleit á Álandseyjum

Þú tilkynnir um að þú sért í atvinnuleit á miðstöð vinnumarkaðar og námsaðstoðar á Álandseyjum (AMS). Fyrst þarftu að kynna þér vefsíðu miðstöðvarinnar. Þar finnur þú nýjustu upplýsingar um laus störf sem hafa verið tilkynnt til AMS. Miðstöðin veitir ráðgjöf um atvinnu og menntun, atvinnuleysisbætur, fjárhagsaðstoð fyrir námsmenn og þá þjónustu sem boðið er upp á. Einnig er hægt að panta ókeypis fréttabréf Ålandliving, sem sent er vikulega með tölvupósti, en það inniheldur nýjustu auglýsingar um laus störf á Álandseyjum.

Atvinnuleit í sjávarútvegi

Hafðu samband við AMS ef þú hefur áhuga á að sækja um starf í sjávarútvegi á Álandseyjum. Kynntu þér einnig vefsíðu sjávarútvegssamtaka Álandseyja.

Nordjobb

Norrænir ríkisborgarar og ríkisborgarar ESB-landa sem búsettir eru á Norðurlöndum og eru á aldrinum 18–30 ára geta sótt um vinnu í öðru landi í gegnum Nordjobb. Nordjobb er vinnumiðlun fyrir sumarstörf sem útvegar einnig húsnæði og stendur fyrir frístundadagskrá. Upplýsingar og umsóknir eru á vefsíðu Nordjobb.

Störf erlendra ríkisborgara í Finnlandi

Nánari upplýsingar fást á síðu vinnumála- og atvinnulífsráðuneytis Finnlands með ábendingar fyrir fólk í atvinnuleit og á síðu AMS á Álandseyjum um sama efni.

Atvinnuleit úr öðru landi

EURES (European Employment Services) er atvinnumiðlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem Ísland og Noregur taka þátt í til viðbótar við löndin í Evrópusambandinu. Á vefsvæði EURES má meðal annars finna auglýsingar um laus störf frá vinnumiðlunum landanna sem taka þátt. Á vefsvæðinu má einnig finna samskiptaupplýsingar EURES-ráðgjafa í löndunum. EURES-ráðgjafi hjá AMS á Álandseyjum getur svarað spurningum þínum um atvinnu á Álandseyjum.

Einnig er hægt að notfæra sér einkareknar vinnumiðlanir. Með þeim er einfalt að sækja um starf án þess að vera í landinu. Oft er þó nauðsynlegt að kunna finnsku til að geta nýtt sér vefþjónustur þessara fyrirtækja. Sumir finnskir atvinnurekendur birta auglýsingar á sænsku og ensku. Einnig er hægt að sækja um störf sem eru auglýst á vefsíðu miðstöðvar vinnumála- og atvinnulífs. Fyrirtæki birta starfsauglýsingar og sænsku og ensku ef viðkomandi starf krefst kunnáttu í þessum tungumálum.

Ertu atvinnulaus og á leið til Álandseyja í atvinnuleit?

Ef þú ert atvinnulaus og í atvinnuleit getur þú að uppfylltum vissum skilyrðum fengið atvinnuleysisbætur frá Finnlandi þegar þú leitar þér að vinnu í landi innan ESB eða EES (að Grænlandi undanskildu). Samkvæmt samkomulaginu heldur þú rétti þínum til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði þegar þú leitar þér að vinnu í landi innan ESB eða EES að því gefnu að þú uppfyllir skilyrði um starfstímabil og eigir rétt á atvinnuleysisbótum (athugaðu að þetta gildir ekki um finnska vinnumarkaðsaðstoð).

Áður en þú leggur af stað þarftu að fá vottorð um staðfestingu á rétti til atvinnuleysisbóta frá yfirvöldum eða atvinnuleysistryggingasjóði í þínu landi (eyðublað U2 ef þú flytur frá landi innan ESB og E303 ef þú flytur frá Íslandi eða Noregi). Þú þarft að tilkynna þig hjá AMS innan sjö daga frá komu til Álandseyja.

Ef þú finnur þér ekki vinnu á Álandseyjum innan þriggja mánaða frá brottfarardegi og vilt ekki missa rétt þinn til atvinnuleysisbóta þarftu að snúa aftur til heimalandsins.

Ef þú færð vinnu þarftu að segja þig úr atvinnuleysistryggingasjóði í því landi sem þú starfaðir áður í og byrja að greiða í atvinnuleysistryggingasjóð í nýja landinu. Á Álandseyjum er launþegum og atvinnulausum frjálst að greiða í atvinnuleysistryggingasjóð, sem gefur rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar nauðsynlegu starfstímabili hefur verið náð. Mikilvægt er að segja sig ekki úr fyrri atvinnuleysistryggingasjóðnum fyrr en aðild í þeim nýja hefur tekið gildi.

Þú þarft alltaf að biðja fyrri atvinnuleysistryggingasjóðinn um eyðublað E301 (staðfestingu á trygginga- og ráðningartímabilum). Ef þú starfar á Álandseyjum og verður atvinnulaus áður en þú hefur náð að vinna nógu lengi til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum getur þú að uppfylltum vissum skilyrðum notað staðfestinguna til að nýta tryggingar- og ráðningartímabil úr öðrum löndum innan ESB/EES.

Hafðu samband við vinnumiðlun eða atvinnuleysistryggingasjóð í þínu landi til að fá nánari upplýsingar. Á Álandseyjum fást nánari upplýsingar á vefsíðu miðstöðvar vinnumarkaðar og námsaðstoðar.

Hafðu samband við yfirvöld

Ef þú hefur spurningar um atvinnuleit á Álandseyjum skaltu hafa samband við AMS á Álandseyjum.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna