Afdráttarlaus stuðningur við Úkraínu

22.03.22 | Fréttir
Ukraine
Photographer
Lars Dareberg / norden.org
Við þurfum á stuðningi ykkar að halda – hvern dag, hverja mínútu. Með þessum orðum hóf Mykhailo Vydoinyk, sendiherra Úkraínu í Kaupmannahöfn, mál sitt á þemaþingi Norðurlandaráðs og var tekið með standandi lófataki stjórnmálafólks frá öllum Norðurlöndum og Eystrasaltsráðinu. Í dag var stjórnmálafólkið saman komið í Malmö til þess að ræða hvernig Norðurlöndin gætu komið Úkraínu til hjálpar gegn innrás Rússa.

Innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar 2022. Fulltrúar Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar, Eystrasaltsráðsins og sendiherra Úkraínu ræddu aðstæðurnar á þemaþingi Norðulandaráðs. Hjá öllum ríkir ótti og fordæming gagnvart innrás Rússa í Úkraínu. Og sömuleiðis afdráttarlaus stuðningur við Úkraínu: 

„Norðurlandaráð fordæmir harðlega hrottalega, ólöglega og tilefnislausa innrás í Úkraínu,“ sagði Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs áður en hann setti umræður um norrænar tillögur að lausn sem skapað gæti frið í Úkraínu.

Norrænt velferðarsamfélag til hjálpar úkraínsku flóttafólki

Fram kom í umræðunum að tölur frá Rauða krossinum sýndu að sex milljónir barna eru nú föst í Úkraínu innan um sprengjur og brennandi byggingar. Stjórnmálafólkið lýsti því yfir að Norðurlöndin myndu áfram veita mannúðaraðstoð í Úkraínu. Um leið eru nálægt tíu milljónir manna á flótta. Hluti þeirra innan Úkraínu og hluti annars staðar í Evrópu. Mest eru þetta konur og börn. Karlmennirnir verða eftir til að berjast. Norski samstarfsráðherrann, Anne Beathe Tvinnereim, lagði áherslu á að norræna velferðarsamfélagið væri vel í stakk búið til að hjálpa fólki í vanda og myndi einnig gera það nú.

„Saman erum við á Norðurlöndum tilbúin til þess að hjálpa þeim fjölda fólks í Úkraínu sem hrakinn hefur verið á flótta vegna grimmilegra stríðsaðgerða Rússa,“ sagði Anne Beathe Tvinnereim. 

 

Úkraína óskar eftir hernaðarlegum stuðningi

Úkraínski sendiherrann í Danmörku er þakklátur þeirri hjálp sem Úkraína fær frá Norðurlöndum en kallar eftir frekari hernaðarlegum stuðningi.

„Ég vil vera heiðarlegur gagnvart ykkur. Þessi hjálp nægir okkur ekki. Stærð óvinarins sem við stöndum frammi fyrir gerir að verkum að við þurfum á frekari aðstoð að halda. Fyrst og fremst vantar okkur vopn,“ segir Mykhailo Vydoinyk, sendiherra Úkraínu í Danmörku.  

Harðar aðgerðir gegn ríkisstjórn Rússlands

Í umræðunum átti sér einnig stað sjálfsskoðun. Fulltrúar Eystrasaltsráðsins hörmuðu að viðbrögð umheimsins gagnvart Rússum hefðu ekki verið harðari í tengslum við innlimun Krímskaga árið 2014. Hans Wallmark frá Moderaterna í Svíþjóð benti einnig á þetta atriði. Hann lagði áherslu á að umheimurinn yrði að bregðast við með hörðum aðgerðum og velta til dæmis fyrir sér afstöðunni til gasleiðslunnar Nord Stram 2.

Áframhaldandi aðstoð

Forseti Norðurlandaráðs lauk umræðunum með því að þakka sendiherra Úkraínu og lofaði að Norðurlöndin myndu halda áfram að styðja Úkraínu og til lengri tíma litið ríkti einnig vilji til þess að styðja enduruppbyggingu í landinu.

 

Sjá umræðurnar hér: