Flóttamannavandinn þema á þingi Norðurlandaráðs

19.10.15 | Fréttir
Harpa
„Við verðum strax að byrja að efla úrræði til að afgreiða málefni hælisleitenda og auka skilvirkni þess ferlis sem fyrir er, sem oft er afar langdregið og kostnaðarsamt. Gott væri ef við gætum í sameiningu þróað nýjar og skilvirkari starfsvenjur við þá vinnu,“ segir Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, sem væntir mikils af þinginu sem fram fer í Reykjavík 27.–29. október.

Þingið er stærsti norræni viðburður ársins þar sem þingmenn, forsætisráðherrar og fagráðherrar frá öllum Norðurlöndum hittast og ræða saman.

„Við þurfum að stuðla að því að flóttafólki, sem fær hæli á Norðurlöndum, gangi vel að koma sér fyrir í samfélögum okkar og að það fái tækifæri til að nýta hæfni sína, sjálfu sér og samfélaginu til góða. Hér getum við eflt reynslumiðlun milli norrænu landanna og lært hvert af öðru,“ segir Höskuldur.

Á þingi Norðurlandaráðs funda norrænu forsætisráðherrarnir hver með öðrum og með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Norrænu samstarfsráðherrarnir og utanríkisráðherrarnir funda einnig með forsætisnefndinni. Auk þess fer fram fjöldi fagráðherrafunda meðan á þinginu stendur. Miðvikudaginn 28. október verður í fyrsta skipti efnt til fyrirspurnatíma þingmannanna með öllum norrænu umhverfisráðherrunum.

Við þurfum að stuðla að því að flóttafólki, sem fær hæli á Norðurlöndum, gangi vel að koma sér fyrir í samfélögum okkar og að það fái tækifæri til að nýta hæfni sína, sjálfu sér og samfélaginu til góða. Hér getum við eflt reynslumiðlun milli Norðurlandanna og lært hvert af öðru.

 

Vill taka höndum saman um að leysa vandann

Hvernig getum við stuðlað að nánara samstarfi á Norðurlöndum? Því munu norrænu forsætisráðherrarnir svara á leiðtogafundi sínum með þingmönnum í Norðurlandaráði. Leiðtogafundurinn fer fram við upphaf þingsins, en almennt þema fundarins er alþjóðastjórnmál frá norrænu sjónarhorni.

„Ekkert land getur leyst þessi úrlausnarefni eitt síns liðs. Þess vegna eiga norrænu forsætisráðherrarnir að vinna að samstöðu Evrópulanda. Fyrsta skrefið gæti verið að finna sameiginlegan norrænan vettvang, bæði með hliðsjón af víðara samhengi í evrópsku samstarfi og því hvernig við leysum vandamál sem upp koma á landamærum Norðurlandanna. Við verðum líka að auka stuðning við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar stofnanir sem vinna að því að bæta lífsskilyrði flóttamanna á grannsvæðum Sýrlands,“ segir Höskuldur Þórhallsson.

Christian Friis Bach, framkvæmdastjóri Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, verður frummælandi í umræðunum um alþjóðastjórnmál þann 28. október í Reykjavík. Flóttamannavandinn verður til umfjöllunar í tengslum við hnattræn markmið SÞ um sjálfbæra þróun.

Nánari upplýsingar: 

Aukaviðburður á þinginu

Norðurlandaráð ákvað í vikunni að efna til aukaviðburðar á þinginu, mánudaginn 26. október kl. 16:00–17:30. Frummælendur á viðburðinum verða Jean-Christophe Dumont hjá alþjóða innflytjendadeild Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og  Roderick Parkes, sérfræðingur í greiningu á fólksflutningum og innri málefnum hjá Stofnun Evópusambandsins í öryggisfræðum.

Viðburðurinn er opinn fjölmiðlafólki og verður sendur út á netinu hér:

Þann 29. október kemur David Cameron til Íslands og fundar með forsætisráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

Nánari upplýsingar:

Afhending verðlauna Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent þriðjudaginn 27. október. Verðlaunaafhendingin fer fram í Hörpu. Strax að verðlaunaafhendingunni lokinni verður blaðamannafundur í Hörpu með handhöfum bókmennta-, barna- og unglingabókmennta-, kvikmynda-, tónlistar- og náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Skráningu blaðamanna á þingið lýkur 23. október

Blaðamenn og ljósmyndarar sem vilja fylgjast með þinginu og verðlaunaafhendingunni verða að skrá sig í síðasta lagi 23. október á þessari síðu.

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur norrænna þingmanna. Á árlegu haustþingi fer fram pólitísk umræða milli Norðurlandaráðs og fulltrúa ríkisstjórnanna í Norrænu ráðherranefndinni. Hægt er að fylgjast með þinginu á Twitter undir kassamerkjunum #nrsession og #nrpol