BLOGGSÍÐA FRAMKVÆMDASTJÓRANS: Látum risann sjást

26.11.18 | Fréttir
Samtale ved statsministrenes møde, Nordisk Råds Session 2018

Samtale ved statsministrenes møde, Nordisk Råds Session 2018

Ljósmyndari
Sara Johannessen
Að þessu sinni skrifar framkvæmdastjórinn, Dagfinn Høybråten, um umbótastarfið í Norrænu ráðherranefndinni og um að það sé verkefni án lokadagsetningar að standa fyrir pólitískri starfsemi sem hefur vægi.

Nýlega las ég fyrir tilviljun grein í tímaritinu Energi og Klima undir fyrirsögninni “Den usynlige kjempen”. Risinn í greininni var norrænt samstarf. Höfundurinn taldi að gríðarlegt samstarf færi fram á norrænum vettvangi en að fáir vissu nákvæmlega hvað í því fælist: „Hvernig getur slík samvinna á efsta stigi stjórnmálanna farið fram hjá svo mörgum og hvaða afleiðingar hefur það?,“ spyr hún.

Til að lýsa umfangi samstarfsins lýsir höfundurinn síðasta ráðherrafundinum á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Á fundinum ræddu norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir meðal annars um þáttöku Norðurlandanna í loftslagsráðstefnunni COP24 í Katowice í desember á þessu ári. Svíþjóð lagði til að unnin yrði sameiginleg norræn tillaga að yfirlýsingu vegna hinna svokölluðu Talanoa-umræðna sem kynntar voru af Fídjíeyjum á COP23 í Bonn. Þá var það tillaga Finna að norrænu forsætisráðherrarnir yrði boðaðir til norræns fundar með umhverfis- og loftslagsráðherrunum til að fylgja eftir COP24.

Það voru þó ekki eingöngu loftslagsmál sem voru til umræðu á fundi norrænu umhverfis og loftslagsráðherranna. Auk þeirra voru sjálfbærar borgir á dagskrá, hafið og stefnumótandi úttekt á því hvernig hægt sé að þróa norrænt samstarf á sviðinu.

Eins og lýst er í greininni er norrænt samstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála mikilvægt bæði fyrir vinnu norrænu ríkisstjórnanna að því að stuðla að sjálfbærri þróun í hverju landi fyrir sig og fyrir það hvernig þau starfa saman alþjóðlega. Það sama á við um mörg önnur svið þar sem norrænu ríkisstjórnirnar starfa saman að mikilvægum verkefnum – og ná mikilvægum árangri.

Þegar ég kom til starfa hjá Norrænu ráðherranefndinni vorið 2013 hafði nýverið birst forsíðugrein í The Economics um norræna líkanið undir fyrirsögninni: „The Next Supermodel?“. Heimurinn sóttist eftir norrænum lausnum á breiðu sviði. Heima fyrir sóttust íbúarnir um leið eftir auknu norrænu samstarfi. En ef Norðurlöndunum átti að takast að standa undir væntingum yrðu verkfærin í samstarfinu að verða beittari og pólitískur metnaður meiri. Þess vegna kom ég með umbótaverkefni frá norrænu ríkisstjórnunum með mér þegar ég kom til ráðherranefndarinnar. Umbæturnar einkenndust ekki síst af vilja til að auka pólitískan styrk samstarfsins, bæði milli norrænu ríkjanna og alþjóðlegum vettvangi.

Norrænu ráðherranefndinni hefur tekist að endurnýja sig gegnum umbótastarfið. Starfið tekur nú til málefna sem skipta máli fyrir norrænu ríkisstjórnirnar, almenning og atvinnulíf. Hér er meðal annars átt við verkefni á sviði aðlögunar flóttafólks og innflytjenda, aukins samstarfs við Evrópusambandið og rafrænna auðkenna sem eiga að auðvelda fyrirtækjum og einstaklingum að flytja milli Norðurlandanna. Auk þess er fjallað um hvernig styrkja megi atvinnulífið til framtíðar á Norðurlöndum, hvernig takast megi á við afleiðingar loftslagsbreytinga í norrænu ríkjunum, stofnun norrænna nýsköpunarmiðstöðva víðsvegar um heiminn og mörg önnur verkefni. Sú stefna hefur verið ríkjandi að verkefnin séu þverfagleg, þ.e. reynt er að takast á við vandamál sem ekki er einfalt að eiga við innan hins hefðbundna norræna samstarfs.

Norrænt samstarf hefur tekið miklum breytingum í þessu ferli, bæði á Norðurlöndum og á alþjóðlegum vettvangi og nú er það tilbúið til þess að takast á við stöðugt flóknari verkefni. Eitt af því sem umbótastarfið hefur haft í för með sér er að norrænu ríkisstjórnirnar gera nú meiri kröfur. Þær hafa þörf fyrir aukið samstarf á norrænum vettvangi og búast við árangri.

Mér finnst, eins og greinarhöfundinum í Energi og Klima, að þörf sé á að „auka sýnileika risans“. Norrænt samstarf á skilið að fá athygli á grundvelli árangurs og áhrifa sem það hefur. Það var líka hugsunin sem lá að baki skýrslunni „Mulighetenes Norden“ sem nýlega kom út en þar er litið nánar á hluta þess árangurs og áhrifa sem umbótastarfið hefur leitt til.

Fleiri tækifæri eru þó fyrir hendi. Til þess að þau megi verða að veruleika þarf áframhaldandi breytingastarf og enn frekari brýningu á verkfærunum. Það er verkefni án lokadagsetningar að standa fyrir pólitískri starfsemi sem hefur vægi.

Tengiliður