Sænskur ríkisborgararéttur
Ef þú færð sænskan ríkisborgararétt öðlast þú öll þau réttindi sem aðrir sænskir ríkisborgarar njóta.
Ríki geta í vissum tilfellum veitt ríkisborgurum sínum réttindi sem ríkisborgarar annarra landa njóta ekki án þess að það teljist vera mismunun. Til dæmis er leyfilegt að aðeins ríkisborgarar hafi kosningarétt í þingkosningum.
Síðustu ár hefur einnig sést að í sérstökum aðstæðum hafa ríki neitað öðrum en ríkisborgurum sínum inngöngu í landið.
Hægt er að gerast sænskur ríkisborgari með mismunandi leiðum, til dæmis fæðingum ættleiðingu, yfirlýsingu, umsókn eða endurupptöku ríkisfangs.
Hér að neðan eru gefnar upplýsingar um þær kröfur sem þarf að uppfylla og hvað þarf að gera til að fá sænskan ríkisborgararétt í mismunandi aðstæðum.
Sænskur ríkisborgararéttur við fæðingu
Ríkisfang foreldra ræður því hvaða ríkisfang barn færð við fæðingu í Svíþjóð, og það sama á við annars staðar á Norðurlöndum.
Börn sem eiga sænskt foreldri og fæðast eftir 1. apríl 2015 geta sjálfkrafa fengið sænskan ríkisborgararétt óháð því hvar í heiminum þau fæðast.
Börn sem fædd eru fyrr en 1. apríl 2015 í öðru landi en Svíþjóð og eiga sænskan föður og erlenda móður sem ekki eru gift verða ekki sjálfkrafa sænskir ríkisborgarar. Til þess að barnið verði sænskur ríkisborgari þarf faðir þess að skila inn yfirlýsingu um sænskan ríkisborgararétt fyrir barnið.
Barnið getur einnig orðið sænskur ríkisborgari með skilríkjum, það er ef foreldrarnir ganga í hjónaband síðar og barnið er yngra en 18 ára og ógift.
Sænskur ríkisborgararéttur við ættleiðingu
Ef þú ert sænskur ríkisborgari og ættleiðir barn sem er yngra en 12 ára verður barnið sjálfkrafa sænskur ríkisbornari við ættleiðinguna ef barnið er ættleitt með úrskurði í Svíþjóð eða öðru norrænu landi, ef það er ættleitt með erlendri ættleiðingarákvörðun sem er viðurkennd af sænskum yfirvöldum um fjölskyldurétt og stuðning við foreldra (Myndigheten för familjerätt och föräldraskapsstöd) eða ef ættleiðingin er gild í Svíþjóð samkvæmt lögum.
Barn sem hefur náð 12 ára aldri við ættleiðingu getur orðið sænskur ríkisborgari með umsókn.
Skráning sænsks ríkisfangs við fæðingu barns í öðru landi
Ef þú ert sænskur ríkisborgari með fasta búsetu í öðru landi og barnið þitt fæðist í því landi á ekki að skrá barnið í þjóðskrá í Svíþjóð við fæðingu. Það þýðir að barnið fær ekki sænska kennitölu.
Þess í stað er hægt að skrá barnið með eigin- og kenninafni þess með því að senda nafnumsókn fyrir börn sem fædd eru erlendis með eyðublaði SKV 7750 til Skatteverket. Eyðublaðið og aðrar gagnlegar upplýsingar fyrir foreldra er að finna á vefsíðu Skatteverket.
Skráning barns sem fæðist í Svíþjóð sem ríkisborgara annars lands
Ef þú eða foreldi barnsins þíns er ríkisborgari annars norræns lands og býr í Svíþjóð skaltu hafa samband við sendiráð viðkomandi lands í Svíþjóð til að skrá barnið sem ríkisborgara þess lands.
Sendiráðið getur veitt þér nánari upplýsingar um hvernig barnið er skráð sem ríkisborgari og gefið út vegabréf fyrir barnið ef við á.
Þú þarft að framvísa fæðingarvottorði og hjónavígsluvottorði eða öðrum gögnum sem staðfesta hverjir foreldrar barnsins eru ef þeir eru ekki giftir.
Sænskur ríkisborgararéttur fyrir norræna ríkisborgara
Ef þú ert ríkisborgari norræns lands geturðu orðið sænskur ríkisborgari með yfirlýsingu („anmälan“), með því að sækja um ríkisborgararétt („ansökan“) eða með endurupptöku ríkisfangs.
Uppfylla þarf tilteknar kröfur til að verða sænskur ríkisborgari.
Ef um er að ræða yfirlýsingu um sænskt ríkisfang:
- þarftu að vera orðin/n 18 ára þegar þú tilkynnir lénsstjórninni um að þú óskir eftir því að verða sænskur ríkisborgari.
- þarftu að hafa búið í Svíþjóð minnst síðustu fimm ár frá þeim degi þegar þú tilkynntir lénsstjórn um ósk þína um að verða sænskur ríkisborgari.
- máttu ekki hafa verið dæmd/ur til fangelsisvistar eða annars álíka síðustu fimm ár (undantekningar gilda fyrir einstaklinga sem eru orðnir 18 ára en eru yngri en 20 ára).
Lénsyfirvöld taka til meðferðar yfirlýsingar um að taka upp sænskt ríkisfang, svo þú skalt senda yfirlýsinguna og sænskt vottorð sem má ekki vera eldra en tveggja mánaða gamalt fyrir þig og börnin þín, ef þú átt börn, til lénsyfirvalda svæðisins sem þú býrð á.
Þú getur pantað vottorðið hjá Skatteverket eða hlaðið því niður á vefsíðu Skatteverket. Vottorðið er vegna umsóknar um sænskt ríkisfang og heitir „ansökan om svenskt medborgarskap“.
Auk þess þurfa allir 18 ára og eldri að greiða gjald fyrir innsendingu slíkrar yfirlýsingar. Gjaldið er einnig greitt til lénsyfirvalda viðkomandi svæðis. Lénsyfirvöld þíns svæðis geta sagt þér hvernig þú greiðir gjaldið. Þegar greiðslan hefur verið skráð hefst meðferð umsóknarinnar.
Ekki þarf að greiða fyrir börn yngri en 18 ára sem eru hluti af yfirlýsingu foreldris/forráðamanns.
Ekki senda vegabréfið þitt til lénsyfirvalda.
Ef þú uppfyllir skilyrðin verður þú sænskur ríkisborgari. Lénsstjórnin sendir staðfestingu á sænskum ríkisborgararétti heim til þín og afrit af staðfestingunni til Skatteverket.
Sem norrænn ríkisborgari getur þú sótt um sænskan ríkisborgararétt. Þú sendir umsóknina til sænsku útlendingastofnunarinnar, Migrationsverket, sem tekur umsóknina til meðferðar.
Þegar þú sækir um að verða sænskur ríkisborgari:
- þarftu að geta sýnt fram á hvert þú ert.
- þarftu að vera orðið/n 18 ára.
- þarftu að hafa búið í Svíþjóð í minnst tvö ár.
- þarftu að hafa hagað þér vel í Svíþjóð.
Ef þú ert foreldri eða forráðamaður barns getur þú sent lénsyfirvöldum yfirlýsingu um að barnið hyggist taka upp sænskt ríkisfang.
Ef báðir foreldra/forráðamanna barns senda inn yfirlýsingu um að taka upp sænskt ríkisfang hjá lénsyfirvöldum eða senda umsókn um sænskan ríkisborgararétt til Migrationsverket verða ógift börn þeirra undir 18 ára aldri sjálfkrafa sænskir ríkisborgarar.
Ef annað foreldranna/forráðamannanna sækir um eða sendir yfirlýsingu um sænskan ríkisborgararétt fá ógift börn viðkomandi undir 18 ára aldri sjálfkrafa sænskan ríkisborgararétt ef:
- foreldrið/forráðamaðurinn hefur fullt forráð.
- foreldrarnir/forráðamennirnir hafa sameiginlegt forráð og annað þeirra er sænskur ríkisborgari.
Hvernig tek ég aftur upp sænskt ríkisfang?
Ef þú hefur af einhverjum ástæðum verið undanþegin(n) sænsku ríkisfangi eða misst sænskt ríkisfang þitt getur þú í vissum tilfellum endurheimt það með því að senda yfirlýsingu til lénsyfirvalda á þínu svæði.
Upplýsingar um hvernig sænskt ríkisfang er tekið upp aftur og hvaða eyðublöð þarf að senda inn er að finna á vefsvæði Migrationsverket.
Hvernig tek ég aftur upp ríkisfang annars norræns ríkis?
Ef þú varst áður ríkisborgari annars norræns ríkis en misstir ríkisfang þitt þegar þú gerðist sænskur ríkisborgari getur þú í vissum tilfellum tekur upprunalegt ríkisfang þitt upp aftur.
Ef þú varst áður danskur ríkisborgari en misstir danska ríkisfangið þegar þú gerðist sænskur ríkisborgari getur þú í vissum tilfellum tekið aftur upp danskt ríkisfang með yfirlýsingu.
Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu útlendinga- og aðlögunarráðuneyti Danmerkur.
Ef þú varst áður finnskur ríkisborgari en misstir finnska ríkisfangið þegar þú gerðist sænskur ríkisborgari getur þú sent inn yfirlýsingu um ríkisfang. Ef þú uppfyllir skilyrðin færðu aftur finnskt ríkisfang.
Nánari upplýsingar um endurupptöku finnsks ríkisfangs er að finna á vefsíðu sendiráðs Finnlands í Stokkhólmi.
Hafðu samband við Útlendingastofnun til að fá upplýsingar um hvernig þú getur tekur aftur upp íslenskt ríkisfang.
Ef þú varst áður norskur ríkisborgari en misstir norska ríkisfangið þegar þú gerðist sænskur ríkisborgari getur þú sent inn yfirlýsingu um ríkisfang. Ef þú uppfyllir skilyrðin færðu aftur norskt ríkisfang.
Upplýsingar um endurupptöku norsks ríkisfangs er að finna á vefsíðu norsku útlendingastofnunarinnar, Utlendingsdirektoratet.
Sænskur ríkisborgararéttur fyrir ríkisborgara ríkja utan Norðurlanda
Ef þú ert ríkisborgari í landi utan Norðurlanda og vilt verða sænskur ríkisborgari geturðu sótt um að fá sænskan ríkisborgararétt hjá Migrationsverket.
Tvöfalt ríkisfang
Öll norrænu löndin leyfa tvöfalt ríkisfang. Svíþjóð leyfði það frá árinu 2001, Finnland og Ísland frá 2003, Danmörk frá 2015 og Noregur frá 2020.
Það þýðir að í dag er hægt að vera ríkisborgari tveggja norrænna ríkja í einu. Ef þú færð ríkisborgararétt í öðru norrænu landi heldur þú áfram upprunalegu ríkisfangi þínu.
Ef þú ert með tvöfalt ríkisfang áttu rétt á að panta vegabréf frá báðum löndunum.
Upplýsingar um verð og kröfur ríkisborgararéttar og vegabréfa er að finna á vefsíðum landanna.
Öll Norðurlöndin leyfa hins vegar að barn fái tvöfalt ríkisfang við fæðingu. Norðurlöndin hafa þó þá reglu að barnið missir sjálfkrafa ríkisborgararéttinn ef barnið hefur ekki búið í viðkomandi landi fyrir 22 ára aldur.
Réttindi og skyldur í tengslum við sænskt ríkisfang
Bæði réttindi og skyldur fylgja því að vera sænskur ríkisborgari.
Aðeins einstaklingar með sænskt ríkisfang geta kosið og boðið sig fram í þingkosningunum í Svíþjóð.
Sænskir ríkisborgarar geta verið kvaddir til að sinna herskyldu, geta fengið sænskt vegabréf og eiga rétt á aðstoð utanríkisþjónustunnar erlendis.
Meginreglan er sú að þau sem keppa fyrir hönd Svíþjóðar í íþróttum þurfa að vera sænskir ríkisborgarar.
Auk þess er gerð krafa um sænskt ríkisfang fyrir tilteknar stöður hjá hinu opinbera, lögreglunni og hernum.
Ríkisfang hefur þó engin eða mjög takmörkuð áhrif á flest önnur réttindi og skyldur, svo sem almannatryggingar, rétt til grunnskólamenntunar og skatta. Þetta ræðst yfirleitt af því hvar fólk býr og/eða starfar.
Nánari upplýsingar um réttindi og skyldur í tengslum við sænskt ríkisfang er að finna á vefsvæði Migrationsverket.
Kostir og gallar tvöfalds ríkisfangs
Ekkert Norðurlandanna sviptir fólk ríkisborgararétti fyrir að taka upp ríkisfang í öðru landi. Ekki þarf heldur að senda umsókn til stofnana „gamla landsins“ til að halda ríkisfangi.
Þú nýtur sömu réttinda og berð sömu skyldur gagnvart báðum ríkjum þínum og allir aðrir ríkisborgarar þeirra beggja. Ef þú ert ríkisborgari tveggja landa þarftu að vita hvaða réttindi þú nýtur og skyldur þú berð í hinu landinu.
Önnur réttindi
Á meðal kosta þess að hafa tvöfalt ríkisfang er að eiga rétt á frjálsri för til fleiri landa, rétt til að vinna eða stunda nám í fleiri löndum, að gefa eigin börnum rétt á fleiri ríkisföngum, eiga rétt á að eiga fastar eigir í mörgum löndum og hafa kosningarétt og rétt til að bjóða sig fram í kosningum í tveimur eða fleiri löndum.
Þú hefur óskorðaðan rétt til að búa og starfa í landi ríkisfangs þíns og hefur kosningarétt í þingkosningum (danskir ríkisborgarar þurfa þó að búa í Danmörku til þess). Þú getur boðið þig fram í þingkosningum, gerst stjórnmálamaður eða starfað í her eða í öðru starfi sem krefst ríkisborgararéttar.
Þú átt rétt á mörgum vegabréfum – einu frá hverju því landi sem þú ert ríkisborgari í. Mundu að þegar þú ferðast til og frá landi þarftu að nota sama vegabréf.
Vernd utanríkisþjónustu og herskylda
Á meðal galla má nefna hættu á að njóta ekki verndar utanríkisþjónustu landsins við dvöl í öðru landi, að þurfa að gegna herskyldu í fleiri en einu landi og hættu á árekstrum milli fjölskylduréttarlaga landanna.
Þú hefur að meginreglunni til rétt á aðstoð utanríkisþjónustu og stofnanna beggja landanna. Þó getur verið erfiðleikum bundið fyrir stofnanir eins lands að aðstoða þig ef býrð í öðru landi þar sem þú ert einnig ríkisborgari.
Ríkisborgarar norrænna landa gegna yfirleitt herskyldu í viðkomandi landi. Einstaklingar með tvöfalt ríkisfang geta valið að ljúka herskyldu í öðru hvoru landanna.
Herskylda getur einnig gilt þrátt fyrir að þú búir í öðru landi og takir upp tvöfalt ríkisfang. Þannig gætir þú til dæmis fengið hverkvaðningu í tengslum við heimsókn til hins landsins sem þú átt ríkisfang í.
Alþjóðasamningur 44/1968 mælir þó fyrir um að einstaklingur með tvöfalt ríkisfang skuli gegna herskyldu í því landi þar sem hann er búsettur. Þú berð því aðeins herskyldu í búsetulandi þínu samkvæmt alþjóðasamningi um herþjónustu og ríkisborgararétt sem Svíþjóð hefur gert við Danmörk, Finnland og Noreg.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.