COP26: Grænland gerist aðili að Parísarsáttmálanum

01.11.21 | Fréttir
The Prime Minister of Greenland, Mute B Egede, at the Nordic Pavilion at COP26
Photographer
Maria Andersen
Múte Bourup Egede, forsætisráðherra Grænlands, hélt í dag fréttamannafund í norræna skálanum á COP26-loftlagsráðstefnunni þar sem hann tilkynnti að grænlenska þingið hefði ákveðið að landið skuli gerast aðili að Parísarsáttmálanum. Hægt er að fylgjast með næstu fréttamannafundum úr norræna skálanum á netinu.

Á hverjum degi gefur norræni skálinn innsýn í þær viðræður sem eiga sér stað á COP26 í Glasgow. Í dag heimsótti Múte Bourup Egede, forsætisráðherra Grænlands, norræna skálann, þar sem hann kynnti markmið Grænlands um grænni framtíð.

„Ég er stoltur af því að hin nýja Naalakkersuisut, ríkisstjórn Grænlands, hefur tekið þá ákvörðun að Grænland skuli gerast aðili að Parísarsáttmálanum,“ sagði Múte Bourup Egede, forsætisráðherra Grænlands.

Norðurskautssvæðið er eitt þeirra svæða sem hlýnun jarðar hefur hvað mest áhrif á og við teljum okkur verða að taka sameiginlega ábyrgð. Það þýðir að við verðum líka að leggja okkar af mörkum.

Múte Bourup Egede, forsætisráðherra Grænlands

Rafrænt aðgengi að daglegum fréttamannafundum

Á meðan COP26 stendur yfir verður framgangur viðræðnanna kynntur á daglegum fréttamannafundum í norræna skálanum með formönnum norrænu sendinefndanna. Þú getur fylgst með fundunum jafnvel þótt þú hafir ekki skráð þig á COP26. Allir daglegu fréttamannafundirnir verða sendir út á netinu. Kynntu þér streymisdagskrána hér:

Fleiri en 100 viðburðir í norræna skálanum

Ert þú í Glasgow á meðan COP26 stendur yfir? Líttu við í norræna skálanum og kynntu þér norrænar lausnir í loftlagsmálum. Heildaryfirlit yfir dagskrána er að finna hér, á sniði sem hentar fyrir snjallsíma:

Choosing Green

Norðurlöndin eru heimili okkar. Alls staðar á Norðurlöndum, í borgum og sveitum, reynum við að lifa í sátt við náttúruna og skapa sjálfbær samfélög.

En við verðum að gera betur. Loftslagsbreytingar, mengun og ógn við líffræðilega fjölbreytni kalla á athygli okkar og að við bregðumst við. Norræna líkanið stendur einnig frammi fyrir vaxandi áskorunum þegar þrýst er á varðandi lýðræði, samþættingu og inngildingu.

Á Norðurlöndum stefnum við að því að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Við erum staðráðin í að sýna hvað þetta þýðir í raun í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni „Choosing Green“.