Engin ungmenni eiga að vera utangarðs í samfélaginu

Noregur gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og bauð í dag norrænu félagsmálaráðherrana velkomna á fundinn. Á fundinum var rætt um þverfaglegar norrænar lausnir sem eiga að greiða fyrir betri inngildingu unga fólksins í menntakerfinu, á vinnumarkaði og almennt í samfélaginu.
„Engin ungmenni eiga að vera utangarðs í samfélögum Norðurlanda. Stjórnvöld, einkafyrirtæki og félagasamtök vinna að þessu markmiði dag hvern. Og þegar við vinnum saman að þessu á norrænum vettvangi og skiptumst á hugmyndum þá verðum við stöðugt betri og vísari. Að mínu mati er fundurinn í dag einnig gott dæmi um þetta,“ segir norski vinnu- og aðlögunarmálaráðherrann, Marte Mjøs Persen.
Inngilding ungs fólks í skóla, vinnu og samfélag
Markmið fundarins og umræðnanna var að miðla þekkingu á aðgerðum sem þróað geta þann hluta norræna velferðarlíkansins sem beinist að ungu fólki án menntunar og atvinnu. Ráðherrarnir ræddu skýrslu verkefnisins Inclusion of young people in school, work and society, þá einkum um mikilvægi tengslamyndunar, ráðgjafar og einstaklingsbundinna aðgerða og aðferða til að efla samfélagsleg tengsl unga fólksins.
Engin ungmenni eiga að vera utangarðs í samfélögum Norðurlanda. Stjórnvöld, einkafyrirtæki og félagasamtök vinna að þessu markmiði dag hvern. Og þegar við vinnum saman að þessu á norrænum vettvangi og skiptumst á hugmyndum þá verðum við stöðugt betri og vísari. Að mínu mati er fundurinn í dag einnig gott dæmi um þetta
Margar ástæður að baki jaðarsetningu
Öll ungmenni eiga sína eigin sögu sem útskýrir hvers vegna þau lenda í viðkvæmri stöðu. Samt sem áður má finna sameiginlega þætti eins og fram kemur í annarri norrænni rannsókn, Nordic co-operation on young people’s mental health. Meðal annars þegar unga fólkið er af félagslega jaðarsettum og efnalitlum heimilum, glímir við andlega erfiðleika eða er afkomendur flóttafólks. Norrænu ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að allt ungt fólk fengi menntun, kæmist á vinnumarkað og væri almennt þátttakendur í samfélaginu. Auk þess styðja ráðherrarnir framtíðarsýnina um félagslega sjálfbær Norðurlönd.