Aðlögun að loftslagsbreytingum: Spurning um öryggi

24.04.23 | Fréttir
Guðlaugur Thór Thórdarson, Iceland

Islands minister for klima, energi og miljø, Guðlaugur Thór Thórdarson, på scenen under klimatilpasningskonferencen NOCCA i april 2023.

Photographer
norden.org

Guðlaugur Þór Þórðarson, loftslags-, orku- og umhverfisráðherra, á norrænu ráðstefnunni NOCCA um loftslagsbreytingar og aðlögun í apríl 2023.

Sjónum var beint að því hvernig borgir og sveitarfélög á Norðurlöndum geti aðlagað sig að loftslagsbreytingum á norrænni ráðstefnu um loftslagsbreytingar og aðlögun, NOCCA, sem fram fór í Reykjavík í síðustu viku.

Flóð, aurskriður og óvissa í tengslum við matvælaframleiðslu og afhendingaröryggi eru aðeins nokkur dæmi um þær afleiðingar loftslagsbreytinga sem við sjáum nú þegar og munu færast í aukana í framtíðinni. Það skiptir því sköpum að við aðlögum okkur nýrri stöðu og það með hraði.

„Saga mannsins er saga aðlögunar. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir örum breytingum sem eiga sér stað á heimsvísu. Við verðum að gera okkur grein fyrir áhættuþáttum á hverjum stað og hluti af því felst í því að átta okkur á áhrifum hnattrænna og staðbundinna áhættuþátta á daglegt líf,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, loftslags-, orku- og umhverfisráðherra.

Spurning um öryggi

Dregin var upp dökk mynd þegar fremstu sérfræðingar Norðurlanda kynntu störf sín á fyrsta degi rannsóknarinnar.

„Lofsslagsaðlögun snýst líka um öryggi almennings,“ sagði Therése Sjöberg, formaður sænsku sérfræðinefndarinnar um loftslagsaðlögun, á sviðinu á Grand hótel í Reykjavík. Hún vísaði í skýrslu nefndarinnar frá 2022 þar sem loftslagsaðlögun er tengd við öryggi almennings meðal annars með tilliti til matvælaöryggis, öruggs aðgengis að vatni og útbreiðslu sjúkdóma sem eru nokkur þeirra atriða sem loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á.

Norrænt samstarf mikilvægt

Mikill hluti vinnunnar í tengslum við loftslagsaðlögun mun eiga sér stað á vettvangi sveitarfélaga.

„NOCCA er mikilvægur vettvangur fyrir þróun norrænnar samvinnu með það fyrir augum að ná heimsmarkmiðum varðandi aðlögun og efla viðnámsþrótt okkar í framtíðinni,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands. Lausnirnar eru til. Á ráðstefnunni voru kynntar rannsóknarniðurstöður ýmissa verkefna sem studd eru af Norrænu ráðherranefndinni. Norræna erfðaauðlindastofnunin, Nordgen, kynnti vinnu sína í tengslum við villta ættingja ræktaðra plantna og fjögurra ára verkefni varðandi náttúrumiðaðar lausnir á Norðurlöndum kynnti niðurstöðu úttektar á bestu aðferðum á Norðurlöndum.

Aukið samstarf og betri miðlun þekkingar þvert á landamæri getur stuðlað að því að tryggja betri árangur af aðgerðum sveitarfélaga og svæða á Norðurlöndum. Jafnframt getur það átt þátt í að tryggja samþættingu þeirra loftslagsaðlögunarlausna sem ráðist verður í á vettvangi sveitarfélaga.

Einnig voru haldnar ýmsar vinnustofur á ráðstefnunni. Niðurstöður þeirra verða teknar saman í stefnuskjali sem notað verður í áframhaldandi vinnu í tengslum við loftslagsaðlögun á Norðurlöndum á bæði ECCA23 og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28.